Hoppa yfir valmynd
20. október 2006 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 8/2005

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 8/2005:

  

A

gegn

Baðfélagi Mývatnssveitar ehf.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 20. október 2006 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 7. nóvember 2005, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Baðfélag Mývatnssveitar ehf. hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, með ráðningu karlmanns í starf framkvæmdastjóra, en ráðið var í starfið hinn 15. nóvember 2004.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Baðfélagi Mývatnssveitar ehf. með bréfi, dags. 17. nóvember 2005. Umsögn Baðfélags Mývatnssveitar ehf. barst með bréfi, dags. 10. janúar 2006, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 23. mars 2006. Voru síðastnefndar athugasemdir sendar Baðfélagi Mývatnssveitar ehf. til kynningar með, bréfi dags. 4. apríl 2006. Athugasemdir Baðfélags Mývatnssveitar ehf. bárust með bréfi, dags. 19. apríl 2006, og voru þær athugasemdir sendar kæranda til kynningar. Með bréfi, dags. 24. maí 2006, var Baðfélag Mývatnssveitar ehf. innt eftir frekari upplýsingum um þær áætlanir og ráðagerðir um framtíðarrekstur sem á var byggt af hálfu félagsins árið 2004 er auglýst var eftir framkvæmdastjóra hjá félaginu. Framangreindar upplýsingar bárust nefndinni með bréfi, dags. 7. júní 2006, og voru þær kynntar kæranda með bréfi, dags. 8. júní 2006. Athugasemdir kæranda vegna hinna nýju upplýsinga bárust með bréfi, dags. 2. júlí 2006.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

Það athugast að drátt á álitsgjöf þessari má meðal annars rekja til þess að vegna dvalar kæranda erlendis var henni veittur viðbótarfrestur til að skila umsögn til nefndarinnar, auk þess að nefndin leitaði eftir viðbótarupplýsingum undir rekstri málsins.

 

II.

Málavextir

Málavextir eru þeir að Baðfélag Mývatnssveitar ehf. auglýsti í október 2004 lausa til umsóknar stöðu framkvæmdastjóra. Í auglýsingunni kom meðal annars fram að á starfssviði framkvæmdastjóra væri yfirstjórn á daglegri starfsemi Jarðbaðanna, stjórnun sölu- og markaðsmála, ákvörðun verðskrár, ráðning starfsmanna og skipulagning starfa þeirra, umsjón með skjalavörslu og bókhaldi og umsjón með fasteignum, viðhaldi og endurnýjun þeirra. Að auki ynni framkvæmdastjóri að mótun framtíðarsýnar og vexti starfseminnar í samvinnu við stjórn félagsins. Þá kom fram að horft yrði til eftirfarandi menntunar- og hæfnisþátta við val á umsækjendum; háskólamenntunar, rekstrarmenntunar og rekstrarreynslu, reynslu af markaðs- og sölustarfi, reynslu af starfsmannahaldi og stjórnun, bókhaldsþekkingar og kunnáttu í áætlanagerð, reynslu og þekkingar innan ferðaþjónustunnar, þekkingar á atvinnu- og mannlífi á Norðurlandi, auk tungumálakunnáttu. Einnig kom fram í auglýsingu að framkvæmdastjóri þyrfti að hafa jákvætt, kurteislegt viðmót og sýna lipurð í samskiptum. Hann þyrfti að sýna áhuga, hafa frumkvæði og vera sjálfstæður í starfi. Hann ætti jafnframt að hafa heimilisfestu í Mývatnssveit. Umsækjendur um starfið voru 18 og voru þeir þrír umsækjendur sem þóttu hæfastir boðaðir í starfsviðtal. Að loknum starfsviðtölum ákvað stjórn Baðfélags Mývatnssveitar ehf. einróma að ráða tiltekinn karlmann í starfið.

Með tölvubréfi, dags. 24. nóvember 2004, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stjórnar um ráðningu í viðkomandi stöðu framkvæmdastjóra og var sá rökstuðningur veittur með tölvubréfi, dags. 24. nóvember sama ár.

Í kæru til nefndarinnar kemur fram að kærandi hafi ekki verið ráðin, þrátt fyrir yfirgripsmikla menntun og reynslu á sviði markaðsfræða, alþjóðaviðskipta, ferðaþjónustustjórnunar og rekstrar heilsulinda. Í starfið hafi verið ráðinn karlmaður sem hafi haft mun minni menntun en kærandi og hafi þar að auki ekki sérmenntun á sviði ferðamála og heilsulinda, líkt og kærandi hafi. Kærandi telji að við ráðninguna hafi sér verið gróflega mismunað eftir kyni, aldri, menntun og reynslu.

Af hálfu Baðfélags Mývatnssveitar ehf. er því alfarið hafnað að kæranda hafi verið mismunað eftir kynferði. Er á það bent að við ráðningu í starfið hafi framkvæmdum við jarðböðin ekki verið lokið og því hafi verið nauðsynlegt að ráða til starfsins aðila, sem gæti strax komið að uppbyggingu starfseminnar. Í því sambandi vísar félagið meðal annars til þess að ekki liggi fyrir að nám kæranda eða reynsla í heilsutengdri þjónustu nýtist kæranda þannig að hún teljist vera jafnhæf eða hæfari en karlmaðurinn til að gegna umræddri stöðu. Ákvörðun um ráðningu í starf framkvæmdastjóra hafi því verið tekin á grundvelli málefnanlegra sjónarmiða.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að yfirgripsmikil menntun hennar, meðal annars á sviði markaðsmála og heilsutengdrar ferðaþjónustu, hafi fallið mjög vel að auglýstu starfi framkvæmdastjóra en það hafi meðal annars verið staðfest í tölvubréfi formanns stjórnar félagsins til kæranda, dags. 22. október 2004. Kærandi hafi uppfyllt allar þær kröfur er gerðar hafi verið vegna umrædds starfs og rúmlega það. Þrátt fyrir það hafi verið gengið framhjá henni við ráðningu í stöðu framkvæmdastjóra.

Þau rök sem formaður stjórnar félagsins hafi fært fyrir því að ráða kæranda ekki í umrædda stöðu framkvæmdastjóra hafi verið þess eðlis að engan veginn yrði við þau unað. Í því sambandi hafi kærandi leitað eftir skýringu á því hvað hann ætti við með orðinu „yfirkvalifiseruð“ svo og að menntun og reynsla kæranda væru „meira tengd heilsugeiranum en við viljum leggja áherslu á að sinni“. Kærandi vilji jafnframt fá skýringu á því hvað felist í ummælum formanns stjórnar í tölvubréfi, dags. 24. nóvember 2004, þess efnis að það hafi verið nokkur vonbrigði fólgin í því að geta ekki ráðið kæranda til starfa þar sem hæfni, hennar, menntun og reynsla væru mikil í umrætt starf framkvæmdastjóra. Kærandi vilji skýringu á því hvers vegna hafi ekki verið mögulegt að ráða hana sem framkvæmdastjóra, þrátt fyrir yfirlýsingar um hæfni til starfsins. Formaður stjórnar félagsins vísi einnig til þess að sá sem hafi hlotið starfið búi yfir „tækniþekkingu en við erum vissulega að glíma við ýmiskonar tæknilegar úrlausnir við mannvirkin og búnaðinn, hluti sem þurfa að vera í góðum skorðum áður en við getum farið að veifa okkur sem heilsubaðstað og/eða sem meðferðarúrræði við heilbrigðisvandamálum“. Þessi athugasemd formanns stjórnar félagsins gangi að mati kæranda þvert á þá ímynd sem Jarðböðin við Mývatn byggi á samkvæmt upplýsingum á heimasíðu félagsins. Þá hafi ekki verið getið einu orði um það í auglýsingu að umsækjendur þyrftu að búa yfir sérstakri tækniþekkingu. Hér hafi því enn og aftur verið brotið gróflega á kæranda við ráðningu í umrætt starf.

Óviðunandi sé að geðþóttaákvarðanir einstakra aðila verði þess valdandi að vel menntaðir og hæfir einstaklingar fái ekki ráðningu í störf sem falli í einu og öllu að menntun og hæfni viðkomandi umsækjenda. Slíkt samræmist ekki lögum um jafnrétti og teljist því lögbrot. Einnig sé nauðsynlegt að benda á þá staðreynd að þrátt fyrir áralanga vinnu og fjárútlát við öflun menntunar, þá virðist slíkur árangur og elja engan veginn skila sér með ráðningum kvenna í stjórnunarstöður á Íslandi.

Sá sem hlaut starfið sé með B.S.-gráðu í tæknifræði, en hann hafi enga menntun, hvorki í fyrirtækjarekstri, markaðsmálum né í ferðamálafræðum. Kærandi hafi lokið cand. oecon. prófi í viðskiptafræði af markaðssviði frá Háskóla Íslands með fyrstu einkunn og hafi tvöfalda meistaragráðu frá Bandaríkjunum, annars vegar í alþjóðaviðskiptum (MBA Int’l Business) og hins vegar í ferðaþjónustustjórnun (MBA Hospitality Administration) með hæstu einkunn og „honour graduation“ í báðum gráðum. Þá hafi kærandi sérhæft sig í rekstri heilsulinda og heilsuhótela („spa and resort management“) og hlotið stjórnunarþjálfun á hinu heimsfræga heilsuhóteli, PGA National Resort and Spa, í Palm Beach Gardens í Flórída. Heilsulind PGA hafi hlotið margföld verðlaun fyrir að vera fremst í flokki slíkra heilsustaða í heiminum og hafi nokkrum sinnum verið valin „Number One Spa in the World“ af virtum og viðurkenndum aðilum í hótel- og ferðaþjónustu á heimsmælikvarða.

Kærandi hafi verið hæfust allra umsækjenda til að gegna umræddu starfi. Af þeim ástæðum hafnar kærandi því að hæstaréttardómur í máli nr. 330/2003, Leikfélag Akureyrar gegn Jafnréttisstofu, hafi þýðingu í þessu máli þar sem kærandi hafi mun meiri menntun og reynslu, ásamt háskólamenntun og sérþekkingu á því sviði sem krafist hafi verið fyrir umrætt starf framkvæmdastjóra, en sá sem var ráðinn. Þrátt fyrir að vera „yfirkvalifiseruð“ þá hafi kærandi verið tilbúin að taka þeim launakjörum og hlunnindum sem í boði hafi verið í umræddu starfi.

Kærandi hafnar því alfarið að sá sem hlaut stöðuna hafi verið hæfastur til að gegna henni. Yfirgripsmikil menntun á sviði rekstrar, markaðsmála og ferðaþjónustu sé grundvallaratriði við mat á hæfi umsækjenda um slíkt starf. Kærandi hafi sannanlega slíka menntun. Að auki hafi kærandi áralanga reynslu af stjórnunarstörfum, meðal annars í starfsmannamálum, uppgjörum á hárri veltu, umsjón með sölu- og markaðsmálum, ásamt samskiptum við innlenda og erlenda aðila, svo sem birgja og viðskiptavini. Einnig hafi kærandi reynslu af áætlanagerð (markaðs-, fjárhags- og rekstrar) og þjálfun starfsfólks.

Yfirburðanámshæfni og framúrskarandi árangur kæranda í námi hafi verið margviðurkenndur og verðlaunaður, meðal annars með styrk frá Fulbright stofnuninni, styrk frá AAUW-Samtökum bandarískra háskólakvenna (42 styrkþegar af rúmlega 1000 umsækjendum víða um heim); með styrk frá heilbrigðisráðuneyti Íslands, frumkvöðlastyrk frá Búnaðarbankanum og „honour student grant“ úr rannsóknarsjóði Johnson og Wales University. Mjög strangar kröfur séu gerðar til nemenda sem hljóti styrk frá öllum þessum stofnunum og sjóðum, sérstaklega frá Fulbright og AAUW.

Kærandi hafni því alfarið að sá sem var ráðinn hafi verið hæfari til að koma rekstri baðlónsins „skjótt í rétta höfn á þeim forsendum að hann hefði trausta stjórnunarreynslu og sterk tengsl á sviði ferðamála“. Ekkert í menntun þess sem var ráðinn eða starfsreynslu hafi gefið til kynna að hann hefði reynslu af vendingaráætlunum eða viðsnúningi í rekstri, eða reynslu af því að bæta úr lélegri starfsmannastjórnun eða reynslu af framkvæmdastjórn við slíkar aðstæður sem virtust hafa verið ríkjandi við rekstur baðlónsins er hann tók við starfi sínu þar. Kærandi hafi mun meiri menntun og reynslu á sviði ferðamála en sá sem var ráðinn og að auki mikilvæga og ómetanlega alþjóðlega reynslu og tengsl sem kæmu að sérlega góðum notum í viðkomandi rekstri. Kærandi hafi að auki mikla reynslu af því að fást við stjórnunarvandamál. Eitt af verkefnum hennar á PGA National hafi verið að gera heildarúttekt og árangursmat á starfsþjálfun starfsfólksins á PGA Spa. Kærandi hafi unnið ítarlegar starfslýsingar og vaktalista og komið með fjölda tillagna til úrbóta sem hafi verið innleiddar og reynst mjög vel. Á göngudeild SPOEX hafi fjöldi viðskiptavina oftar en ekki verið slíkur að þörf hafi verið skjótra og áreiðanlegra viðbragða af hálfu stjórnenda. Þar hafi kærandi árum saman komið að starfsmannahaldi og þjálfun starfsmanna, útbúið starfslýsingar og vaktalista, séð um áætlanagerð, fjármál og fjárhagsáætlanir, verðlagningu, birgðahald og innkaup, endurskipulagningu og framtíðaráætlanagerð um markmið, rekstur og fleira. Við eigin rekstur hafi kærandi ráðið og þjálfað starfsfólk, samið rekstraráætlanir og vaktaplön, séð um bókun í þjónustu, skipulagt námskeið, séð um að útbúa bæklinga, auglýsingar og annað í markaðsstarfi, verið einkadreifingaraðili á tækjabúnaði frá Dynatronics í Bandaríkjunum og sótt námskeið þar ásamt fleira starfsfólki SMOOTH og verið í góðu sambandi við innlenda sem erlenda viðskiptavini og birgja.

Kærandi hafnar því að sá sem var ráðinn hafi meiri reynslu af ferðaþjónustu en hún og þekki betur til rekstrarumhverfis á landsbyggðinni. Kærandi hafi að minnsta kosti jafnmikla reynslu í ferðaþjónustu og mun víðtækari reynslu en sá sem var ráðinn. Þá hafnar kærandi því að sérmenntun karlmannsins á sviði öryggismála skipti máli enda hafi ekki verið óskað sérstaklega eftir slíkri menntun eða reynslu í starfsauglýsingunni. Enn fremur hafnar kærandi því að tæknifræðimenntun þess sem var ráðinn sé góður undirbúningur fyrir starf framkvæmdastjóra enda hafi verið beðið um háskólamenntun í rekstri en ekki tæknifræði í umræddri auglýsingu.

Að mati kæranda teljist óviðunandi að gengið sé framhjá einstaklingum við ráðningar, sem hafa aflað sér viðamikillar menntunar með umfangsmiklu og kostnaðarsömu langskólanámi, til ákveðinna starfa. Við ráðningu í starf framkvæmdastjóra Baðfélags Mývatnssveitar ehf. var gengið framhjá hæfasta einstaklingnum, þ.e. kæranda, en í því tilliti sé rétt að benda á dóm Hæstaréttar í máli nr. 46/1998, kærunefnd jafnréttismála vegna B gegn íslenska ríkinu.

Við ráðninguna hafi verið brotið alvarlega á kæranda sem hafi valdið henni mikilli hneisu, þar sem meðal annars hafi verið vegið að starfsheiðri hennar og hæfni. Höfnun kæranda í umrætt starf hafi þar að auki valdið henni miklum fjárhagslegum skaða og álitshnekkjum. Hún hafi eytt miklum tíma og fjármununum í að leita réttar í máli þessu. Auk þess hafi þetta hugsanlega hindrað hana í að fá starf við hæfi á þessum litla markaði sem fyrir hendi sé í heilsulindaiðnaðinum á Íslandi.

 

IV.

Sjónarmið Baðfélags Mývatnssveitar ehf.

Af hálfu Baðfélags Mývatnssveitar ehf. er á því byggt að við ráðningu framkvæmdastjóra, undir lok ársins 2004, hafi félagið staðið á tímamótum. Reksturinn hafi verið hafinn en framkvæmdum við jarðböð félagsins í Jarðbaðshólum hafi ekki verið lokið þótt verulegum fjármunum hafi þá þegar verið ráðstafað til uppbyggingarinnar. Baðgestir hafi streymt að með óskipulögðum hætti en stjórnun starfsmanna og framkvæmda hafi verið ábótavant og hætta hafi verið á að félagið skaðaði ímynd sína og bakaði sér rekstrartap ef ekki yrði brugðist skjótt við. Stjórn félagsins hafi því talið nauðsynlegt að ráða þann umsækjanda til starfa sem hún taldi líklegastan til þess að koma félaginu skjótt í örugga höfn, einstakling með trausta stjórnunarreynslu og sterk tengsl og reynslu á sviði ferðamála.

Baðfélag Mývatnssveitar ehf. hafi frá upphafi markað sér þá stefnu að starfa fyrst og fremst á almennum ferðamannamarkaði. Böðin séu opin allt árið og taki á móti öllum sem vilji slaka á í heita lóninu, baða sig í náttúrulegri gufunni og njóta einstakrar náttúrufegurðar sveitarinnar, samanber kynningu á heimasíðu félagsins.

Stjórn félagsins hafi einnig horft til annarra framtíðarmöguleika, svo sem á heilbrigðissviði, en slík starfsemi yrði fyrst möguleg ef tækist að skjóta styrkum rekstrarstoðum undir starfsemina á almenna markaðinum.

Sá sem var ráðinn hafi víðtæka reynslu af störfum innan ferðaþjónustunnar, hann þekki vel til aðstæðna í Mývatnssveit og til rekstrarumhverfis fyrirtækja á landsbyggðinni. Hann sé með sérmenntun á sviði öryggismála og hafi starfað um árabil sem deildarstjóri stórfyrirtækis með mannaforráð og ábyrgð á fjárfestingum og viðhaldsáætlunum. Hann sé með B.S.-gráðu frá Oklahoma University og hafi rekið eigin fyrirtæki á sviði ferðaþjónustu í fimm ár. Hann sé einn af eigendum fyrirtækis sem sérhæfi sig í jeppaferðum. Þar hafi hann haldið utan um daglegan rekstur, en velta fyrirtækisins hafi verið um 100 miljónir króna árið 2004. Hann hafi komið á samskiptum við erlendar og innlendar ferðaskrifstofur, unnið að markaðsmálum og haft umsjón með starfsmannamálum.

Kærandi hafi litla starfsreynslu í ferðaþjónustu á Íslandi en hafi verið fararstjóri með hópa til útlanda í heilsubótardvalir auk þess að sinna starfi skrifstofustjóra á Glaumbar um 13 mánaða skeið. Starfsreynsla hennar snúi aðallega að heilsutengdum sviðum, nokkuð sem stjórn Baðfélags Mývatnssveitar ehf. hafi ekki verið að leita að á þeim tíma. Um stjórnunarlega reynslu og menntun sé ekki deilt. Kærandi sé með meistaragráðu og stjórnunarreynslu á meðferðar- og heilbrigðissviði en það hafi verið mat stjórnarinnar að aðrir þættir vægju þyngra á metunum við þær aðstæður sem Baðfélag Mývatnssveitar ehf. hafi búið við.

Erfitt hafi verið að átta sig á umsókn kæranda. Starfsferilskráin hafi ekki sýnt umfang verkefna, ekki hafi verið getið um reynslu af mannaforráðum eða af krefjandi stjórnunarstörfum. Það hafi því þurft að fá nánari upplýsingar um þessa þætti í starfsviðtali og hafi niðurstaðan verið sú að kærandi hefði ekki að mati stjórnar félagsins næga reynslu á þessum sviðum.

Ákvörðun um ráðningu framkvæmdastjóra hafi verið tekin á grundvelli ofangreindra sjónarmiða. Við samanburð á umsækjendum að loknum starfsviðtölum hafi reynsla þess sem var ráðinn verið talin falla best að þörfum félagsins og þeim hæfisþáttum sem tekið var mið af, samanber auglýsingu um starfið. Það hafi því verið samdóma álit stjórnar félagsins að hann væri hæfastur umsækjenda.

Ákvörðun um ráðningu hafi verið tekin að vel ígrunduðu máli og á grundvelli málefnanlegra sjónarmiða. Fullyrðingum kæranda annars efnis er mótmælt sem tilhæfulausum.

Kærandi hafi ekki gert líklegt að nám hennar eða reynsla hennar af heilsutengdri þjónustu nýttist henni þannig að hún yrði talin jafnhæf eða hæfari en sá sem var ráðinn til að stjórna starfsemi Baðfélags Mývatnssveitar ehf. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að mat stjórnar félagsins á hæfi þess sem var ráðinn hafi verið ómálefnanlegt, samanber dóm Hæstaréttar í máli nr. 330/2003, Leikfélag Akureyrar gegn Jafnréttisstofu.

Baðfélag Mývatnssveitar ehf. mótmælir því að félaginu hafi borið skylda til að afla upplýsinga um umsækjendur umfram það sem komið hafi fram í umsóknargögnum þeirra.

Það skuli ítrekað að félagið reki ekki heilsubaðstað til lækninga á gestum. Jarðböðin við Mývatn séu náttúruupplifun í heitu jarðvarmavatni og náttúrulegum gufuböðum. Engin meðferðarúrræði séu eða verði í boði fyrst um sinn. Áherslan sé því önnur en byggt sé á í athugasemdum kæranda.

Baðfélag Mývatnssveitar ehf. mótmælir því sem tilhæfulausu að félagið hafi á nokkurn hátt vegið að starfsheiðri eða hæfni kæranda og því síður að hafa valdið henni hneisu. Þvert á móti hafi verið farið lofsamlegum orðum um reynslu hennar og hæfni og óskað eftir að fá að leita til hennar kæmi að því að vinna frekar úr heilsutengdum hugmyndum varðandi reksturinn.

Í ágúst 2004 hafi fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins lagt fram skýrslu til stjórnar um ýmis mál og meðal annars um framtíðina. Þar hafi komið fram sjónarmið sem segja mætti að stjórnin hafi haft að leiðarljósi og gert að sínum þegar nýr framkvæmdastjóri hafi verið ráðinn. Baðfélag Mývatnssveitar ehf. vilji sérstaklega benda á eftirfarandi texta: „Ekki verður séð að svo komnu máli að nokkur ástæða sé til að útvíkka starfsemina í heilsutengda ferðaþjónustu eða með þátttöku í öðrum þróunarverkefnum. Ef einhverjir vilja nýta nálægð við Baðfélagið þá hefur félagið yfir að ráða nokkrum lóðum og innviðum sem nýst geta slíkum aðilum. Það mun taka Baðfélagið/Náttúruböðin 2-3 ár að skila viðunandi afkomu en eftir þann tíma mun skapast svigrúm fyrir nýjar hugmyndir.“ Eðlilega hafi verið velt upp hugmyndum um afleidda starfsemi í tengslum við Baðfélagið á þessum tíma enda sé það hlutverk stjórnar hvers félags að huga að slíkum málum. Sú skoðun hafi hins vegar verið ríkjandi að ærið verkefni væri að koma rekstri Baðfélags Mývatnssveitar ehf. í gott horf og því óskynsamlegt að horfa á aðra möguleika næstu árin. Þess vegna hafi verið haft að leiðarljósi að finna nýjan framkvæmdastjóra sem gæti tekist á við þau verkefni sem brýnust væru á þeim tíma, það er að ná tökum á rekstrinum, klára framkvæmdir og framkvæma tæknilegar endurbætur, ekki síst með tilliti til öryggismála. Það hafi jafnframt sýnt sig að þetta hafi verið ærin verkefni.

Stjórn félags sem hefur það hlutverk að ráða framkvæmdastjóra á ákvörðunarvald um það hvaða áherslu hún leggur til grundvallar ráðningu. Sú ákvörðun hafi verið tekin á málefnanlegum grundvelli og sá einstaklingur sem að mati stjórnar hafi verið hæfastur til að takast á við þau verkefni verið ráðinn til starfsins.

 

V.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Af hálfu kæranda er þess óskað í máli þessu að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna þegar ráðið var í starf framkvæmdastjóra Baðfélags Mývatnssveitar ehf., en ráðið var í stöðuna hinn 15. nóvember 2004.

Starf það sem hér um ræðir var auglýst laust til umsóknar í októbermánuði 2004. Í auglýsingu kom fram ítarleg lýsing á starfssviði framkvæmdastjóra. Þar kom meðal annars fram að framkvæmdastjóri færi með yfirstjórn á daglegri starfsemi Jarðbaðanna. Undir starfssviðið félli stjórnun sölu- og markaðsmála, ákvörðun verðskrár, ráðning starfsmanna og skipulagning starfa þeirra. Þá féll undir starfssviðið umsjón með skjalavörslu og bókhaldi, umsjón með fasteignum og viðhaldi og endurnýjun þeirra. Þá var kveðið á um að framkvæmdastjóri ynni að mótun framtíðarsýnar og vexti starfseminnar í samvinnu við stjórn félagsins.

Að því er varðar forsendur til grundvallar mati á umsækjendum yrði litið til menntunar- og hæfnisþátta; háskólamenntunar, rekstrarmenntunar og rekstrarreynslu, reynslu af markaðs- og sölustarfi, reynslu af starfsmannahaldi og stjórnun, bókhaldsþekkingar og kunnáttu í áætlanagerð, reynslu og þekkingar innan ferðaþjónustunnar, þekkingar á atvinnu- og mannlífi á Norðurlandi, auk tungumálakunnáttu. Einnig kom fram í auglýsingu að framkvæmdastjóri þyrfti að hafa jákvætt, kurteislegt viðmót og sýna lipurð í samskiptum. Hann þyrfti að sýna áhuga, hafa frumkvæði og vera sjálfstæður í starfi.

Af hálfu kæranda er til þess vísað hér fyrir nefndinni að með því að ráða karlmann til starfsins hafi Baðfélag Mývatnssveitar ehf. brotið gegn tilvísuðum ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þar sem kærandi hafi verið hæfari til starfans en karlmaður sá sem ráðinn var. Kærandi hafi haft yfirgripsmeiri menntun og reynslu á sviði markaðsfræða, alþjóðaviðskipta, ferðaþjónustuskipulagningar og reksturs heilsulinda sem kærandi hafi haft sérmenntun til. Kærandi hafi haft B.S.-gráðu í viðskiptafræði, á markaðssviði, og meistaragráður í alþjóðaviðskiptum og ferðaþjónustu frá Bandaríkjunum. Þá hafi kærandi meðal annars sérhæft sig í rekstri heilsulinda og heilsuhótela og hlotið stjórnunarþjálfun í tengslum við rekstur slíks heilsuhótels í Bandaríkjunum. Þá hafi kærandi haft reynslu af stjórnunarstörfum, umsjón með sölu- og markaðsmálum og samskiptum í því sambandi, bæði hér á landi og erlendis, samanber og nánari lýsingu hér að framan í kafla III.

Af hálfu Baðfélags Mývatnssveitar ehf. var til þess vísað í rökstuðningi, sem sendur var kæranda í kjölfar ráðningar karlmannsins, að kærandi hafi verið ein af þeim sem til álita hefðu komið varðandi ráðningu í starfið, en að kærandi hafi verið talin „yfirkvalifiseruð“ og að reynsla hennar og menntun hafi verið meira tengd heilsugeiranum en að vilji hafi staðið til að leggja áherslu á af hálfu stjórnar félagsins. Í því sambandi var á það bent að aðalviðskiptavinahópar fyrirtækisins væru almennir ferðamenn og svo yrði næstu árin. Til stæði hins vegar síðar að setja af stað verkefni í heilsu- og heilbrigðisgeira. Af hálfu fyrirtækisins hafi verið ákveðið að velja að þessu sinni einstakling með víðtæka reynslu af rekstri og markaðssetningu í ferðamannageiranum auk tækniþekkingar, en fyrirtækið væri vissulega að glíma við ýmiss konar tæknilegar úrlausnir varðandi mannvirkin og búnaðinn.

Af hálfu Baðfélags Mývatnssveitar ehf. er til þess vísað í greinargerð til kærunefndarinnar að sá sem ráðinn var hafi haft B.S.-gráðu í tæknifræði frá bandarískum háskóla og hafi rekið eigið fyrirtæki á sviði ferðaþjónustu hér á landi um fimm ára skeið, en þar hafi hann haldið utan um rekstur fyrirtækisins. Í því starfi hafi hann átt samskipti við innlendar og erlendar ferðaskrifstofur, unnið að markaðsmálum og haft umsjón með starfsmannamálum. Hann hafi haft sérmenntun á sviði öryggismála og hafi starfað um árabil sem deildarstjóri stórfyrirtækis með mannaforráð og ábyrgð á fjárfestingum og viðhaldsáætlunum. Þá var tekið fram að sá sem ráðinn var hafi þekkt vel til aðstæðna í Mývatnssveit og til rekstrarumhverfis fyrirtækja á landsbyggðinni.

Að því er varðar ákvörðun um ráðninguna sérstaklega var tekið fram að kærandi hefði ekki haft mikla starfsreynslu á sviði ferðaþjónustu hér á landi og að starfsreynsla hennar hafi fyrst og fremst tengst heilsutengdum sviðum. Kærandi hafi haft stjórnunarlega reynslu og menntun á meðferðar- og heilbrigðissviði, en það hafi verið mat stjórnar fyrirtækisins að aðrir þættir í rekstri Baðfélags Mývatnssveitar ehf. hafi vegið þyngra vegna aðstæðna á þeim tíma sem ráðið var í starfið. Þá hafi, að mati stjórnar fyrirtækisins, verið talið að loknu starfsviðtali að kærandi hafi ekki haft nægilega reynslu af mannaforráðum og af krefjandi stjórnunarstörfum að mati stjórnar fyrirtækisins.

Viðurkennt er að atvinnurekendum er almennt játað frelsi til að ákveða fyrirkomulag starfsemi sinnar og skipulag hennar, meðal annars varðandi fyrirkomulag einstakra starfa. Í því felst að ákveða hvaða forsendur lagðar eru til grundvallar við ákvörðun um auglýsingu og eftirfarandi ráðningu í starf, þó að teknu tilliti til skyldna þeirra sem meðal annars má leiða má af ákvæðum jafnréttislaga.

Af hálfu kærunefndar jafnréttismála er litið svo á, með vísan til framanritaðs, að ágreiningur málsaðila lúti fyrst og fremst að því hvort tilgreind menntun og reynsla kæranda, sem telst yfirgripsmikil, hafi fallið nægilega vel að þeim markmiðum sem áhersla hafi verið lögð á við ráðninguna og hvort það hafi talist málefnalegt að ráða karlmanninn frekar til starfsins með tilliti til framangreinds.

Í upphaflegum rökstuðningi Baðfélags Mývatnssveitar ehf. til kæranda kom fram að stjórn fyrirtækisins hefði litið til þess sérstaklega við ákvörðun um ráðningu í starfið að menntun og reynsla kæranda hafi meira tengst svokölluðum heilsugeira en almennri ferðaþjónustu, en á þeim tíma hafi almennir ferðamenn verið langstærsti viðskiptavinahópur fyrirtækisins og talið var að svo yrði næstu árin. Um þetta má einnig vísa til skýrslu fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins til stjórnar, frá ágúst 2004, þar sem meðal annars kom fram að ekki verði séð, að svo komnu máli, að ástæða væri til að útvíkka starfsemina í heilsutengda ferðaþjónustu eða taka þátt í öðrum þróunarverkefnum næstu árin. Þá var og til þess vísað að enn væri verið að glíma við ýmiss konar tæknilegar úrlausnir við mannvirkin og búnaðinn sem koma þyrfti í skorður.

Af hálfu kærunefndar jafnréttismála er á það fallist að af umsókn kæranda verði ráðið að reynsla hennar hafi verið yfirgripsmikil á heilsu- og heilbrigðissviði, þar með talið varðandi heilsutengda ferðaþjónustu, auk annarrar rekstrarreynslu. Á hinn bóginn hafi kærandi ekki haft verulega reynslu af starfsrækslu ferðaþjónustu hér á landi.

Með vísan til þess sem fyrir lá um rekstur fyrirtækisins á þeim tíma sem um ræðir, og með tilliti til þeirra áherslna sem að framan greinir, má fallast á það með Baðfélagi Mývatnssveitar ehf. að menntun kæranda á sviði alþjóðaviðskipta og ferðaþjónustu hafi ekki gert hana hæfari en sá sem ráðinn var til að gegna þessu tiltekna starfi.

Sá sem ráðinn var hafði tæknifræðimenntun á háskólastigi og hafði auk þess um nokkurra ára bil rekið ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfði sig í tilteknum ferðum hér á landi. Þá hafði hann um árabil starfað sem deildarstjóri hjá stóru fyrirtæki með mannaforráð, ábyrgð á fjárfestingum og viðhaldsáætlunum.

Svo sem að framan greinir má ráða af auglýsingu um starfið að starfssvið framkvæmdastjóra hafi verið víðfemt og náð til flestra þátta í daglegri starfsemi fyrirtækisins. Af auglýsingunni verður ekki ráðið að sérstök áhersla hafi verið lögð á sérhæfða þjónustu, svo sem á sviði heilsuþjónustu.

Með vísan til þeirra forsendna sem lágu til grundvallar ákvörðun um ráðningu karlmannsins í starfið, menntunar hans og reynslu af ferðaþjónusturekstri hér á landi, auk annarrar reynslu, og að teknu tilliti til atvika máls þessa að öðru leyti, er það álit kærunefndar jafnréttismála að því verði ekki hnekkt að ákvörðun stjórnar Baðfélags Mývatnssveitar ehf. hafi verið málefnaleg. Af því leiðir að ekki verður talið að kæranda hafi verið mismunað vegna kynferðis síns.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála, að ekki teljist hafa verið brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í máli þessu.

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta