Hoppa yfir valmynd
31. mars 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 31. mars 2023

Heil og sæl!

Við heilsum ykkur héðan af Rauðarstígnum á síðasta degi marsmánaðar og færum ykkur það helsta sem hefur átt sér stað á vettvangi utanríkisþjónustunnar síðustu tvær vikurnar.

Við hefjum leik á fréttum af vettvangi Atlantshafsbandalagsins þar sem þing bæði Ungverjalands og Tyrklands hafa staðfest umsókn Finna um aðild að bandalaginu.

Í gær greindum við frá stofnfundi sérstaks Íslandsvinahóps bandarískra fulltrúadeildarþingmanna. Í forsvari fyrir hópnum eru þau Chellie Pingree, þingkona Demókrataflokksins frá Maine, og Greg Murphy en hann er þingmaður Repúblikanaflokksins frá Norður Karólínu. Formleg stofnun vinahópsins átti sér stað í Rayburn-skrifstofubyggingu Bandaríkjaþings og var utanríkismálanefnd Alþingis viðstödd fundinn en nefndin hefur verið í heimsókn í Washington í vikunni.

Í gær funduðu ráðuneytisstjórar utanríkisráðuneyta NB8-ríkja í Ríga í Lettlandi þar sem stuðningur við Úkraínu og staða alþjóðakerfisins voru efstu mál á dagskrá. 

Á miðvikudag sögðum við frá auknum stuðningi Íslands við friðaruppbyggingu og sáttamiðlun á vegum Sameinuðu þjóðanna. Íslensk stjórnvöld gerðu nýjan fjögurra ára samstarfssamning við skrifstofu alþjóðastjórnmála og friðaruppbyggingar hjá Sameinuðu þjóðunum (Department of Political and Peacebuilding Affairs, DPPA). Framlag Íslands verður tvöfalt hærra en fyrri samningur og nemur 20 milljónum króna á ári í takt við langtímaáætlun DPPA.

Á þriðjudag komust EFTA-ríkin og Moldóva að samkomulagi um fríverslunarsamning sem undirritaður verður á næsta ráðherrafundi EFTA í Liechtenstein í júní næstkomandi. Viðræðurnar tóku alls tvö ár og fóru lengst af fram í skugga innrásar Rússlands í Úkraínu. Einar Gunnarsson, sendiherra Íslands í Genf, leiddi viðræðurnar fyrir hönd EFTA-ríkjanna.

Á mánudag var staða alþjóðamála efst á baugi á fjarfundi utanríkisráðherra Norðurlandanna. Þórdís Kolbrún stýrði fundinum þar sem Ísland gegnir formennsku í samstarfi utanríkisráðherranna á þessu ári. 

Í síðustu viku var skýrsla Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál til umræðu á Alþingi. Það er alltaf áhugavert að fylgjast með þinginu þegar utanríkismál eru á dagskrá og umræðan um skýrsluna var hin líflegasta.


Þá hélt ráðherra til Kaupmannahafnar og fundaði með Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra Danmerkur. Stríðið í Úkraínu og formennska Íslands í Evrópuráðinu auk tvíhliða samskipta voru aðalumræðuefnin. 

Þann 22. mars ávarpaði ráðherra ráðstefnu á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um þjóðaröryggi og alþjóðasamstarf. 

Sama dag ávarpaði hún ársfund Íslandsstofu þar sem gildi í alþjóðaviðskiptum voru í brennidepli. 

Þá vakti ráðherra athygli á Twitter-síðu sinni að Alþingi hefði samþykkt þingsályktunartillögu um að hungursneyðin í Úkraínu á árunum 1932 til 1933 hafi verið hópmorð. Í heimsókn sinni til Kænugarðs í nóvember lagði ráðherra ásamt öðrum blómsveig í minningu fórnarlambanna.

Í síðustu viku var einnig greint frá því að þjálfun úkraínskra hermanna í sprengjuleit og sprengjueyðingu væri hafin. Um er að ræða samstarfsverkefni Norðurlandanna og Litáen og annast litáískir, norskir, sænskir og íslenskir sprengjusérfræðingar framkvæmdina.

Þá sögðum við einnig frá neyðarframlagi Íslands, um 71 milljón króna, til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna vegna náttúruhamfaranna í Malaví af völdum hitabeltisstormsins Freddy. 

En þá að sendiskrifstofum okkar.

Harald Aspelund sendiherra í Helsinki fór til Riga og Vilníus dagana 23.-28. mars þar sem hann kynnti formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, átti fundi með embættismönnum utanríkisráðuneyta ríkjanna um tvíhliða samskipti og sat fund með fjármálaráðherra Litáen og fulltrúum úr ráðuneyti hans um málefni Uppbyggingarsjóðs EES.

Í Vilnius ávarpaði sendiherra gesti á kvikmyndahátíðinni King Pavasaris þar sem kvikmyndin Mannvirki var sýnd að viðstöddum Gustavi Geir Bollasyni leikstjóra og opnaði einnig sýninguna TALES FROM ELSEWHERE eftir Siggu Björg Sigurðardóttir myndlistakonu í „Konsulato Galeria“ á ræðismannaskrifstofunni. Ásthildur Jónsdóttir er sýningastjóri sýningarinnar sem stendur til 11. júní. Vytautas Landsbergis, fyrsti þjóðhöfðingi Litáen eftir að það varð sjálfstætt ríki, var meðal gesta.

Í dag kynnti Harald svo mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna fyrir nemendum úr háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Degi Norðurlanda var fagnað víða á sendiskrifstofum okkar þann 23. mars. Þar á meðal í Kaupmannahöfn.

Á Grænlandi.

Og í Osló.

Þar á bæ er í bígerð viðburður um grænan sjávariðnað.

Í Stokkhólmi sótti Bryndís Kjartansdóttir sendiherra hádegisverðarfund í boði forseta þingsins ásamt öðrum nýskipuðum sendiherrum gagnvart Svíþjóð.

Í London stóð sendiráðið fyrir fjórða viðburðinum í viðburðaröð um íslenskan sjávarútveg í samstarfi við Fishmongers‘ Company.

Þá greindi sendiráðið frá heimsókn Hæstaréttar Íslands í Hæstarétt Bretlands.

Í Brussel komu ræðismenn Íslands í Belgíu, Hollandi og Lúxemborg saman í sendiráðinu og tóku þátt í dagskrá sem undirbúin var af því tilefni.

Í Berlín var opnuð myndlistasýning í sendiherrabústaðnum í samstarfi við Gallery Gudmundsdottir, KÍM og Íslandsstofu. Í þetta skiptið eru það verk eftir listakonuna Erlu Haraldsdóttur og verða þau til sýnis fram til 1. júní.

Í París hittust kvenkyns sendiherrar, þar á meðal Unnur Orradóttir Ramette þar sem menntamál voru til umræðu.

Í Washington var utanríkismálanefnd Alþingis í vikunni og okkar fólk í sendiráðinu stóð því í ströngu. Hápunktar dagskrár nefndarinnar voru gagnlegir fundir í varnarmálaráðuneytinu, Pentagon, og fundur með Derek Chollet, ráðgjafa Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna.


En nefndin, ásamt Bergdísi Ellertsdóttur sendiherra og Davíð Loga Sigurðssyni sendifulltrúa, átti einnig fund með öldungadeildarþingmönnunum Lisu Murkowski frá Alaska og Sheldon Whitehouse frá Rhode Island og voru norðurslóðamál þar til umræðu. Rúsínan í pylsuendanum var þegar Murkowski bauð hópnum með sér yfir í þinghúsið.


Nefndin hitti einnig Tom Kean, formann Evrópunefndar utanríkismálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjanna: 


Skemmtilegast var þó að nefndin gat verið viðstödd stofnfund vinahóps Íslands í fulltrúadeild Bandaríkjaþings en fyrir nefndinni fara tveir þingmenn úr sitthvorum flokki, þau Chellie Pingree (D) og Greg Murphy (R), líkt og fram kemur ofar í póstinum.

 

Þá sótti Davíð Logi Sigurðsson sendifulltrúi Summit for Democracy, sérstaka ráðstefnu Bandaríkjaforseta um lýðræði.

Í síðustu viku tók sendiherra á móti merkiskonum víða að af landinu sem tóku þátt í aðalfundi samtakanna International Women‘s Forum, sem eru samtök kvenna úr atvinnulífinu.

Þá heimsótti Ólafur Ragnar Grímsson Washington og átti ýmsa fundi um norðurslóðamál og Hringborð norðurslóða.

Sendiherra bauð einnig til móttöku til heiðurs fyrirtækinu Kerecis og viðskiptavinum þess ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni sem situr í stjórn fyrirtækisins.

Í New York lauk vatnsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á dögunum og hefur fastanefnd Íslands staðið í ströngu í hlutverki varaforseta ráðstefnunnar, sem og að flytja ræðu Íslands í almennri umræðu.

Þá lauk fundi Kvennaþings SÞ um miðjan mánuðinn eftir langar og strangar samningaviðræður um niðurstöðuskjal þingsins.

Í New York tók okkar fólk á aðalræðisskrifstofunni á móti Belindu Theriault, framkvæmdastjóra Fullbright stofnunarinnar á Íslandi.

Þá tók sótti Nikulás Hannigan aðalræðismaður hádegisverðarfund með borgarstjóra New York-borgar.

Í Kanada heimsótti Hlynur Guðjónsson sendiherra í Ottawa hæstarétt Kanada ásamt kollegum sínum.

Hann sótti einnig þorrablót Íslendingafélagsins í Toronto (e. The Icelandic Canadian Club of Toronto).

Staðgengill sendiherra sótti einnig pallborðsumræður um diplómatíska fulltrúa og jafnréttismál:

Sendiráðið í Ottawa stóð einnig að vel heppnuðu námskeiði undir yfirskriftinni „Gender, Data and Decolonization“ í samstarfi við Sendiráð Kanada í Reykjavík. Upptökuna er nú hægt að nálgast á vef sendiráðsins.

Í Winnipeg hitti aðalræðismaður Íslands Vilhjálmur Wiium hina hundrað ára gömlu Önnu Stevens frá Gimli.

Þórir Ibsen sendiherra í Peking hafði í ýmsu að snúast í Mongólíu í vikunni. Hann afhenti Ukhnaagiin Khürelsükh, forseta Mongólíu trúnaðarbréf sitt, og rædddi við hann um skógræktarátak landsins og áhuga á nýtingu jarðvarma, en 32 nemendur frá Mingólíu hafa útskrifast úr landgræðslunámskeiði GRÓ og 12 úr jarðvarmanámskeiðinu.


Hann ræddi við Battsetseg utanríkisráðherra um sameiginlega áherslu hennar og utanríkisráðherra Íslands á forystu og þáttöku kvenna í alþjóðamálum. Utanríkisráðherrann sýndi mikinn áhuga á jafnréttisnámskeiði GRÓ.

Sendiherrann fundaði með varautanríkisráðherra um tvíhliðasamskipti ríkjanna og þá sérstaklega þátttöku nemenda frá Mongólíu í námskeiðum GRÓ, en þeir telja nú vel á fimmta tug.

Þá átti hann fund með umhverfisráðherrra um áframhaldandi þjálfun sérfræðinga á sviði landgræðslu og jarðvarma.

Hann fundaði sömuleiðis með sérfræðingum og fyrirtækjum á sviði jarðvarma.

Loks flutti sendiherra erindi í Háskóla Mongólíu um utanríkisstefnu Íslands. 

Í Nýju-Delí sótti Guðni Bragason sendiherra viðskiptaráðstefnu þar sem fyrirtækið Össur var með bás en það hefur m.a. starfsstöðvar í Indlandi.

Þá sótti menningarfulltrúi ráðuneytisins ráðstefnu í Gangtok í Sikkim-héraði.

Í Úganda fór fram afhending tveggja bygginga sem hluti af byggðaþróunarverkefni Íslands í Buikwe-héraði. 

Í Malaví tók okkar fólk á móti starfsfólki sendiráðs Íslands í Kampala sem þar var í heimsókn.

 

Þar vinnur okkar fólk afar mikilvæga vinnu þessa dagana í kjölfar hamfaranna í Malaví vegna hitabeltisstormsins Freddy. 

Við minnum að endingu á Heimsljós, upplýsingaveitu okkar um þróunar- og mannúðarmál.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild og góða helgi!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta