Ísland undirritar fjóra loftferðasamninga
Ráðstefnan var að þessu sinni haldin í Naíróbí í Kenía þar sem fulltrúar sjötíu ríkja komu saman. Samninganefnd Íslands undirritaði fjóra loftferðasamninga, við Búrkína Fasó, Jamaíka, Rúanda og Tyrkland, auk þess sem undirrituð var viljayfirlýsing um loftferðir með Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þá fundaði sendinefndin meðal annars með sendinefnd Bretlands vegna flugmálasamskipta landanna með hliðsjón af útgöngunni úr Evrópusambandinu, Suður-Kóreu vegna loftferðasamnings milli landanna og átti viðræður við sendinefnd Marokkó um gerð loftferðasamnings. Þá átti hún samráðsfund með sendinefnd Noregs.
„Fyrir eyríki eins og Ísland skipta samgöngur í lofti miklu máli enda er flugiðnaðurinn lykilþáttur í íslenskum efnahag. Það er því ávallt fagnaðarefni þegar nýir loftferðasamningar eru gerðir eða eldri samningar uppfærðir vegna þeirra jákvæðu hagrænu áhrifa sem það hefur í för með sér,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Ísland hefur gert loftferðasamninga og viljayfirlýsingar sem heimila flug til að minnsta kosti 115 ríkja, en aukin umsvif íslenskra flugrekenda á síðustu árum hafa kallað sérstaklega á gerð loftferðasamninga. Þótt samningarnir veiti misjafnlega víðtæk réttindi er að jafnaði um að ræða gagnkvæma heimild til farþega- og farmflugs milli samningsríkja.
Íslensku sendinefndina skipuðu tveir sendiherrar Íslands, Benedikt Ásgeirsson og Unnur Orradóttir Ramette.