Hoppa yfir valmynd
22. mars 2013 Innviðaráðuneytið

Samningar um sóknaráætlanir landshluta marka tímamót

Samningar um sóknaráætlanir í átta landshlutum voru undirritaðir í Reykjavík í morgun að viðstöddum nokkrum ráðherrum, fulltrúum landshlutasamtaka sveitarfélaga um land allt, fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og fleiri aðila sem komið hafa við sögu. Samningarnir taka til 6 til 16 verkefna í hinum einstöku landshlutum en alls eru verkefnin 73 og fjárhæð samninganna alls um 620 milljónir króna.

Ögmundur Jónasson flutti ávarp við undirritun samninga um sóknaráætlanir landshluta.
Ögmundur Jónasson flutti ávarp við undirritun samninga um sóknaráætlanir landshluta.

Við undirritun samninganna tóku til máls þau Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Albertína F. Elíasdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, og Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.

Í ávarpi sínu sagði Ögmundur Jónasson meðal annars að milli innanríkisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefði tekist að koma á góðri samráðsvél sem skilað hefði ýmsum afurðum, meðal annars lagabreytingu um rafrænar íbúakosningar í sveitarfélögum og um lykilhlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga í skipulagi og framkvæmd almenningssamgangna um landið allt. Hann þakkaði starfsmönnum innanríkisráðuneytisins sem leitt höfðu vinnu við sóknaráætlunarverkefnið og öðrum starfsmönnum stjórnarráðsins sem hlut ættu að máli. Ráðherra sagði í lokin að þessir samningar mörkuðu tímamót.

Skrifað var undir samninga um sóknaráætlanir landshluta í dag.

Með undirritun samninganna er brotið blað í sögu samskipta landshlutasamtaka við Stjórnarráðið þegar kemur að úthlutun opinberra fjármuna til einstakra verkefna innan landshluta. Með þeim er staðfest nýtt verklag sem einfaldar þessi samskipti, gerir þau skilvirkari og stuðlar að bættri nýtingu fjármuna. Markmiðið er að færa aukin völd og aukna ábyrgð til  landshlutanna við forgangsröðun og skiptingu opinbers fjár sem rennur til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar. Í fyrstu eru verkefnin tengd atvinnumálum og nýsköpun, markaðsmálum,  menntamálum og menningarmálum. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að aðrir þættir byggðamála á borð við  velferðarmál og þróun innviða falli undir sama verklag.

Einfaldara og skilvirkara
Nú renna um 5 milljarðar króna frá ríki til landshluta á grundvelli um 200 samninga um styrki eða aðra fjármögnun verkefna sem ekki eru á forræði ríkisins. Ef það nýja verklag sem nú er tekið upp reynist vel skapar það grundvöll fyrir því að enn stærri hluti fjárframlaga ríkisins til landshluta verði færður í þennan nýja farveg. Sóknaráætlanir landshlutanna yrðu þannig hafðar til hliðsjónar við stefnumótun og áætlanagerð ríkisins og hefðu grundvallar þýðingu fyrir byggðamálin.

Sóknaráætlanir landshluta er þróunarverkefni ráðuneyta og sveitarfélaga sem byggist á samvinnu. Ráðuneytin skipa öll fulltrúa í hóp sem myndar stýrinet af hálfu Stjórnarráðsins. Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að stýrinetinu og Byggðastofnun hefur þar áheyrnarfulltrúa. Sóknaráætlanirnar og framkvæmd þeirra fylgir ákveðnum samskiptaás þar sem ráðuneytin og landshlutasamtökin ráða ráðum sínum. 

Með undirritun samninganna um sóknaráætlanir landshlutanna hafa alls 73 verkefni verið samþykkt og fengið úthlutað samtals 400 m.kr. úr ríkissjóði og eru mótframlög verkefnanna a.m.k. 220 m.kr. til viðbótar.

Skrifað var undir samninga um sóknaráætlanir landshluta í dag.                                                                                                         

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta