Hoppa yfir valmynd
14. janúar 2020 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 3/2020 Úrskurður 14. janúar 2020

Mál nr. 3/2020                       Eiginnafn:      Hannalísa (kvk.)

 

 

Hinn 14. janúar 2020 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 3/2020 en erindið barst nefndinni 10. janúar.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  2. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  3. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  4. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Í þessu máli reynir á skilyrði nr. tvö og þrjú hér að ofan. Eiginnafnið Hannalísa (kvk.) fer gegn hefðbundnum nafnmyndunarreglum í íslensku. Fyrri liður þess er nafnið HHanna Hanna í aukaföllum Hönnu. Ekki er hefð fyrir því að fyrri liður samsetts nafns fallbeygist, það gerir aðeins sá síðari. Nafnið Hannalísa (í eignarfalli Hönnulísu) brýtur þannig í bág við íslenskt málkerfi. Annar möguleiki væri að fyrri liður væri óbreyttur í beygingu (sbr. eignarfallsmyndina Hannalísu). Sá möguleiki bryti einnig í bág við íslenskt málkerfi þar sem nefnifallsmyndir veikra kvenkynsorða (s.s. gata, lilja) mynda ekki fyrri lið í samsettum orðum; þar er notað eignarfall (s.s. götuljós, liljuvöndur). Þá getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls að rita tvö sjálfstæð eiginnöfn á borð við Hanna og Lísa sem eitt orð. Rithátturinn Hannalísa er ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og uppfyllir þ.a.l. ekki tilvitnað ákvæði laga um mannanöfn.

Til samanburðar vísast til úrskurðar mannanafnanefndar frá 27. júní 2005 í máli nr. 59/2005, vegna umsóknar um nafnið Annalísa; til úrskurðar frá 25. september 2008 í máli nr. 56/2008, vegna umsóknar um nafnið Annalinda; til úrskurðar frá 4. febrúar 2010 í máli nr. 69/2009, vegna umsóknar um nafnið Liljarós; til úrskurðar frá 21. september 2011 í máli 69/2011, vegna umsóknar um nafnið Hannadís; til úrskurðar frá 3. október 2014 í máli 58/2014, vegna umsóknar um nafnið Sveinnóli; til úrskurðar frá 3. júní 2016 í máli 48/2016, vegna umsóknar um nafnið Olgalilja, og jafnframt til úrskurðar frá 22. maí 2019 í máli 39/2019, vegna umsóknar um nafnið Ingadóra.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Hannalísa (kvk.) er hafnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta