Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2008 Innviðaráðuneytið

Samgönguráðherra opnaði Grænlandssýningu

Flugfélag Íslands, Destination South Greenland og Norræna húsið efna í dag til sýningar um Suður-Grænland sem stendur til klukkan 19 í Norræna húsinu í Reykjavík. Kristján L. Möller samgönguráðherra opnaði sýninguna formlega í gær. Í ávarpi sínu hvatti hann til þess að gerður yrði loftferðasamningur milli landanna.

Kristján L. Möller opnar Grænlandssýningu í Norræna húsinu.
Kristján L. Möller opnar Grænlandssýningu í Norræna húsinu.

Á sýningunni eru veittar upplýsingar um veiði- og ævintýraferðir í Grænlandi og segja Pálmi Gunnarsson og Emil Guðmundsson frá svæðinu og hvaða ferðir verða í boði næsta sumar á vegum Flugfélags Íslands. Þá kynna grænlenskir ferðaþjónustuaðilar hvað þeir hafa að bjóða.

Samgönguráðherra sagði í ávarpi sínu að það væri vel til fundið að efna til kynningar á Grænlandi, Íslendingar vissu of lítið um þennan nágranna. Hann sagði samgönguráðuneytið hafa ýtt undir samskipti milli landanna með því að styrkja Grænlandsflug Flugfélagsins og með því mætti vænta aukinna samskipta og viðskipta sem væru báðum löndunum nauðsynleg.

Þá sagði ráðherra heppilegt ef í gildi væri loftferðasamningur milli landanna til að koma þessum samskiptum í fastara form. ,,Mér er kunnugt um að Grænlendingar hafa mikinn áhuga á gerð loftferðasamnings milli Íslands og Grænlands. Ég fagna því og hvet til þess að fulltrúar þjóðanna kanni ítarlega með hvaða hætti slíkt getur orðið. Við vitum að milliríkjasamningar eiga sér gjarnan langan aðdraganda og hér þurfa margir aðilar að koma við sögu, fyrir utan Grænlendinga sjálfa eru það utanríkisráðuneytið og samgönguráðuneytið svo og fulltrúar Danmerkur. En orð eru til alls fyrst og ég vona að ekki líði mörg misseri áður en við getum farið að setja fram raunhæfar hugmundir í þessum efnum,” sagði samgönguráðherra ennfremur.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta