Ársskýrsla RNF 2006 komin út
Rannsóknarnefnd flugslysa tók árið 2006 alls 41 mál til formlegrar rannsóknar en árið 2005 voru málin 23. Árin 2004 og 2003 var fjöldinn 41 hvort ár, 38 árið 2002 og 20 2001. Ársskýrsla nefndarinnar fyrir síðasta ár er nýverið komin út.
Ekki hefur orðið banaslys í íslensku loftfari síðustu árin og frá árinu 1998 til 2006 var eitt banaslys í íslenskri flugvél. Árið 1998 fórst erlend flugvél með þremur mönnum skammt frá Hornafirði og árið 2001 fórst einnig erlend vél við Vestmannaeyjar þar sem tveir létust.
Rannsóknarnefndin semur skýrslur um formlegar rannsóknir sem fara fram en minniháttar rannsóknum og þeim rannsóknum sem nefndin telur að hafi ekki flugöryggislegt gildi er lokið með bókun. Á síðasta ári vann RNF að útgáfu 16 skýrslna vegna flugslysa eða alvarlegra flugatvika sem urðu þá. Meðaltal síðustu 20 ára er 13 útgefnar skýrslur á ári.
Árið 2006 gerði RNF 14 tillögur um úrbætur í flugöryggismálum í rannsóknum sínum. Meðal tillagnanna eru nokkrar sem beint var til Flugmálastjórnar Íslands en einnig var tillögum beint til annarra stofnana og fyrirtækja svo og til flugmanna.
Ársskýrslu RNF 2006 má sjá hér.