Efling umræðu um fjölbreytileg úrræði í barnavernd
Meðfylgjandi bréf um eflingu umræðu um fjölbreytileg úrræði í barnavernd hefur verið sent sveitarstjórnum og barnaverndarnefndum sveitarfélaganna:
Velferðarvaktin
Félags- og tryggingamálaráðuneyti 20. apríl 2010
Til sveitarstjórna og barnaverndarnefnda sveitarfélaganna
Efling umræðu um fjölbreytileg úrræði í barnavernd
Í ljós hefur komið á undanförnum mánuðum að barnafjölskyldur eru sérstaklega viðkvæmar fyrir afleiðingum efnahagsástandsins sem nú ríkir í landinu í kjölfar hrunsins haustið 2008. Í nýjum gögnum Seðlabanka Íslands kemur fram að hlutfallslega fleiri heimili með börn eiga í erfiðleikum með að standa undir greiðslubyrði lána og lágmarksframfærslu en önnur heimili í landinu. Heimili einstæðra foreldra standa hlutfallslega verr en almennt gerist en einnig eiga ung pör með börn í verulegum vanda.
Velferðarvaktin hvetur sveitarstjórnir og barnaverndarnefndir til að beita sér fyrir aukinni umræðu meðal starfsfólks og kjörinna fulltrúa um fjölbreytileg úrræði til að koma til móts við þarfir barna og barnafjölskyldna. Í þessu sambandi er bent á að meðan á kreppunni stóð í Finnlandi í upphafi 10. áratugarins fjölgaði vistunum barna utan heimilis þar í landi. Þegar farið var yfir málin síðar var niðurstaðan sú að vistunum hafi verið beitt í tilvikum þar sem aðrar lausnir hefðu getað komið betur að gagni og verið farsælli fyrir framtíð barnanna.
Nánari upplýsingar um velferðarvaktina er að finna á heimasíðu vaktarinnar http://www.felagsmalaraduneyti.is/velferdarvaktin/
Hér má sjá gögn Seðlabanka Íslands frá 12. apríl 2010 http://sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=7736
Með góðum kveðjum,
Lára Björnsdóttir
formaður velferðarvaktarinnar