Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 467/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 31. ágúst 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 467/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23050016

 

Kæra [...]

og barna hennar á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 3. maí 2023 barst kærunefnd útlendingamála sjálfkrafa kæra, samkvæmt 3. málsl. 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 á ákvörðunum Útlendingastofnunar um að taka ekki til efnismeðferðar hér á landi umsóknir [...], fd. [...], ríkisborgari Nígeríu og barna hennar, [...], fd. [...] (hér eftir A), [...], fd. [...] (hér eftir B), [...], fd. [...] (hér eftir C) og [...], fd. [...] (hér eftir D), ríkisborgarar Nígeríu, um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Kærandi krefst þess að umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd verði teknar til efnismeðferðar á Íslandi, aðallega á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 en til vara á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 42. gr. sömu laga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi 21. nóvember 2022. Hinn 1. desember 2022 var beiðni um viðtöku kæranda og barna hennar og umsókna þeirra um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Ítalíu, sbr. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá ítölskum yfirvöldum, dags. 18. janúar 2023, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 30. janúar 2023, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Þá komu A og B til viðtals hjá Útlendingastofnun 7. febrúar 2023. Útlendingastofnun ákvað 21. apríl 2023 að taka ekki umsóknir kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kæranda 28. apríl 2023 og barst kærunefnd greinargerð kæranda 12. maí 2023. Upplýsingar frá Útlendingastofnun bárust kærunefnd 25. ágúst 2023.

III.      Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að ítölsk stjórnvöld beri ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda og barna hennar til Ítalíu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn hennar til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hún flutt til Ítalíu.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barnanna kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í máli móður þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, laga um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum þeirra væri ekki stefnt í hættu og að þeim væri best borgið með því að fylgja móður sinni til Ítalíu.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að mál systur hennar hafi þegar fengið efnismeðferð hjá Útlendingastofnun en hún hafi verið búsett í Grikklandi. Systir kæranda hafi sótt hana og þær orðið samferða til Íslands. Kærandi byggir á því að systir hennar muni líklegast fá alþjóðlega vernd hér á landi og því muni hún hafa sérstök tengsl við landið. Kærandi fer fram á að beðið sé með ákvörðun í máli hennar þar til niðurstaða í máli systur hennar liggi fyrir. Kærandi og systir hennar séu nánar en þær hafi komið samferða til landsins. Kærandi byggir á því að þær séu háðar hvor annarri, a.m.k. þurfi kærandi að reiða sig á stuðning systur sinnar enda sé hún á flótta með fjögur börn og sé háð henni með ýmsa aðstoð. Kærandi mótmælir umfjöllun í ákvörðun Útlendingastofnunar um að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að kærandi hafi sérstök tengsl við Ísland. Jafnvel þó systir kæranda sé ekki komin með alþjóðlega vernd sé aðeins tímaspursmál hvenær hún mun hljóta hana. Þá byggir kærandi á því í ljósi viðkvæmrar stöðu sinnar sem þolandi ítrekaðs heimilisofbeldis, að íslenskum stjórnvöldum beri að rannsaka til fulls þær aðstæður sem kærandi og börn hennar búi við og eftir atvikum öryggissjónarmið barnanna, sbr. c-lið 3. mgr. 6. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í því sambandi beri að taka mál kæranda til efnismeðferðar með vísan til 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem sérstakar ástæður mæli með því, með tilliti til aðstæðna og atvika í máli hennar og meginreglunnar um skyldubundið mat stjórnvalda. Kærandi hafi verið einangruð á Ítalíu og geti vart séð börnum sínum farborða. Staða kæranda sé slæm, en staða barna hennar sé sérstaklega viðkvæm og slæm. Í kjölfar barnaviðtala verði ráðið að börn kæranda hafi orðið fyrir ofbeldi, mögulega af hálfu foreldra sinna. Kærandi telur því mikilvægt að mál þeirra fái efnismeðferð þar sem hagsmunir barnanna þar að lútandi séu sérstaklega miklir enda vandséð hvort börnin muni fá þá þjónustu sem þau þurfi á að halda á Ítalíu. Verði fjölskyldan endursend til Ítalíu verði ekki séð hvernig tryggja megi vernd og velferð barnanna.

Með vísan til framangreinds byggir kærandi á því að horfa þurfi til þess hvað sé börnunum fyrir bestu, sbr. 6. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í því sambandi þurfi að meta hvort Útlendingastofnun telji að börnunum standi raunverulegt stuðnings- og verndarúrræði til boða á Ítalíu, einkum hvað varðar vernd gegn mögulegu ofbeldi af hálfu foreldra þeirra. Kærandi byggir á því að rök standi til þess að tryggja, einkum börnunum, alþjóðlega vernd þannig að þeim verði jafnframt tryggður viðunandi stuðningur, félagsleg aðstoð og barnavernd. Hagsmunir barnanna yrðu hafðir að leiðarljósi með því að fallast á efnismeðferð og eftir atvikum veita þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða í kjölfarið.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í greinargerð kæranda er byggt á því að í kjölfar barnaviðtala verði ráðið að börn kæranda hafi orðið fyrir ofbeldi, mögulega af hálfu foreldra sinna. Í viðtali við barnið A greindi hún frá því að hafa verið beitt ofbeldi af hálfu móður sinnar og frænku. Með tölvubréfi kærunefndar til Útlendingastofnun var óskað eftir upplýsingum um það hvort tilkynning hafi verið send til barnaverndar og hvort frekari könnun á aðstæðum barnanna hefði farið fram. Í svari frá Útlendingastofnun sem barst kærunefnd 25. ágúst 2023, kemur fram að í dagbókarfærslu sé tilgreint að Barna- og fjölskyldustofu og Barnavernd Hafnarfjarðar hafi verið tilkynnt um grun um ofbeldi gegn börnunum, sem hafi vaknað í viðtali. Þá lægi ekki fyrir afrit af skriflegri tilkynningu hjá Útlendingastofnun svo tilkynningin hafi líklega farið fram í gegnum vefinn.

Af lestri ákvarðana Útlendingastofnunar og yfirferð annarra gagna í málinu er það mat kærunefndar, eins og hér háttar á, að ekki hafi verið nægjanlega upplýst um einstaklingsbundnar aðstæður kæranda og barna hennar í ljósi framburðar A. Hvorki í ákvörðun A né kæranda er vikið að frásögn barnsins í viðtali og ekki að sjá að fram hafi farið skoðun á því sem fram kom í viðtalinu um að grunur hafi verið að móðir A hafi beitt hana ofbeldi. Þá verður ekki séð af ákvörðununum að stofnunin hafi gert fullnægjandi reka að því að upplýsa málið nægjanlega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í ljósi framburðar A, telur kærunefnd að rannsókn Útlendingastofnunar hafi að þessu leyti verið ófullnægjandi, þar sem skort hafi á að upplýsa um atriði er haft gætu áhrif á málið. Vísar kærunefnd í því sambandi jafnframt til 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga en þar kemur m.a. fram að hagsmunir barna skulu hafðir að leiðarljósi við ákvörðunartöku. Kærunefnd telur að í ljósi framkominna upplýsinga hefði þurft að fara fram frekari könnun á aðstæðum barna kæranda til að hægt væri að taka ákvörðun í málinu. Kærunefnd telur óhjákvæmilegt að vísa málunum aftur til nýrrar meðferðar.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda og barna hennar og að ekki hafi farið fram viðhlítandi rannsókn á umsóknum þeirra. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr framangreindum annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda og barna hennar hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hinar kærðu ákvarðanir úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er að mati kærunefndar ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda.

Úrskurðarorð:

 

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda og barna hennar til meðferðar á ný.

 

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate is instructed ro re-examine the cases.

Þorsteinn Gunnarsson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                            Gunnar Páll Baldvinsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta