Hoppa yfir valmynd
21. júní 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 194/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 194/2023

Miðvikudaginn 21. júní 2023

A

v/B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 17. apríl 2023, kærði C réttindagæslumaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. september 2022, þar sem umönnunarmat dóttur kæranda, B, var felld undir 2. flokk, 0% greiðslur, fyrir tímabilið 1. október 2022 til 30. september 2027.

  1. Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. september 2022, var umönnun dóttur kæranda felld undir 2. flokk, 0% greiðslur, fyrir tímabilið 1. október 2022 til 30. september 2027. Rökstuðningur var veittur fyrir framangreindri ákvörðun með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. desember 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. apríl 2023. Með bréfi, dags. 19. apríl 2023, var umboðsmanni kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Bréfið var birt kæranda 10. maí 2023 og umboðsmanni kæranda að nýju 23. maí 2023. Með tölvupósti 8. júní 2023 bárust athugasemdir frá kæranda og með bréfi, dags. 14. júní 2023, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé synjun um umönnunarmat á grundvelli 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar sé getið sem ástæðu að barn dvelji á heimili fyrir fötluð börn og því sé ekki grundvöllur fyrir að halda áfram greiðslum til foreldra vegna umönnunar barns, þrátt fyrir rökstuðning frá foreldrum, félagsþjónustu og réttindagæslumanni fatlaðs fólks.

Rétt sé að barnið dvelji meiri hluta mánaðar í úrræði fyrir fötluð börn, þar sem ekki sé til úrræði í kerfinu fyrir börn er þurfi jafn mikla aðstoð og stuðning og dóttir kæranda. Sökum þess geti hún aðeins dvalið heima hjá sér og foreldrum hennar að degi til og einstaka nætur í viku.

Sökum fötlunar hennar fylgi henni aukin útgjöld sem foreldrar þurfi að standa undir og þarfnist fjárhagslegs stuðnings við það, eins og þau hafi notið síðustu ár. D greiði, eins og fram komi í greinargerð barnaverndar, engin útgjöld tengd stúlkunni.

Vegna fötlunar dóttur kæranda séu foreldrar í meiri þörf en áður fyrir stuðning og aðstoð frá sveitarfélaginu við umönnun hennar og eina úrræðið sem sé í boði sé að hún dvelji á heimili fyrir fötluð börn stóran hluta mánaðarins.

Eins og fyrrgreind lög skilgreini rétt aðstandenda til umönnunarbóta þurfi búseta barns að vera á heimili eða á sjúkrahúsi, en í reglugerð nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, sé fjallað um í 5. gr. að ef barn sé vistað á vistheimili eða í vistun greiddri af félagsmálayfirvöldum falli réttur til bóta niður.

Mál dóttur kæranda sé ekki alveg „svart á hvítu“ að þessu leyti og því sé óskað eftir að það sé skoðað sérstaklega með fötlun hennar að leiðarljósi, sem og markmið umönnunarbóta.

Um sé að ræða fjölskyldu í þörf fyrir stuðning þar sem dóttir kæranda sé með lögheimili hjá foreldrum sínum, en hún þurfi hins vegar að dveljast á heimili fyrir fötluð börn flestar nætur í mánuði vegna þunga í þjónustu og úrræðaleysis í kerfinu. Dóttir kæranda gisti yfir nótt að minnsta kosti […] í viku hjá foreldrum sínum og sé oft í viku þar yfir daginn. Foreldrar séu réttilega umönnunaraðilar hennar og forsjáraðilar ásamt því að vera framfærendur hennar, þrátt fyrir að hún þurfi að dveljast á heimili fyrir fötluð börn yfir nótt til að fá þá þjónustu sem hún eigi rétt á.

Óskað sé eftir að mál þetta verði skoðað með tilgang umönnunarbóta til hliðsjónar sem sé að styrkja framfærendur barna með andlega eða líkamlega hömlun sem hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun og gæslu.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda frá 14. júní 2023 kemur fram að með réttu hefði kæra átt að berast kæra úrskurðarnefnd velferðarmála fyrir 23. mars 2023 eins og lög geri ráð fyrir. Þar sem að ekki hafi náðst að vinna málið hjá réttindagæslunni innan þessa tímaramma hafi kæra ekki borist nefndinni fyrr en 17. apríl 2023.

Beðist sé innilegrar afsökunar á þessum seinagangi og óski réttindagæslumaður fatlaðs fólks eftir því að kæran verði tekin til skoðunar þrátt fyrir að hafa borist eftir að kærufrestur hafi verið liðinn með tilliti til 1 mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Erfiðar aðstæður hafi skapast síðustu mánuði hjá réttindagæslumönnum fatlaðs fólks, þar sem gífurlegt álag hafi myndast vegna mikillar manneklu ásamt auknum málafjölda. Þar af leiðandi hafi orðið aðstæður sem erfitt sé að ráða við, þar sem biðlisti eftir að mál séu tekin fyrir lengist með hverjum deginum og úrvinnsla mála taki lengri tíma en vanalega. Þetta hafi því miður haft í för með sér að einhver mál hafi misst af tímafresti sem gefinn hafi verið. Þær aðstæður hafi því miður skapast í þessu máli sem réttindagæslumaður fatlaðs fólks harmi.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. september 2022 um að fella umönnun dóttur kæranda undir 2. flokk, 0% greiðslur, fyrir tímabilið 1. október 2022 til 30. september 2027.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur aðila, fari hann fram á rökstuðning samkvæmt 21. gr. laganna.

Samkvæmt gögnum málsins liðu tæplega fjórir mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun 23. desember 2022 þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. apríl 2023. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 23. desember 2022 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Úrskurðarnefndin veitti umboðsmanni kæranda kost á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Í athugasemdum kæranda kemur fram að hún hafi treyst umboðsmanni sínum fyrir málinu. Í athugasemdum umboðsmanns kæranda er greint frá gífurlegu álagi sem hafi myndast hjá réttindagæslumanni fatlaðs fólks vegna mikillar manneklu ásamt auknum málafjölda, sem hafi gert það að verkum að það hafi farist fyrir að senda kæru innan kærufrests til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Úrskurðarnefndin telur að skýringar umboðsmanns kæranda á ástæðum þess að kæra hafi borist að liðnum kærufresti séu ekki þess eðlis að unnt sé að líta svo á að afsakanlegt sé að kæran hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að kærandi geti sótt um umönnunarmat á ný.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta