Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 334/2015

Miðvikudaginn 4. febrúar 2015

334/2014

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þorsteinn Magnússon lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. nóvember 2014, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma milligöngu meðlagsgreiðslna til barnsmóður kæranda.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru eftirfarandi samkvæmt málsgögnum. Tryggingastofnun ríkisins samþykkti að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. september 2014 á grundvelli umsóknar hennar þar um og lögformlegri meðlagsákvörðun. Kæranda var tilkynnt um þá ákvörðun stofnunarinnar með bréfi, dags. 28. október 2014. Kærandi andmælti þeirri ákvörðun við stofnunina með bréfi, dags. 4. nóvember 2014, þar sem segir að hann hafi þegar greitt meðlag til barnsmóður sinnar fyrir tímabilið frá 15. ágúst 2014 til 30. nóvember 2014. Tryggingastofnun svaraði andmælum kæranda með bréfi, dags. 10. nóvember 2014, þar sem fyrri niðurstaða stofnunarinnar var ítrekuð með frekari rökstuðningi.

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

„Dóttir mín, B, óskaði þess að fá að búa hjá undirrituðum frá […] 2014 og fram á haust eftir að hún ásamt móður sinni höfðu flutt búferlum til C. B óskaði þess að klára grunnskólann á D og flutti [...] í trássi við móður sína. Móðir B, E, fer með forræði yfir B og neitaði að færa lögheimili hennar þrátt fyrir flutninga. Undanþága fékkst frá tilskyldum reglum hjá D og fékk B að klára grunnskóla á D þrátt fyrir að eiga lögheimili í C hjá móður.

Á þeim tíma sem A dvaldi hjá undirrituðum voru meðlagsgreiðslur stöðvaðar til E en undirritaður fór jafnframt ekki fram á að fá meðlagsgreiðslur með barni sínu frá E.

Um miðjan ágúst 2014 flutti B aftur til C til móður sinnar þar sem hún hóf nám við framhaldsskóla þar. Undirritaður var meðvitaður um, að þá skyldu meðlagsgreiðslur hefjast á ný og snéri sér til Tryggingastofnunar á D. Þar var honum tilkynnt að móðir þyrfti að sækja um slíka endurvakningu. Undirritaður tilkynnti barnsmóður sinni um gildandi reglur en hún kvartaði undan óheiðarleika undirritaðs fyrir að borga ekki með barni sínu. Undirritaður hóf því strax að borga meðlagsgreiðslur inn á reikning barnsmóður sinnar eftir að hafa fengið upplýsingar um upphæðir hjá Tryggingarstofnun. Greiðslur voru millifærslur frá Íslandsbanka, merktar sem meðlagsgreiðslur og borgaði undirritaður hálfan ágústmánuð, september, oktober og nóvember.

Í gær barst undirrituðum tilkynning um það að ekki yrði tekið tillit til þessara greiðslna með tilvitnun í 1.mgr.63.gr barnalaga nr. 76/2003 auk samnings sem undirritaður undirritaði 1999 og tilvitnun í 1.mgr.63.gr. almennatryggingalaga og 67.gr. barnalaga um að Tryggingarstofnun skuli hafa milligöngu um greiðslu meðlags.

Undirritaður sem í gegnum tíðina hefur verið hafður fyrir röngum ásökunum frá móður um vanrækslu og svik var einfaldlega að greiða meðlag á réttum tíma og reyna þar með að sinna sínum skyldum. Undirritaður hefur ekki hugmynd um greinagerðir laga og fékk engar slíkar upplýsingar er hann leitaði eftir aðstoð hjá Tryggingarstofnun D. Hefði ekki verið einfaldast og jafnframt skylda starfsmanna Tryggingastofnunnar að upplýsa um þessi réttindi móður – en í þessu tilfelli er kannski litið svo á að undirrituðum komi þau ekki við ? B er líka barn mitt og þrátt fyrir það sem barnsmóður kann að þykja, þá ber ég umhyggju fyrir barni mínu hvort heldur sem hún er stödd hjá mér eða móður sinni.

Undirritaður fer fram á að tekið verði tillit til umrædda greiðslna og að meðlagsgreiðslur hefjist í desember. Barnsmóðir ætti ekki síður að vera kunnugt um réttindi sín og hvers hún er að krefjast. Væri hún meðvituð um þessar fyrrnefndar lagagreinar hefði hún átt að leiðrétta Tryggingastofnun og tilkynna að hún hefði þegar meðtekið þessar greiðslur.“

Með bréfi, dags. 26. nóvember 2014, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna kærunnar. Greinargerð dags. 10. desember 2014, barst frá stofnuninni þar sem segir:

1. Kæruefni

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um að taka til greina að hann hafi greitt meðlag beint til barnsmóður sinnar fyrir hálfan ágústmánuð, september, október og nóvember 2014.

2. Málavextir

Málavextir eru þeir að Tryggingastofnun synjaði kæranda með bréfi dags. 10. nóvember 2014 að taka til greina að kærandi hefði borgað barnsmóður sinni, E, beint meðlag með dóttur sinni fyrir hálfan ágústmánuð, september, október og nóvember 2014. Kærandi hafði lagt fram kvittanir dags. 22. september 2014, 9. september 2014 og 20. október 2014 sem sýndu að kærandi hefði lagt inn á barnsmóður sína 14.000 kr., 26.081 kr., 26.000 kr. og 27.000 kr. og kom fram á kvittununum að um meðlag væri að ræða.

Forsaga málsins er sú að Tryggingastofnun tilkynnti kæranda með bréfi dags. 28. október 2014 að stofnunin hefði samþykkt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður kæranda frá 1. september 2014. Sú samþykkt var byggð á innsendri umsókn barnsmóður kæranda dags. 1. september 2014 og staðfestingu á samkomulagi um meðlag útgefinni af sýslumanninum á D þann 27. desember 1999, en þar kemur fram að kærandi skuli greiða meðlag með dóttur sinni B til 18 ára aldurs hennar.

3. Lög og reglur

Í 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, segir að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 er Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.

4. Niðurstaða

Í úrskurði Félags- og tryggingamálaráðuneytisins dags. 3. febrúar 2009 segir að hlutverk Tryggingastofnunar sé eingöngu að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hefur verið tekin með lögmætum hætti. Ef foreldri leggur fram samkomulag um greiðslu meðlags sem staðfest er af sýslumanni beri Tryggingastofnun skv. 1. mgr. 63. gr. almannatryggingalaga og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn en talin eru upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags.

Þá segir í úrskurði Úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 466/2010 að þrátt fyrir að kærandi geti sýnt fram á að hann hafi lagt inn tiltekna fjárhæð á reikning barnsmóður sinnar breyti það engu um þá staðreynd að Tryggingastofnun ber skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun sé þess farið á leit við stofnunina. Tryggingastofnun hefur engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun.

Hjá Tryggingastofnun liggur fyrir umsókn barnsmóður kæranda dags. 1. september 2014 um milligöngu Tryggingastofnunar um greiðslu meðlags með dóttur sinni og kæranda ásamt löggildum meðlagssamningi. Með vísan til framanritaðs bar Tryggingastofnun að hafa milligöngu um greiðslu meðlagsins til barnsmóður kæranda.

Eins og kemur fram í ofangreindum úrskurðum er stofnuninni ekki heimilt að taka önnur gögn til greina en talin eru upp í 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga við milligöngu um greiðslu meðlags. Tryggingastofnun var því ekki heimilt að verða við beiðni kæranda um að taka til greina að hann hafi greitt meðlag beint til barnsmóður sinnar fyrir hálfan ágústmánuð, september, október og nóvember 2014.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 10. desember 2014, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. september 2014. Kærandi fer fram á að upphafstími milligöngunnar skuli ákvarðaður frá 1. desember 2014.

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hann hafi þegar greitt meðlag til barnsmóður sinnar fyrir tímabilið frá 15. ágúst 2014 til 30. nóvember 2014. Fram kemur að greiðslurnar hafi verið merktar sem meðlagsgreiðslur.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er vísað til úrskurðar félags- og tryggingamálaráðuneytis, dags. 3. febrúar 2009, þar sem segi að hlutverk stofnunarinnar sé eingöngu að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Hafi foreldri lagt fram samkomulag um greiðslu meðlags, staðfestu af sýslumanni, beri stofnuninni að hafa milligöngu um greiðslu meðlags, sbr. 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga. Stofnunin hafi ekki heimild, lögum samkvæmt, til að taka til greina önnur gögn en þau sem talin séu upp í framangreindum ákvæðum við milligöngu um meðlagsgreiðslur. Þá segir að umsókn barnsmóður kæranda hafi legið fyrir ásamt löggildum meðlagssamningi. Stofnuninni hafi því borið að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur og hafi ekki verið heimilt að taka til greina að kærandi hafði þegar greitt meðlag beint til barnsmóður.

Í 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, er kveðið á um milligöngu Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur þar sem segir:

,,Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 20. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.“

Samkvæmt lagaákvæðinu getur einstaklingur sem hefur barn á framfæri átt rétt á fyrirframgreiðslu meðlags liggi fyrir lögformleg meðlagsákvörðun. Samkvæmt gögnum málsins sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar um meðlag með umsókn, dags. 1. september 2014. Meðfylgjandi umsókninni var staðfest samkomulag um meðlag, dags. 27. desember 1999. Samkvæmt samningnum ber kæranda að greiða barnsmóður sinni einfalt meðlag með barninu til átján ára aldurs þess. Stofnunin samþykkti milligöngu um einfaldar meðlagsgreiðslur frá 1. september 2014 með stoð í framangreindu lagaákvæði á grundvelli áðurnefndar umsóknar og meðlagsákvörðunar.

Hlutverk Tryggingastofnunar í tengslum við meðlagsgreiðslur markast af ákvæðum viðeigandi laga og reglugerða. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar ber stofnuninni lögbundin skylda til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur sé þess farið á leit við stofnunina í þeim tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir. Í ákvæðinu, sem er grundvöllur ákvörðunar stofnunarinnar, segir nánar tiltekið að hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni geti snúið sér til stofnunarinnar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags samkvæmt úrskurðinum og sama gildir um staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur.

Kærandi greinir frá því að hann hafi greitt meðlag til barnsmóður sinnar á tímabilinu 15. ágúst 2014 til 30. nóvember 2014 án milligöngu Tryggingastofnunar. Þar að auki hefur hann lagt fram staðfestingu á millifærslum til barnsmóður sinnar þess efnis. Úrskurðarnefnd telur engu að síður í máli þessu að hvorki verði ráðið af lögunum né lögskýringargögnum að stofnunin hafi heimild til annars en að fara að framangreindu lagaákvæði sem gildir um milligöngu stofnunarinnar um greiðslu meðlags liggi fyrir lögformleg meðlagsákvörðun.

Með hliðsjón af framangreindu verður að mati úrskurðarnefndar ekki annað ráðið en að ákvörðun Tryggingastofnunar um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda sé í samræmi við ákvæði 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Ákvörðun stofnunarinnar um milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 1. september 2014 er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður A, frá 1. september 2014 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta