Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2018 Utanríkisráðuneytið

Sjávarútvegsskólinn útskrifar nemendur í tuttugasta sinn

Næstkomandi mánudag fer fram brautskráning nemenda Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna í tuttugasta sinn en að þessu sinni útskrifast 21 nemandi úr sex mánaða þjálfunarnámi skólans. Nemendurnir koma frá 15 löndum í Asíu, Afríku, Mið-Ameríku og Karíbahafi. Konur eru meirihluti nemenda, 13 talsins. Átta nemendur sérhæfðu sig á sviði matvælaframleiðslu og gæðastjórnunar, sjö á sviði stofnmats og veiðafæratækni og sex á sviði sjálfbærs fiskeldis.

Alls hafa 368 nemendur lokið námi frá skólanum frá því hann var stofnaður árið 1998. Þeir koma frá yfir 50 löndum, flestir frá Víetnam, Úganda, Kína, Kenía, Sri Lanka og Tansaníu. Skólinn hefur einnig útskrifað nemendur frá fölmörgum smáum eyríkjum þar sem sjávarútvegur er mikilvægur, eins og Kúbu, Jamaíku, Grænhöfðaeyjum og Fídjíeyjum.

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna var stofnaður árið 1998 á grundvelli þríhliða samkomulags milli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, utanríkisráðuneytisins og Hafrannsóknastofnunar. Hann er rekinn í nánu samstarfi háskólasamfélagsins, stjórnvalda og atvinnulífs. Meðal samstarfsaðila á Íslandi má nefna Matís, Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Hólaháskóla.

Meginviðfangsefni Sjávarútvegsskólans er að byggja upp færni og þekkingu meðal sérfræðinga á sviði sjávarútvegs og fiskeldis í þróunarlöndum. Umfangsmesti liðurinn í starfsemi skólans er sex-mánaða þjálfunarnámið, en það er haldið á hverjum vetri frá september til febrúar. Í náminu eru sérfræðingarnir efldir faglega og búnir undir að hafa áhrif á uppbyggingu sjávarútvegs í því starfsumhverfi er þeir koma frá.

Útskriftarathöfnin á mánudag fer fram í sal Hafrannsóknarstofnunnar, Skúlagötu 4 - 1. hæð og hefst kl. 15:00. Strax að henni lokinni, eða kl. 16:00, verður móttaka fyrir gesti á sama stað.

Á myndinni eru nemendur Sjávarútvegsskólans sem útskrifast eftir helgi. Myndin tekin á Snæfellsnesi við Gufuskála síðstliðið haust:

(Efsta röð t.f.v.) Oluwatosin Mayowa Akande frá Nígeríu, Keith Johanis Bennett Wilson frá Níkaragva, Ndjonjip Yves Merlin frá Kamerún, Lu Hang frá Kína, Zhang Qian frá Kína, Victor Wendulika Agostinho frá Angóla 

(Fyrir framan efstu röðina, frá miðju til hægri) Yetunde Elizabeth Ibiwoye frá Nígeríu, Vasana Tutjavi frá Namibíu.

(Miðröð t.f.v.i) Ritha Haika John Mlingi frá Tansaníu, Adeseye Olufemi Olusola frá Nígeríu, Indira Nyoka Brown frá Bahamaeyjum, Suama Niinkoti frá Namibíu, Kate Shanda St. Mark frá Sankti Lúsíu, Shamal OʼReilly Connell frá Sankti Vinsent og Grenadínum, Moe Pwint Phyu Oo frá Mjanmar, Aysha Akhtar frá Bangladess, May Zun Phyo frá Mjanmar, Simon Peter Kigongo Sserwambala frá Uganda.

(Sitjandi t.f.v.) Koena Gloria Seanego frá Suður-Afríku, Astri Suryandari frá Indónesíu, Romauli Juliana Napitupulu frá Indónesíu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta