Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 713/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 22. nóvember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 713/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23090001

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 31. ágúst 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Bandaríkjanna (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. júlí 2023, um að synja henni um langtímavegabréfsáritun. Hinn 27. júlí 2023 var kæranda tilkynnt um ákvörðun Útlendingastofnunar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, en í ákvæðinu kemur fram að heimilt sé að kæra ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Ákvörðun Útlendingastofnunar var send til umboðsmanns kæranda með ábyrgðarbréfi 26. júlí 2023. Umboðsmanni kæranda var send rafræn tilkynning um væntanlega heimsendingu 27. júlí 2023 og tilkynning skilin eftir þann sama dag um að sækja þyrfti sendingu á pósthús. Hinn 31. júlí 2023 var umboðsmanni kæranda send tilkynning að nýju og ítrekun 8. ágúst 2023. Kærandi kærði ákvörðunina 31. ágúst 2023. Ljóst er að kærufresturinn, sem var til 11. ágúst 2023, var liðinn þegar kæran barst. 

Með tölvubréfi til kæranda, dags. 15. nóvember 2023, óskaði kærunefnd eftir skýringum á því hvers vegna kæra hafi borist utan frests. Í tölvubréfi frá kæranda, dags. 17. nóvember 2023, kemur fram að ákvörðunin hafi verið móttekin 17. ágúst með afhendingu ábyrgðarbréfs á pósthúsi. Ákvörðunin var send á lögheimili umboðsmanns, en ekki á starfsstöð, né með rafrænum hætti, eins og algengt er þegar um er að ræða ákvarðanir Útlendingastofnunar. Umboðsmaður kæranda hafi verið í sumarorlofi og því ekki tiltækur til þess að móttaka ákvörðunina. Hefði hún verið send á starfsstöð hans, þá hefði hún verið móttekin. Jafnframt var Útlendingastofnun í lófa lagið að senda ákvörðunina með rafrænum hætti, sem hefði þá leitt til þess að umboðsmaður kæranda hefði geta nálgast hana, hvar sem er í heiminum. Telur hann það sæta furðu að ákvörðunin hafi verið send bréflega, en ekki með rafrænum hætti. Í ljósi framangreinds er þess farið á leit við kærunefnd að líta svo á að kæra hafi borist innan kærufrests og hún tekin til efnismeðferðar, kæranda til hagsbóta.

I.       Niðurstaða

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um réttaráhrif þess þegar kæra berst æðra stjórnvaldi að liðnum kærufresti. Þar segir í 1. mgr.:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.“

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er því að finna tvær undantekningarreglur frá þeirri meginreglu laganna að kærumáli skuli vísað frá æðra stjórnvaldi ef kæra berst að liðnum kærufresti. Í athugasemdum við einstakar greinar í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um ákvæðið að í fyrsta lagi sé gerð undantekning þegar afsakanlegt er að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Hér getur t.a.m. fallið undir ef stjórnvald lætur hjá líða að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna eða hefur veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í öðru lagi má taka mál til meðferðar ef veigamiklar ástæður mæla með því. Við mat á því hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar skal m.a. litið til hagsmuna aðila máls og hvort mál hafi fordæmisgildi.

Umboðsmanni kæranda barst tilkynning 27. júlí 2023 um að hann gæti nálgast ákvörðun Útlendingastofnunar á pósthúsi. Er því ljóst að ákvörðun Útlendingastofnunar var komin til vitundar kæranda í samræmi við reglur stjórnsýslulaga þann dag. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var, í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, gerð grein fyrir kæruheimild, kærufresti og hvert kærandi skyldi beina kæru.

Meðal gagna í málinu sem lögð voru fram hjá Útlendingastofnun er útfyllt umsóknareyðublað, dags. 10. júlí 2023, auk umboðs til lögmanns (e. special power of attorney). Umboð til handa umboðsmanni kæranda koma fram í fyrrgreindum gögnum en bæði vísa til lögheimilis umboðsmanns kæranda en ekki starfsstöðvar hans. Þar að auki fékk umboðsmaður kæranda rafrænar tilkynningar um fyrirliggjandi ábyrgðarbréf og hefði hann geta gert viðeigandi ráðstafanir enda hafði hann þá kost á að kynna sér efni ákvörðunar Útlendingastofnunar. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga ber að birta stjórnvaldsákvarðanir og telur kærunefnd ábyrgðarbréf trygga birtingarháttu með sannanlegum hætti. Verður því ekki tekið undir málsástæðu kæranda um rafræna birtingu. Að mati kærunefndar bera gögn málsins því ekki með sér að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist of seint. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekki verði talið að taka beri kæruna til meðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Þá hefur kærunefnd farið yfir gögn málsins, þ.m.t. ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda. Að mati nefndarinnar verður hvorki séð af gögnum málsins að um slíkt fordæmisgefandi mál sé að ræða né að hagsmunir kæranda eða almannahagsmunir krefjist þess að málið verði tekið til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að vísa beri kæru þessari frá nefndinni.


 

Úrskurðarorð:

 

Kæru kæranda á ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað frá.

 

The applicant’s appeal of the decision of the Directorate of Immigration is dismissed.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta