Hoppa yfir valmynd
29. júní 2022 Utanríkisráðuneytið

Verkís hlýtur styrk til að kanna tækifæri til beinnar notkunar á jarðhita í Djibútí

Djibút­ískir jarðfræðingar að störfum við Assal-vatn. - myndAndrew Raven / AfDB

Verkfræðistofan Verkís hlaut á dögunum styrk úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu til að kanna tækifæri til beinnar notkunar á jarðhita í Afríkuríkinu Djibútí. Rannsóknir á orkuauðlindum síðustu áratugi hafa leitt í ljós að í Djibútí eru til staðar tækifæri til að vinna jarðvarma en enn hefur ekki tekist að auka jarðhitanýtingu. Um er að ræða forkönnunarverkefni sem mun leiða í ljós hvort nýta megi jarðhita með beinum hætti til atvinnusköpunar við Assal-vatn. Verkefnið styður við þverlæg markmið í þróunarsamvinnu Íslands að því er lítur að mannréttindum, sjálfbærni og umhverfisvernd og styður meðal annars við heimsmarkmið númer 8 um góða atvinnu og hagvöxt og númer 13 um aðgerðir í loftslagmálum. Einnig er stefnt að því að skoða sérstaklega hvort og hvernig það geti stutt við heimsmarkmið númer 5 um jafnrétti kynjanna.

Verkefnið verður unnið í samstarfi við opinbera Jarðhitaþróunarskrifstofu Djibútí, the Djiboutian Office of Geothermal Development (ODDEG). Skrifstofan hefur það hlutverk að styðja við uppbyggingu jarðhitaauðlinda og þróa jarðvarmaverkefni sem miða að því að bæta lífsgæði þjóðarinnar og þannig draga úr olíuinnflutningi og losun gróðurhúsalofttegunda. Verkís hefur áður tekið þátt í verkefnum í landinu og þekkir vel til aðstæðna þar hvað varðar orkuöryggi, jafnréttismál og fátækt.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir verkefni eins og þetta geta skipt miklu máli. Ef vel til tekst mun það auka viðnámsþrótt í viðkvæmu samfélagi, skapa atvinnu og örva hagvöxt á grundvelli sjálfbærrar auðlindanýtingar. „Verkefni á borð við það sem Verkís hyggst nú ráðast í fellur vel að stefnu Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu um að stuðla að uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa í þróunarlöndum og styðja með þeim hætti við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Íslensk fyrirtæki búa yfir mikilli þekkingu á sviði jarðhitatækni og hef ég fulla trú á að forkönnun Verkís muni leiða til stærri verkefna þar sem hægt verður að nýta jarðhita með beinum hætti í Djibútí,“ segir Þórdís Kolbrún.
  • F.v: Kjartan Due Nielsen, verkefnastjóri nýsköpunar hjá Verkís, Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Egill Viðarsson, framkvæmdastjóri Verkís. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta