Nr. 233/2018 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 24. maí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 233/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18030035
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 28. mars 2018 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. febrúar 2018, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi. Kærunefnd hefur ekki borist greinargerð frá kæranda en litið verður svo á að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi fyrst fengið útgefið dvalarleyfi hér á landi vegna fjölskyldusameiningar þann 27. desember 2012, með gildistíma til 10. desember 2013. Það leyfi hafi verið endurnýjað í fjögur skipti, síðast með gildistíma til 10. desember 2017. Þann 8. nóvember 2017 hafi kærandi lagt fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. febrúar 2018, var umsókn kæranda synjað. Ákvörðunin var móttekin fyrir hönd kæranda þann 26. mars 2018 og var hún kærð til kærunefndar þann 28. sama mánaðar. Kærunefnd hefur ekki borist greinargerð frá kæranda en undir meðferð málsins kom hann á framfæri athugasemdum vegna kærunnar.
III. Athugasemdir kæranda
Við meðferð málsins á kærustigi kom fram af hálfu kæranda að hann telji mikilvægt að einhverjar upplýsingar liggi fyrir frá lögreglu þar sem synjun Útlendingastofnunar byggi á opnu lögreglumáli. Kærandi kveður einu ástæðuna fyrir því að hann sé sakborningur í málinu vera vegna búsetu hans.
IV. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar voru skilyrði fyrir útgáfu ótímabundins dvalarleyfis rakin, sbr. 58. gr. laga um útlendinga. Meðal skilyrða væri að útlendingur ætti ekki ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann væri grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi, sbr. e-lið 1. mgr. 58. gr. Fram kom að samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá 9. febrúar 2018 ætti kærandi ólokið mál í refsivörslukerfinu. Þar sem kærandi uppfyllti ekki fyrrnefnt skilyrði e-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga var umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi synjað.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi.
Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis eru m.a. tilgreind í stafliðum a-e í 1. mgr. 58 gr., en samkvæmt e-lið er það skilyrði að útlendingur eigi ekki ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.
Í kjölfar fyrirspurnar frá kærunefnd útlendingamála staðfesti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þann 4. maí 2018 að kærandi ætti ólokið mál í refsivörslukerfinu og að málið varðaði [...]. Ákvæði 58. gr. laga um útlendinga gera ekki ráð fyrir því að heimilt sé að víkja frá skilyrði e-liðar 1. mgr. 58. gr. laganna. Er samkvæmt framangreindu ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis og verður hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.
Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber honum að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Anna Tryggvadóttir
Anna Valbjörg Ólafsdóttir Árni Helgason