Hoppa yfir valmynd
15. desember 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 536/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 15. desember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 536/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22100081

 

Beiðni um endurupptöku í máli

[...]

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 239/2022, dags. 23. júní 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. apríl 2022, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íran (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 27. júní 2022. Hinn 4. júlí 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og var þeirri beiðni hafnað með úrskurði kærunefndar 15. júlí 2022. Hinn 27. október 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum.

    Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans er reist á grundvelli á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum um málsatvik, auk þess sem atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp. Þá hafi kærunefnd ekki sinnt skyldu sinni til rannsóknar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

    Kærandi vísar til þess að samantekt kærunefndar á aðstæðum kæranda neðst á blaðsíðu 3 í úrskurði kærunefndar nr. 239/2022 frá 23. júní 2022, sé ekki í fullu samræmi við þau gögn sem hafi legið fyrir við uppkvaðningu úrskurðarins eða reifun kærunefndar á fyrirliggjandi gögnum á blaðsíðum 8-9 í umræddum úrskurði. Í ljósi skyldna kærunefndar samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, hafi nefndin einnig byggt á ófullnægjandi upplýsingum og borið skylda til að stuðla að því að fyrir lægju fyllri gögn um margþættan og alvarlegan heilsufarsvanda kæranda sem og um afleiðingar mögulegrar frávísunar hans frá landinu. Því til stuðnings vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar nr. 388/2021, dags. 20. ágúst 2021, þar sem kærunefnd hafi tekið fram að tilefni hafi verið til að afla skýrari upplýsinga frá sérfróðum aðila um það hver þörf viðkomandi aðila væri fyrir frekari heilbrigðisþjónustu og um afleiðingar þess að hann fengi ekki þjónustu eða meðferð, eða afleiðingar á töfum á veitingu slíkrar þjónustu. Kærandi hafi ekki gilt dvalarleyfi á Ítalíu og muni því standa frammi fyrir svipuðum aðgangshindrunum, m.a. að heilbrigðisþjónustu. Þá vísar kærandi til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.

    Kærandi vísar jafnframt til þess að með þeim gögnum sem hann hafi nú lagt fram komi skýrlega fram alvarleiki heilsufarsvanda hans, m.a. brjóstverkjar hans. Kærandi hafi fengið sjúkdómsgreiningu og í heilbrigðisgögnum sem kærandi hafi lagt fram komi m.a. fram að kærandi sé til meðferðar á Landspítalanum vegna hjartasjúkdóms og meltingarvegasjúkdóms. Óljóst sé hversu lengi það verði, en a.m.k. næsta árið. Ljóst sé af þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fram að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður féll í máli kæranda.

    Þá vísar kærandi til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og telur að alvarleiki veikinda hans, sérstaklega hjartavandamála hans sé slíkur að þau falli undir 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Margþætt veikindi hans, þegar þau séu skoðuð í heild sinni, séu það einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði fram hjá þeim litið. Um sé að ræða alvarleg veikindi, skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm. Þá muni kærandi koma til með að eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alverlegrar mismununar og verði útilokaður frá nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Kærandi vísar til þess að í úrskurði kærunefndar komi m.a. fram að ítölsk stjórnvöld hafi verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi og að einstaklingar með útrunnið dvalarleyfi geti átt í erfiðleikum með að nálgast heilbrigðisþjónustu. Heimildir beri það jafnframt með sér. Kærandi ítrekar að hann hafi ekki nauðsynlega skráningu eða skírteini til að fá lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu á Ítalíu. Reyndar hafi hann áður greint frá því að hafa fengið afar takmarkaða heilbrigðisþjónustu þar í landi. Dvalarleyfi hans sé útrunnið og staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki.

    Í ljósi alls framangreinds telur kærandi að kærunefnd beri að endurupptaka mál hans, fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og fela stofnuninni að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar. Fyrri úrskurður kærunefndar hafi bæði byggst á ófullnægjandi og röngum upplýsingum auk þess sem atvik hafi breyst sem leiði til þess að kærandi falli augljóslega undir 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 23. júní 2022. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi reisir beiðni sína um endurupptöku á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því ákvörðun hafi verið tekin í máli hans og ákvörðun hafi verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum með vísan til 1. og 2. tölul. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku ásamt þeim fylgigögnum sem liggja fyrir. Á meðal þeirra gagna sem kærandi lagði fram er vottorð frá hjartalyflækningum Landspítalans, dags 19. október 2022, þar sem fram kemur að kærandi sé til meðferðar á Landspítalanum, bæði á Hjartagátt og Göngudeild skurðlækna, vegna hjarta- og meltingarvegasjúkdóms. Óljóst sé hversu lengi en a.m.k. næsta árið. Þá koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar kæranda, [...] og [...].

Þá lagði kærandi fram göngudeildarnótur frá Landspítalanum frá 16. júlí 2018 til 20. október 2022. Við uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar í máli kæranda nr. 239/2022 frá 23. júní 2022, lágu fyrir göngudeildarnótur til og með 14. júní 2022 og hefur kærunefnd þegar tekið afstöðu til þeirra. Samkvæmt beiðni um meðferð og rannsókn frá sérfræðingi í kviðarholsskurðlækningum, dags. 27. júlí 2022, er stuttlega farið yfir sjúkrasögu kæranda. Kærandi hafi langa sögu um verki í endaþarmi og umtalsverða blæðingu. Kærandi væri með væga innri gyllinæð. Kærandi hafi nýlega legið á hjartadeild vegna brjóstverkja og hafi þá reynst lágur í blóðrauðu (e. hemoglobin). Magaspeglun hafi verið eðlileg. Saga hans passi ekki alveg við einfalda gyllinæð og í ljósi blóðleysis (e. anemia) sé rétt að útiloka blæðandi æxli (e. tumor) áður en einblínt sé á gyllinæð. Samkvæmt göngudeildarnótu sérfræðilæknis í kviðarholsskurðlækningum, þann sama dag, kemur m.a. fram að hún hafi ekki hitt kæranda síðan 2019 en hann sé enn með sömu einkenni og þá. Verki og blæðingu frá endaþarmi. Verkirnir séu verstir þegar hann fái hægðarþörf og eftir hægðarlosun. Við skoðun séu ytri húðsepar en að öðru leyti eðlilegt. Kærandi sé aumur við endaþarm en það séu engar fyrirferðir. Þá kemur fram að einkenni hans rými ekki við eitthvað eitt. Gyllinæð geti útskýrt blæðinguna en ekki verkina. Kærandi hafi nýlega legið inn á hjartadeild og hafi verið með blóðleysi (e. aniemiu). Hann hafi þá farið í magaspeglun sem hafi ekkert sýnt. Rétt sé að kærandi fari í ristilspeglun. Staðan verði svo metin að þeirri rannsókn lokinni. Kæranda hafi verið ráðlagt að taka lyf vegna gyllinæðar. Í göngudeildarskrá frá sérfræðilækni í hjartalyflækningum, dags. 28. júlí 2022, kemur fram að kærandi sé enn blæðandi og eigi að fara í ristilspeglun. Rætt hafi verið símleiðis við kæranda í gegnum túlk. Kærandi sé mun betri af brjóstverkjum þó hann hafi fundið af og til fyrir hjartaöng (e. angina). Lyfjum kæranda hafi verið breytt lítillega en þar sem hann sé enn með meltingarblæðingu sé beðið með frekari meðferð. Hinn 27. september 2022 hafi kærandi farið í ristilspeglun á Landspítalanum. Í göngudeildarskrá frá sérfræðilækni í hjartalyflækningum, dags. 19. október 2022, er farið stuttlega yfir sjúkrasögu kæranda. Hann hafi legið inni á skurðdeild vegna meltingarblæðingu og NSTEMI (e. Non-ST-Elevation-Myocardial Infarction (Heart Attack)). Kærandi hafi farið í meðferð hjá skurðlæknum og m.a. í fjarlægingu á sepa (e. polyp) eða kirtilæxli (e. adenoma). Síðan þá hafi kærandi hækkað í blóðrauðu (e. hemoglobin) og gengur vel. Þrátt fyrir að meltingarvandamál kæranda hafi verið leyst sé hann áfram að fá brjóstverki. Hann sé einnig mjög kvíðinn þar sem hann sé að sækja um dvalarleyfi og hann verði jafnvel sendur úr landi. Óljóst sé hvort um sé að ræða hjartaöng (e. angina) sem hann sé að fá daglega eða kvíðaþátt. Blóðþrýstingur hafi verið hár en hann hafi verið mjög stressaður í viðtali. Hjartahlustun hafi verið eðlileg og lungu hrein. Hjartalínurit sýni að T-bylgju breytingar séu gengnar til baka yfir framvegginn. Samkvæmt áliti læknis sé um að ræða óljósa brjóstverki hjá einstaklingi sem hafi líklega verið með NSTEMI sumarið 2022. Þar sem hann sé ennþá að fá brjóstverki sé bókaður tími fyrir kæranda í kransæðaþræðingu innan þriggja vikna. Lyfjameðferð sé óbreytt.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd útlendingamála lágu fyrir upplýsingar um að kærandi hafi legið inni á hjartadeild Landspítalans vegna brjóstverks og hann hafi sögu um hjartaáfall. Kærandi hafi farið í hjartaómun og stefnt hafi verið að magaspeglun og kransæðaþræðingu. Kærandi hafi ekki verið sendur í þræðingu þar sem hjartaómun hafi litið eðlilega út. Þá lá fyrir að kærandi hafi verið með meltingarblæðingu og ristilspeglun hafi verið fyrirhuguð. Auk þess lá fyrir að kærandi hafi verið að glíma við kvíða og andleg veikindi. Var það mat kærunefndar í úrskurði nefndarinnar, dags. 23. júní 2022, að gögn málsins bæru ekki með sér að heilsufar kæranda væri með þeim hætti að hann teldist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá var vísað til þess að af gögnum sem kærunefnd hafði kynnt sér um aðstæður einstaklinga sem eru handhafar alþjóðlegrar verndar á Ítalíu verði ráðið að kærandi geti fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu þar í landi. Samkvæmt skýrslu ECRE eigi einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd sama rétt og ítalskir ríkisborgarar til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu, að því gefnu að þeir hafi skráð sig inn í heilbrigðiskerfið. Þá kemur fram að skráning í heilbrigðiskerfið falli ekki sjálfkrafa úr gildi meðan á málsmeðferð endurnýjunar dvalarleyfis standi en í framkvæmd geti einstaklingar með útrunnin dvalarleyfi átt í erfiðleikum með að nálgast heilbrigðisþjónustu. Það á þó ekki við um aðkallandi heilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki sótt um endurnýjun á dvalarleyfi sínu á Ítalíu, benda heimildir til þess að hann eigi rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Samkvæmt göngudeildarskrá frá sérfræðilækni í hjartalyflækningum, dags. 19. október 2022, sem kærandi lagði fram við meðferð málsins, er meltingarvandamál kæranda úr sögunni eftir að sepi eða kirtilæxli hafi verið fjarlægt. Þar sem kærandi sé enn með óljósan brjóstverk hafi verið bókaður tími í kransæðaþræðingu innan þriggja vikna. Hinn 25. nóvember 2022 sendi kærunefnd kæranda tölvubréf og óskaði eftir upplýsingum um hvort hann hafi farið í þræðingu og gaf kæranda frest til að leggja fram frekari gögn. Svar kæranda barst 29. nóvember 2022, þar sem talsmaður kæranda greindi frá því að honum skyldist að kærandi hafi ekki farið í þræðingu ennþá en hann hafi farið í myndatöku. Þá sé hann áfram í eftirliti á Landspítalanum og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og verði það a.m.k. næsta árið. Það er mat kærunefndar að framlögð viðbótargögn hafi aðeins að geyma nýrri og ítarlegri upplýsingar um heilsufar kæranda og séu aðeins til fyllingar þeim upplýsingum sem lágu fyrir við meðferð máls hans hjá nefndinni.

Varðandi athugasemdir kæranda um að samantekt á aðstæðum kæranda á blaðsíðu 3 í úrskurði kærunefndar frá 23. júní 2022, hafi ekki verið í fullu samræmi við þau gögn sem hafi legið fyrir, vísar kærunefnd til þess að sú samantekt sé aðeins stutt reifun á heilsufari kæranda. Líkt og kærandi tekur fram er að finna ítarlega reifun á framlögðum heilsufarsgögnum á blaðsíðum 8-9 í umræddum úrskurði sem lögð voru til grundvallar við niðurstöðu málsins. Við meðferð málsins hjá kærunefnd var jafnframt litið til heilsufarsgagna sem lágu fyrir vegna fyrri umsókna kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og voru þau lögð til grundvallar við niðurstöðu málsins. Auk þess var kæranda leiðbeint um framlagningu frekari heilsufarsgagna í málinu. Kærunefnd telur því að hún hafi gætt að rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga er varðar heilsufar kæranda í úrskurði nefndarinnar í máli hans.

Vegna tilvísunar kæranda til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslualaga og úrskurðar kærunefndar nr. 388/2021, dags. 20. ágúst 2021, telur kærunefnd ekki unnt að jafna aðstæðum kæranda í þessu máli við stöðu kæranda í framangreindu máli. Í því máli voru einstaklingsbundnar aðstæður kæranda ólíkar kæranda í þessu mál auk þess sem ekki var um sama viðtökuríki að ræða.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að aðstæður kæranda hafi breyst svo verulega að tilefni sé til að endurupptaka fyrri úrskurð nefndarinnar. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 23. júní 2022, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

 

The appellant’s request to re-examine the case is denied.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                     Sandra Hlíf Ocares


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta