Nr. 1163/2024 Úrskurður
Hinn 20. nóvember 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 1163/2024
í stjórnsýslumáli nr. KNU24050144
Kæra […]
á ákvörðun Útlendingastofnuna
r
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 21. maí 2024 kærði […], fd. […], ríkisborgari Bandaríkjanna ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. maí 2024, um að hafna umsókn hennar um dvalarleyfi fyrir sjálfboðaliða, skv. 1. mgr. 67. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að fallist verði á umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli 67. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi hefur ekki verið með dvalarleyfi á Íslandi. Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi fyrir sjálfboðaliða, sbr. 1. mgr. 67. gr. laga um útlendinga, 21. febrúar 2024. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. maí 2024, var umsókn kæranda synjað. Í ákvörðuninni kemur fram að á meðal gagna málsins sé samningur milli kæranda og Hvalasafnsins, dags. 24. janúar 2024. Hvalasafnið sé sjálfeignarstofnun sem stundi atvinnurekstur og kærandi uppfylli því ekki skilyrði 1. mgr. 67. gr. laga um útlendinga. Við mat á því hvort umsækjendur uppfylli skilyrði undanþágu 5. mgr. 67. gr. laga um útlendinga hafi verið litið til þess að Vinnumálastofnun hafi áður veitt atvinnuleyfi til viðlíka starfa og kærandi komi til með að sinna. Með hliðsjón af því sé það mat Útlendingastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 5. mgr. 67. gr. laga um útlendinga.
Ákvörðunin var móttekin af kæranda samdægurs. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 21. maí 2024. Greinargerð kæranda og fylgigagn bárust kærunefnd 28. maí 2024.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er vísað til þess að hún hafi móttekið bréf frá Útlendingastofnun þar sem henni hafi verið veittur kostur á að leggja fram gögn um verkefni hennar fyrir Hvalasafnið og hvort markmið þeirra verkefna séu sannarlega í mannúðar- eða góðgerðarskyni. Kærandi hafi lagt fram skjal þar sem m.a. kemur fram að hún myndi ekki sinna störfum sem almennir starfsmenn Hvalasafnsins sinni. Verkefnið sé eingöngu í góðgerðarskyni og hún yrði staðsett á Vestfjörðum en ekki á Húsavík, þar sem Hvalasafnið og gjafabúðin séu staðsett. Sjálfboðaliðastarf hennar myndi því ekki fela í sér að sinna verkefnum starfsmanna Hvalasafnsins eða tilheyra atvinnustarfsemi safnsins. Kærandi ítrekar að verkefnið tengist ekki viðskiptum eða ferðaþjónustu í tengslum við Hvalasafnið og það sé eingöngu unnið í góðgerðarskyni. Löng hefð sé fyrir sjálfboðaliðastarfi á Íslandi, sem sé mikilvægt í þágu góðgerðarstofnana og menningar- og mannúðarstarfs. Fræðsla um náttúru- og verndarstarf, s.s. um fjöruhreinsun, gegni mikilvægu hlutverki í mannúðar- og góðgerðarstarfi. Verkefnið sé í samræmi við tiltekin markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun borga og samfélaga auk loftslagsaðgerða og lífríki hafsins. Í verkefninu felist að útvega fræðsluefni til bæjarfélagsins og skólabarna á Vestfjörðum. Kærandi vísar til þess að í ákvörðun Útlendingastofnunar telji stofnunin að fræðsluefnið feli í sér kynningarefni. Kærandi ítrekar að ekki sé um kynningarefni að ræða í neinum skilningi. Fræðsluefnið innihaldi leiðbeiningar um greiningar á hvölum, sem kenni fullorðnum og börnum að bera kennsl á hvali í sínu nærumhverfi og mismunandi tegundir sjávarmengunar.
Kærandi áréttar að fyrirhugaðir fundir (e. knowlegde exchange sessions) feli í sér tækifæri fyrir íbúa samfélagsins til að miðla þekkingu sinni um lífríki sjávar og sjálfbærniaðferðir. Með þeim sé með engu móti verið að auglýsa Hvalasafnið eða gjafavöruverslun þess á neinn hátt. Kærandi ítrekar að sjálfboðaliðastarf hennar á Vestfjörðum feli í aðalatriðum í sér fjöruhreinsanir af hennar hálfu í góðgerðarskyni. Kærandi vilji fræða íbúa hvernig þeir geti lagt sitt af mörkum til mismunandi verkefna, s.s. fjöruhreinsana. Meginmarkmið verkefnisins sé að bæta sjávarumhverfið á Vestfjörðum og styðja við sjávarþekkingu. Að framansögðu, telur kærandi að sjálfboðaliðastarf hennar uppfylli skilyrði fyrir dvalarleyfi fyrir sjálfboðaliða.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Umsókn um dvalarleyfi
Í 1. mgr. 67. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingum, eldri en 18 ára, dvalarleyfi hér á landi til þess að starfa fyrir frjáls félagasamtök sem starfa að góðgerðar- eða mannúðarmálum og eru ekki rekin í hagnaðarskyni auk þess að vera undanþegin skattskyldu skv. 4. gr. laga um tekjuskatt, sem og útlendingum sem koma til dvalar í trúarlegum tilgangi fyrir skráð trúfélög eða þjóðkirkjuna. Samkvæmt 5. mgr. 67. gr. laga um útlendinga er heimilt að víkja frá kröfu 1. mgr. að um samtök sé að ræða ef markmið tiltekins verkefnis er sannarlega í mannúðar- eða góðgerðarskyni.
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að meðal gagna málsins sé samningur milli kæranda og Hvalasafnsins, dags. 24. janúar 2024. Samkvæmt Skattinum sé Hvalasafnið sjálfseignarstofnun sem stundi atvinnurekstur og kærandi uppfylli því ekki skilyrði 1. mgr. 67. gr. laga um útlendinga. Við mat á því hvort umsækjendur uppfylli skilyrði undanþágu 5. mgr. 67. gr. laga um útlendinga hafi verið litið til þess hvort umsækjandi þurfi atvinnuleyfi til að sinna viðkomandi starfi. Samkvæmt svari frá Vinnumálastofnun hafi stofnunin áður veitt atvinnuleyfi til viðlíka starfa og kærandi komi til með að sinna. Með hliðsjón af því væri það mat Útlendingastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 5. mgr. 67. gr. laga um útlendinga.
Við mat á undanþágu samkvæmt 5. mgr. 67. gr. laga um útlendinga er til þess að líta að í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna segir að ákvæðið sé undantekningarregla um að heimilt sé að víkja frá kröfu 1. mgr. um að samtök sé að ræða ef markmið tiltekins verkefnis er sannarlega í góðgerðar- eða mannúðarskyni. Ákvæðið veitir þannig heimild fyrir ríkisstofnanir, sveitarfélög og einkafyrirtæki til að fá til sín sjálfboðaliða í viðfangsefni á þeirra vegum svo lengi sem verkefnin eru í góðgerðar- eða mannúðarskyni.
Fyrir liggur samningur milli kæranda og Hvalasafnsins þar sem fram kemur að kærandi muni sinna sjálfboðastarfi fyrir Hvalasafnið á Vestfjörðum og að hún muni vinna 20 klukkustundir á viku. Þar kemur einnig fram að kærandi sé ekki undir neinum kringumstæðum starfsmaður Hvalasafnsins og að sjálfboðaliðastarf hennar feli einungis í sér framlag af hennar hálfu sem hún fái ekki greidd laun fyrir. Fram kemur einnig að kærandi muni framfæra sjálfri sér hér á landi ásamt því að sjá sér fyrir húsnæði. Samkvæmt greinargerð kæranda og bréfi frá forstöðumanni Hvalasafnsins felst verkefni kæranda í að miðla fræðslu til borgara á Vestfjörðum í góðgerðarskyni og fjöruhreinsanir. Þá er meginmarkmið verkefnisins að bæta sjávarumhverfið á Vestfjörðum og styðja við sjávarþekkingu. í greinargerð eru færð rök fyrir því að kærandi muni ekki koma til með að sinna verkefnum sem almennir starfsmenn Hvalasafnsins sinni. Sjálfboðaliðastarf kæranda tilheyri ekki atvinnustarfsemi safnsins. Þá tengist verkefnið ekki viðskiptum eða ferðaþjónustu í tengslum við Hvalasafnið. Í verkefninu felist að útvega fræðsluefni til bæjarfélagsins og skólabarna á Vestfjörðum. Sjálfboðaliðastarf kæranda á Vestfjörðum feli í aðalatriðum í sér fjöruhreinsanir af hennar hálfu í góðgerðarskyni og hún vilji fræða íbúa um hvernig þeir geti lagt sitt af mörkum til mismunandi verkefna, s.s. fjöruhreinsana.
Fyrir liggur álit Vinnumálastofnunar um að stofnunin hafi veitt atvinnuleyfi fyrir viðlíka störf og kærandi komi til með að sinna. Án frekari rökstuðnings er lítur að umsókn kæranda verður slíkt álit ekki talið bindandi fyrir niðurstöðu þessa máls enda er þar eingöngu vísað til viðlíka starfa án frekari tilgreiningar. Þá er ljóst að lögskýringargögn gefa ekki gleggri mynd af því hvaða verkefni séu sannarlega í mannúðar- eða góðgerðarskyni og ráðherra hefur ekki nýtt heimild 7. mgr. 67. gr. laga um útlendinga til að gera nánari grein fyrir því með ákvæði í reglugerð. Að framangreindu virtu verður ekki séð að farið hafi fram fullnægjandi mat á því hvort þau störf sem kærandi hyggst inna af hendi fyrir Hvalasafnið uppfylli skilyrði 5. mgr. 67. gr. laga um útlendinga.
Að öllu framangreindu virtu verður felld úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 67.gr. laga um útlendinga. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Útlendingastofnun skala taka mál kæranda til meðferðar á ný.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appeallants case.
Valgerður María Sigurðardóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares