Hoppa yfir valmynd
24. október 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2006

Þriðjudaginn, 24. október 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 10. janúar 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 5. janúar 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 5. janúar 2005 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks námsmanns.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Í október á síðast ári var mér synjað um fæðingarstyrk vegna ófullnægjandi námsárangurs í nýju námi við erlendan háskóla. Eftir þó nokkur bréfaskrif og póstsendingar á milli landa hef ég komist að þeirri niðurstöðu að kæra þennan úrskurð.

Í pósti (fylgiskjal 1) þann 7.júlí 2005 skrifaði B mér eftirfarandi:

„En vil samt benda þér á það, að ef þú getur sýnt fram á að þú hafir náð 6 mánaða 75% nám á 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, þá er um að gera að senda gögn til okkar. Þá á ég við, námsferillinn sem þú sendir okkur sýnir að þú náðir fullu námi á haustönn 2004 sem gerir: september, október, nóvember og desember. Þá vantar 75% nám í janúar og febrúar 2005. Ef þú varst ekki búinn að skrá þig úr neinum fögum þá, og varst ennþá skráður í fullt nám (75%) og getur sýnt fram á að þú varst skráður í fullt nám í febrúar, þá ertu strangt til tekið með 6 mánaða fullt nám“. Tilvitnun lýkur.

Sem ég vil meina að ég uppfylli samkvæmt fylgiskjali 2 og fylgiskjali 3. Skv. fylgiskjali 3 er ég við fæðingu barns skráður í 100% nám við skólann á vorönn 2005 og skv. fylgiskjali 2 búinn að ná 83% námsárangri á hausönn sama ár. Það sem svo gerist í kjölfarið er að konan mín og ég lendum í mjög erfiðri fæðingu sem leiðir til þess að hún er rúmliggjandi í tæpar 3 vikur sem aftur verður til þess að ég næ ekki að ljúka prófum á vorönn vegna þess að ég var að hlúa að henni, nýfæddum son okkar ásamt þriggja ára dóttur, því þegar maður býr erlendis er ekki svo gott aðgengi að ættingjum til að aðstoða þegar svona vandamál koma upp. Vissulega er ekki hægt að gera ráð fyrir að slíkt komi upp á og því varð ég að hugsa fyrst og fremst um fjölskylduna mína og því lenti skólinn því miður í öðru sæti. Í kjölfarið er hún svo að fara í aðgerð nú í janúar/febrúar þar sem að í ljós hefur komið kvillar sem voru þess valdandi að hún varð rúmliggjandi voru alvarlegri er í fyrstu var talið og get ég því útvegað vottorð þess efnis þegar að því kemur, ef ósk er um slíkt.

Sex mánuðum fyrir fæðingu barns tel ég klárlega að ég sé í fullu námi og í því af fullri alvöru. Því samkvæmt mínu námsyfirliti frá LÍN (fylgiskjal 2) er ég skráður með 83% námsárangur á hausönn 2004, en það vill Tryggingastofnun ríkisins ekki fallast á. En ég stend í trú um það að Lánasjóður Íslenskra Námsmanna sé hæfari að meta nám við erlendan skóla en Tryggingastofnun ríkisins. Ég hef ávallt skilað 100% árangri í mínu námi fyrr en nú enda er nám við nýjan erlendan háskóla alltaf stórt stökk og erfitt, ég er því ekki að slæpast í námi heldur voru aðstæður þannig á þessum tíma að ekki var unnt að ljúka prófum.

 

Með bréfi, dagsettu 6. apríl 2006 óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 8. maí 2006. Í greinargerðinni segir m.a.:

„Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 16. gr. eða undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda fæddist þann 18. maí 2005 og því þarf, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að líta hvort tveggja til náms hans á haustönn 2004 og vorönn 2005.

Samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja mun almennt vera miðað við að 100% nám við D-háskóla sé 60 ECTS á einu skólaári. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda skiptist námsárið í fjóra fjórðunga og má ætla að 15 ECTS reiknist sem 100% nám á hverjum fjórðungi. Lífeyristryggingasvið las út úr þeim gögnum sem kærandi lagði fram um námsframvindu hans skólaárið 2004-2005 að hann hefði engu námi lokið á 1. fjórðungi skólaársins en samtals 20 ECTS á 2. fjórðungi. Þá hefði kærandi engu námi lokið með tilskildum árangri á 3. fjórðungi skólaársins en náð 5 ECTS og verið auk þess skráður í 15 ECTS á þeim fjórðungi er barn hans fæddist.

Á grundvelli þessara upplýsinga um námsframvindu kæranda var það mat lífeyristryggingasviðs að kærandi uppfyllti ekki framangreind skilyrði um fullt nám. Taldi lífeyristryggingasvið það engu breyta í þessu sambandi að Lánasjóður íslenskra námsmanna hefði við lánsáætlun til kæranda reiknað námsframvindu hans á haustönn 2004 vera 83%.

Nokkrar undanþáguheimildir er að finna frá skilyrðinu um fullt nám í sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Þannig er samkvæmt 8. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Samkvæmt 9. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi skv. 1. mgr. 19. gr. og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í a.m.k. sex mánuði. Þá segir í 19. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004 að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 18. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getið stundað nám á meðgöngu vegna skilgreindra heilsufarsástæðna. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í fullt nám og fengið greidda sjúkradagpeninga, verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma eða hefði átt rétt á þeim fyrir umrætt tímabil samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þá er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðinu um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda var ekki talið að nokkur þessara undanþáguheimilda, frá skilyrðinu um að foreldri skuli hafa verið í 75–100% námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, ætti við um aðstæður kæranda.

Með vísan til alls framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna samkvæmt 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. bréf lífeyristryggingasviðs, dags. 26. júlí og 5. október 2005.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 16. maí 2006 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 9. júní 2006, þar segir meðal annars:

„Svo segir í greinargerð Tryggingastofnunar að ekkert þessara undanþáguheimilda ætti við aðstæður kæranda. Þar sem ég var í samfelldu starfi frá janúar mánuði til ágúst mánaðar 2004 tel ég mig fyllilega uppfylla skilyrði fyrir undanþágu og meðsendist prentað afrit af skattaskýrslu minni þess efnis.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist aðallega vegna frekari gagnaöflunar um nám kæranda og veikindi maka hans.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2004, eiga foreldrar í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur rétt til fæðingarstyrks. Fullt nám í skilningi laganna er skilgreint í 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, sbr. 11. mgr. 19. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að fullt nám í skilningi ffl. og reglugerðarinnar teljist 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Þá er heimilt að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda er fætt 18. maí 2005. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 18. maí 2004 fram að fæðingu barns.

Kærandi var við B.S -nám í E-fræði við D-háskóla í F-landi. Við skólann er 100% nám 60 ECTS á skólaári. Við mat á því hvort hann uppfylli skilyrði um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns skal líta til náms á vor- og haustmisseri 2004 svo og vormisseri 2005.

Samkvæmt staðfestingu D-háskóla var kærandi skráður í fullt nám skólaárið 2004-2005. Kærandi lauk fullu námi eða 25 ECTS (83%) á haustmisseri 2004. Þegar barn kæranda fæddist þann 18. maí var kærandi skráður í 30 ECTS nám. Á vormisserinu hafði hann áður en barnið fæddist tekið próf í þremur fögum. Hann lauk 5 ECTS en féll í tveimur fögum samtals 10 ECTS en var skráður til próftöku í þeim fögum að nýju 12. júlí og 5. ágúst 2005. Í öðrum fögum samtals 15 ECTS var próftaka eftir fæðingu barnsins eða þann 27. maí og 6. júní 2005. Kærandi lauk B.S -náminu við G-háskóla og er nú skráður í mastersnám við D-háskóla.

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hafa borist gögn þar sem fram kemur staðfesting á veikindum maka kæranda í kjölfar fæðingar og að hún hafi verið illa fær um að sinna börnum þeirra. Með hliðsjón af því er það mat úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að staðfest sé að kærandi hafi haft ríka ástæðu til að segja sig úr prófum eftir fæðingu barnsins. Þegar litið er til þess og því hvernig námi og próftöku var háttað telur úrskurðarnefndin að taka beri tillit til náms kæranda á vormisseri 2005, þ.e. á því misseri sem barnið fæddist, sbr. 2. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um fæðingarstyrk sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta