Hoppa yfir valmynd
4. mars 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 619/2020-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 619/2020

Fimmtudaginn 4. mars 2021

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. nóvember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Reykjavíkurborgar, dags. 23. október og 18. nóvember 2020, um að synja umsóknum hennar um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. september til 31. október 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 23. september 2020, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 30. september 2020. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun þjónustumiðstöðvar 30. september 2020 með vísan til 8. og 14. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem staðfesti synjunina með ákvörðun, dags. 23. október 2020. Með umsókn, dags. 30. október 2020, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 31. október 2020. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun þjónustumiðstöðvar 5. nóvember 2020 með vísan til 8. og 14. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem staðfesti synjunina með ákvörðun, dags. 18. nóvember 2020.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 26. nóvember 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. desember 2020, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 23. desember 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. janúar 2021. Athugasemdir og gögn bárust frá kæranda 15. janúar 2021. Athugasemdir og gögn kæranda voru send Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. janúar 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi fengið fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg í rúmt ár og hafi sótt um eins og venjulega fyrir október og nóvember. Kærandi hafi ætlað að vera komin af bótum í byrjun árs 2020 en hún hafi verið að vinna að verkefni í sínu fagi. Verkefnið hafi ekki komist af stað vegna Covid, því hafi seinkað og því hafi hún engar aðrar tekjur og hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi verið búsett erlendis í 25 ár og hafi ekki neina reynslu af íslenskum vinnumarkaði, hafi ekki unnið á Íslandi í 20 ár. Kærandi hafi unnið hjá virtum fyrirtækjum þar sem hún hafi verið búsett en það sé ekki til samsvarandi vinna á Íslandi. Þess vegna álíti hún að það sé best að koma sér upp eigin vinnu en einnig vegna aldurs hennar og því að hún hafi ekki starfsreynslu á Íslandi. Til að byrja með hafi Reykjavíkurborg krafist þess að hún skildi við eiginmann sinn og barnsföður sem hún hafi ekki búið með í 18 ár. Kæranda hafi verið tjáð að hún gæti ekki fengið styrk vegna þess að hún væri gift, það væri framfærsluskylda. Kærandi tekur fram að eiginmaður hennar hafi aldrei borgað meðlag með syni þeirra og þar sem þau hafi verið búsett séu ekki reglur um framfærsluskyldu, þar sé nóg að skilja að borði og sæng. Þau eigi engar eignir eða neitt slíkt og því hafi ekki tekið því að fullgera skilnaðinn þar og þá. Nú sé kærandi búin að sækja um skilnað en hann gangi ekki í gegn fyrr en þau fái fund hjá Sýslumanni og vegna Covid hafi það tafist. Kærandi hafi því verið hálf pínd til að skilja en svo ekki fengið fjárhagsaðstoð. Sú ástæða sem hafi verið gefin upp sé hlægileg, að kærandi hafi sótt um undanþágu til að fá styrk án undirskriftar eiginmanns síns. Þegar kærandi hafi fengið bréfið hafi hún beðið sinn fyrrverandi um að skrifa undir og það hafi hann að sjálfsögðu gert. Kærandi hafi aldrei beðið um undanþágu frá þessu atriði. Kæranda hafi aldrei verið sagt að undirskrift eiginmanns væri nauðsynleg og ekki hafi verið beðið um það fyrr en í október 2020, eftir rúmt ár á bótum. Þá sé þetta með lögskilnaðinn ótrúlega furðulegt inngrip inn í hennar líf. Kæranda finnist allt í lagi að gera það en þessi saga sé samt ekki alveg rétt gagnvart henni.

Kærandi tekur fram að hún eigi fyrirtæki sem hafi ekki verið starfandi í tvö ár. Fyrirtækið sé lokað, vasknúmeri hafi verið lokað og ársuppgjör sýni 0 kr. í tekjur tvö ár í röð. Kærandi hafi komið til Íslands í janúar 2018 vegna veikinda móður sinnar sem hafi dáið í lok þess árs. Annars hefði kærandi ekki komið til Íslands en nú vilji hún vera hér þar sem hún vilji ekki vera of langt frá föður sínum. Að auki sé kærandi langt komin með undirbúning á verkefni sínu. Hún þurfi bara að finna leið til að lifa af þar til Covid-faraldurinn sé yfirstaðinn. Kærandi sé búin að senda skattskýrslur og bankareikninga fyrirtækisins og sína eigin bankareikninga. Kærandi telji það mjög sérstakt að vilja sjá hennar persónulega bankareikninga en það sjáist allavega að inn á hvorugan reikning sinn hafi hún fengið neinar tekjur í tvö ár. Kærandi óski eftir því að synjun Reykjavíkurborgar um styrk að fjárhæð 169 þúsund kr. á mánuði verði tekin til baka. Kærandi óski eftir að fá styrk fyrir september og október og áfram í nokkra mánuði til viðbótar. Kærandi þurfi að skrimta þar til Covid sé yfirstaðið en eftir það fari hún af stað með verkefni sitt á fullu. Kærandi hafi ákveðin áform og hlakki til að framkvæma þau. Á biðtímanum hafi kærandi unnið í verkefni sínu, við það sem hún kunni að gera, en hún fái hvort eð er ekki vinnu á ófaglærðum vinnustöðum. Kærandi þarfnist framfærslu núna og hafi enga aðra tekjulind. Fyrrverandi eiginmaður kæranda sé búsettur erlendis og sé ekki líklegur til að hjálpa henni fjárhagslega.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Reykjavíkurborgar er tekið fram að fyrirtækið sem hún sé skráður hluthafi í hafi ekki verið starfandi síðustu þrjú ár og það sé ekki hægt að versla í gegnum vefsíðuna þótt það líti þannig út. Vefsíðan hafi aldrei haft neina færsluhirðingu og sé reyndar endanlega lokuð. Virðisaukaskattsnúmerið sé einnig lokað og fyrirtækið sé verðlaust þannig að hennar hluti sé alveg verðlaus. Meðfylgjandi gögn frá kæranda sýni fram á að engar tekjur hafi verið af fyrirtækinu síðan árið 2017. Þegar kærandi hafi fengið upplýsingar frá Reykjavíkurborg um að það þyrfti undirskrift maka hafi hún fengið þriggja mánaða frest sem hafi því miður ekki verið nægur tími vegna ferðatakmarkana út af Covid. Núna sé það mál búið að vera í ferli hjá Sýslumanni og fljótlega verði þau lögskilin. Fyrrverandi maki sé tekjulaus þannig að það ætti ekki að breyta því sem hún telji fram í tekjur á umsókn um fjárhagsaðstoð eins og meðfylgjandi gögn sýni fram á. Þetta mál þurfti því miður lengri tíma til afgreiðslu en þrjá mánuði en það sé vegna erfiðleika í ferðum á milli landa til að skrifa undir skjöl á þessum fordæmalausu tímum. Kærandi vonar að beiðni hennar verði tekin til greina því að hún sé nú í miklum fjárhagserfiðleikum og að hennar mati hafi starfsfólk Reykjavíkurborgar ekki sýnt þessu erfiða máli nægan skilning.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi hafi þegið fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg frá árinu 2018 en hún sé án bótaréttar hjá Vinnumálastofnun. Í apríl 2020 hafi komið í ljós við afgreiðslu fjárhagsaðstoðar að kærandi væri skráð sem „hjón ekki í samvistum“ í Þjóðskrá, sem hafi ekki verið í samræmi við þær upplýsingar sem kærandi hafi áður veitt þjónustumiðstöð. Í kjölfarið hafi kærandi verið upplýst um framfærsluskyldu hjóna og henni veitt undanþága frá undirskrift maka tímabundið í þrjá mánuði, eða frá júní til ágúst 2020. Kæranda hafi þannig verið veittur frestur til að ganga frá skilnaði, sem hún hugðist gera, en umsókn um skilnað hafi ekki legið fyrir við vinnslu málsins. Þann 23. september 2020 hafi kærandi sótt um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. september 2020 til 30. september 2020. Umsókn kæranda hafi verið synjað þar sem hún samræmdist ekki 8. og 14. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi hafi annars vegar sótt um undanþágu frá undirskrift maka samkvæmt 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og hins vegar um undanþágu frá 14. gr. reglnanna sem fjalli um atvinnurekendur, sjálfstætt starfandi einstaklinga og fólk í hlutastörfum.

Í 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé kveðið á um að sveitarstjórn skuli setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er meti þörf og ákveði fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veiti þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilji veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga sé mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veiti. Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum hafi tekið gildi þann 1. janúar 2011.

Litið sé svo á að fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991. Sú meginregla gildi að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð ef hann geti ekki framfleytt sér sjálfur. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, með síðari breytingum, sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Þá sé jafnframt byggt á þeirri meginreglu að hjón beri sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar og beri gagnkvæma framfærsluskyldu, sbr. 1. mgr. 46. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og 1. og 2. mgr. 47. gr. sömu laga.

Í III. kafla reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavík sé að finna ákvæði sem lúti að rétti til fjárhagsaðstoðar. Við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar samkvæmt reglunum skuli meðal annars horft til 14. gr. reglnanna sem kveði á um að sjálfstæðir atvinnurekendur hafi stöðvað atvinnurekstur. Í 1. mgr. 14. gr. reglnanna segi:

„Atvinnurekendur, sjálfstætt starfandi einstaklingar og fólk í hlutastörfum, sem hafa/hefur lægri tekjur en sem nema grunnfjárhæð, eiga rétt á fjárhagsaðstoð að því tilskildu að viðkomandi hafi stöðvað atvinnurekstur sinn og leitað réttar síns til atvinnuleysisbóta í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. og 4. mgr. 1. gr. reglna þessara.“

Við vinnslu málsins hafi legið upplýsingar frá Skattinum um að kærandi væri hluthafi í tilteknu einkahlutafélagi ásamt því að vera forráðamaður og stjórnarmaður þess. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi virðisaukaskattsnúmer félagsins verið afskráð þann 7. september 2020 en fyrirtækið sjálft hafi ekki verið afskráð og teljist því enn vera í rekstri. Þá beri einnig að nefna að við vinnslu málsins sem og nú sé vefverslun fyrirtækisins enn uppi þar sem hægt sé að versla vörur fyrirtækisins. Kærandi sé því hluthafi í einkahlutafélagi sem teljist enn vera í rekstri og sé skráður bæði forráðamaður og stjórnarmaður þess félags. Þá sé kærandi samkvæmt skráningu í Þjóðskrá skráð sem „hjón ekki í samvistum“ og því hafi velferðarráð Reykjavíkurborgar talið ljóst að kærandi hefði sannarlega verið í hjónabandi á þeim tíma er umsókn hafi verið lögð fram.

Reykjavíkurborg tekur fram að í 2. mgr. 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð komi fram að á umsóknareyðublöðum skuli koma fram, eftir atvikum, upplýsingar um umsækjanda, þar með talið lögheimili, fjölskyldugerð, nafn maka og barna á framfæri, upplýsingar um skráningu í nám og nákvæmar upplýsingar um tekjur og eignir. Þá segi einnig í greininni að umsókn skuli fylgja yfirlit yfir eignir og tekjur vegna síðastliðins árs, yfirlit yfir allar tekjur og aðrar greiðslur til umsækjanda og maka hans þann mánuð sem umsókn sé lögð fram og mánuðinn á undan, þar með taldar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, innlendum og erlendum lífeyrissjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bönkum, sparisjóðum, lánastofnunum eða öðrum aðilum, barnabætur, mæðra- og feðralaun. Maki kæranda sé ekki staddur á Íslandi og sé ekki með lögheimili í Reykjavík. Þá liggi ekki fyrir neinar upplýsingar um hann, tekjur hans eða eignir, en samkvæmt 2. mgr. 8. gr. beri að upplýsa um tekjur og eignir maka þann mánuð sem umsókn sé lögð fram og mánuðinn á undan. Samkvæmt kæranda hugðist hún sækja um skilnað við eiginmann sinn og henni hafi verið veitt svigrúm í þrjá mánuði til þess að hefja skilnaðarferli. Við vinnslu málsins hafi hins vegar ekki legið fyrir upplýsingar eða gögn þess eðlis sem sýndu fram á að slíkt ferli væri hafið. Velferðarráð hafi því talið að synja bæri umsókn um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. september 2020 til 30. september 2020 á grundvelli 8. og 14. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og staðfest synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar á fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir áðurnefnt tímabil.

Samkvæmt framansögðu sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991, með síðari breytingum.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðunum Reykjavíkurborgar um að synja umsóknum kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. september til 31. október 2020.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um inntak fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr.  reglnanna skal fjárhagsaðstoð veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði velferðarráðs, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar, í samræmi við V. kafla laga nr. 40/1991 þar sem kveðið er á um félagslega ráðgjöf. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglnanna skal fjárhagsaðstoð að öðru jöfnu vera greidd einn mánuð í senn og ákvarðanir um aðstoð skulu að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði. Þá segir að aðstæður þeirra sem fengið hafa fjárhagsaðstoð lengur en þrjá mánuði skuli kannaðar sérstaklega, félagsleg ráðgjöf veitt í samræmi við V. kafa laga nr. 40/1991 og viðkomandi skuli bent á að leita sér aðstoðar umboðsmanns skuldara.

Í máli þessi liggur fyrir að kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá lokum árs 2018 og þar til henni var synjað um frekari fjárhagsaðstoð í september 2020, annars vegar með vísan til 8. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð þar sem undirskrift maka hafi vantað og hins vegar á grundvelli 14. gr. reglnanna þar sem hún væri sjálfstætt starfandi.

Í 8. gr. reglnanna er kveðið á um hvernig umsókn um fjárhagsaðstoð skuli úr garði gerð og hvaða gögn og upplýsingar skuli fylgja með henni. Þar segir meðal annars í 2. mgr. ákvæðisins að umsókn skuli undirrituð á sérstöku umsóknareyðublaði en ekki sé gerð krafa um undirritun þegar umsókn sé gerð með rafrænum hætti. Á umsóknareyðublaðinu skuli koma fram, eftir atvikum, upplýsingar um umsækjanda, þar með talið lögheimili, fjölskyldugerð, nafn maka og barna á framfæri, upplýsingar um skráningu í nám og nákvæmar upplýsingar um tekjur og eignir. Með umsókn skuli fylgja yfirlit yfir eignir og tekjur vegna síðastliðins árs, yfirlit yfir allar tekjur og aðrar greiðslur til umsækjanda og maka hans þann mánuð sem umsókn sé lögð fram og mánuðinn á undan. Í 14. gr. reglnanna kemur fram að atvinnurekendur, sjálfstætt starfandi einstaklingar og fólk í hlutastörfum, sem hafi lægri tekjur en sem nemi grunnfjárhæð, eigi rétt á fjárhagsaðstoð að því tilskildu að viðkomandi hafi stöðvað atvinnurekstur sinn og leitað réttar síns til atvinnuleysisbóta í samræmi við ákvæði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. og 4. mgr. 1. gr. reglnanna.

Kærandi er í hjónabandi en samkvæmt Þjóðskrá er hjúskaparstaðan skráð „hjón ekki í samvistum“. Reykjavíkurborg hefur vísað til gagnkvæmrar framfærsluskyldu hjóna og að ekki liggi fyrir upplýsingar um tekjur og eignir maka kæranda. Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi ekki búið með fyrrverandi eiginmanni sínum í 18 ár, hann sé búsettur erlendis og sé tekjulaus og því ekki líklegur til þess að aðstoða hana fjárhagslega. Þá hefur kærandi vísað til þess að fyrirtækið sem hún sé skráður hluthafi í hafi ekki verið starfandi síðustu þrjú ár. Fyrirtækið sé verðlaust og virðisaukaskattsnúmerið sé lokað.

Í máli þessu virðist ágreiningslaust að kærandi og eiginmaður hennar hafi slitið samvistum og var kæranda meðal annars veittur frestur og undanþágur í því skyni að hún gæti gengið frá skilnaði þeirra. Þá liggur fyrir að eiginmaður kæranda er búsettur erlendis og að sögn kæranda lauk hjónabandi þeirra fyrir 18 árum. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála bar Reykjavíkurborg því að leggja mat á raunverulegar aðstæður kæranda, þrátt fyrir opinbera skráningu Þjóðskrár á hjúskaparstöðu hennar, að teknu tilliti til skyldu hennar til að framfæra sjálfa sig. Hvað varðar fyrirtæki kæranda þá lágu fyrir upplýsingar um rekstur þess þegar kærandi sótti um fjárhagsaðstoð í lok árs 2018. Í greinargerð fyrir áfrýjunarnefnd kemur fram að kærandi hafi skilað gögnum um rekstur fyrirtækisins og það hafi verið metið sem svo að kærandi ætti rétt á fjárhagsaðstoð þar sem engar eignir væru til staðar né væri hún að fá tekjur af rekstrinum. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni hefur kærandi lagt fram ýmis gögn um fyrirtækið, þar á meðal tilkynningu til Ríkisskattstjóra um afskráningu af virðisaukaskattskrá frá 31. desember 2019 og núllskýrslur vegna virðisaukaskatts fyrir september og október 2019 svo og fyrir tímabilið janúar til júní 2020. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur Reykjavíkurborg ekki sýnt fram á hvaða breytingar urðu á fyrirtækjarekstri kæranda sem leiddu til þess að skilyrði 14. gr. reglna sveitarfélagsins voru ekki lengur uppfyllt. Úrskurðarnefndin tekur fram að Reykjavíkurborg er bundin af jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. laga nr. 37/1993, en samkvæmt henni skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þegar stjórnvald hefur byggt ákvörðun á tilteknum sjónarmiðum og lagt áherslu á ákveðin sjónarmið leiðir jafnræðisreglan almennt til þess að þegar sambærilegt mál kemur aftur til úrlausnar ber almennt að leysa úr því á grundvelli sömu sjónarmiða og með sömu áherslu og gert var við úrlausn hinna eldri mála.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að aðstæður kæranda hafi ekki verið metnar með fullnægjandi hætti og að ekki hafi verið kannað til hlítar hvort hún gæti framfært sjálfa sig á því tímabili sem um ræðir. Hinar kærðu ákvarðanir eru því felldar úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Reykjavíkurborgar, dags. 23. október og 18. nóvember 2020, um að synja umsóknum A, um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. september til 31. október 2020, eru felldar úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta