Hoppa yfir valmynd
13. maí 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Bæta þarf aðgang að stærri lyfjamörkuðum

Lyf
Lyf

Velferðarráðuneytið tekur undir ábendingu Ríkisendurskoðunar um að bæta þurfi aðgang að stærri lyfjamörkuðum. Ráðuneytið telur að í því skyni þurfi að endurskoða ákvæði laga um opinber innkaup sem kveður á um að gera þurfi samkeppnismat og afla rökstuðnings innkaupastofnunar áður en heimild er veitt til sameiginlegs útboðs vegna lyfjakaupa með öðrum þjóðum.

Ríkisendurskoðun hefur skilað Alþingi skýrslu um eftirfylgni með ábendingum stofnunarinnar sem settar voru fram í skýrslunni Þróun lyfjakostnaðar 2008-2010 frá árinu 2011. Ríkisendurskoðun leitaði þar svara við því hvort lyfjaverð á Íslandi væri sambærilegt við verð hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. Fram kom að aðgerðir íslenskra stjórnvalda á árunum 2008-2010 til að halda niðri lyfjakostnaði ríkisins hefðu verið árangursríkar, einkum vegna ákvörðunar um að einskorða greiðsluþátttöku hins opinbera í nokkrum dýrum lyfjaflokkum við ódýrustu lyfin. Eins hefði Landspítala tekist að lækka lyfjakostnað með útboði á lyfjum. Ríkisendurskoðun benti þó á að íslenskir neytendur hefðu takmarkaðri aðgang að ódýrum lyfjum en neytendur annars staðar á Norðurlöndunum, einkum vegna þess hve lyfjamarkaðurinn hér væri lítill. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirfyglni er ítrekuð fyrri ábending um að velferðarráðuneytið skuli vinna að því í samstarf við yfirvöld annarra landa að bæta aðgengi Íslendinga að stærri lyfjamörkuðum og segir stofnunin að með því gætu skapast skilyrði til að draga enn frekar úr lyfjakostnaði hérlendis.

Sjónarmið velferðarráðuneytisins

Velferðarráðuneytið og Landspítali hafa á undanförnum árum kannað möguleika á þátttöku í sameiginlegum útboðum með sjúkrahúsum á Norðurlöndum en með þeim hætti mætti spara miklar fjárhæðir. Með lögum nr. 56/2011 voru gerðar breytingar á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup sem áttu að auðvelda slíka möguleika. Lögin kveða hins vegar á um að gera þurfi sérstakt samkeppnismat auk rökstuðnings innkaupastofnunar áður en slík innkaup eru heimiluð. Ekki hefur enn reynt á þetta ákvæði en að mati Landspítala og velferðarráðuneytisins hefur krafan um sérstakt samkeppnismat virkað sem tæknileg hindrun og torveldað þennan möguleika. Ráðuneytið telur því ástæðu til að þetta ákvæði verði endurskoðað.

Skilgreina þarf hvernig meta skal árangur

Ríkisendurskoðun ítrekar einnig fyrri ábendingu um að skilgreina þurfi hvernig meta skuli árangur þegar gerðar eru viðamiklar breytingar á heilbrigðiskerfinu og því þurfi að ganga úr skugga um að lækkun kostnaðar á einu sviði leiði ekki til aukins kostnaðar annars staðar í heilbrigðiskerfinu.

Velferðarráðuneytið bendir á að landlæknir, sem samkvæmt lögum hefur eftirlit með heilbrigðisþjónust-unni, fylgdist vel með umræddum sparnaðaraðgerðum og hefur í bréfum til ráðuneytisins staðfest að þær hafi gengið vel og án sjáanlegra áfalla. Auk þessa má nefna að í doktorsritgerð; „Meðferðarheldni við lyf sem eru notuð langvarandi eða lotu-bundið: Hlutverk kerfi- og sjúklingaþátta við upphaf og lok meðferðar“ sem Guðrún Þengilsdóttir lyfjafræðingur varði við Háskóla Íslands þann 30. apríl sl. er komist að þeirri niðurstöðu að umræddar greiðsluþátttökubreytingar höfðu lítil áhrif á hlutfall einstaklinga sem héldu meðferð áfram eða byrjuðu meðferð á nýju lyfi. Ráðuneytið er að öðru leyti sammála því að alltaf megi gera betur í að meta árangur þeirra aðgerða sem ráðist er í.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta