Opinn fundur um trúfrelsi á Íslandi
Frummælendur á fundi um trúfrelsi á Íslandi lýstu ánægju sinni með lagafrumvarp sem snýst um breytingar á skráningu trú- og lífsskoðunarfélaga en innanríkisráðherra mælti fyrir frumvarpinu í síðasta mánuði. Fundurinn var hinn þriðji í fundaröð innanríkisráðuneytisins um mannréttindi.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hóf fundinn með ávarpi og sagði meðal annars að þeir væru margir sem vildu deila með öðrum trúarskoðunum sínum. „Þeir eru mun fleiri en hinir sem vilja hlusta á trúarskoðanir þínar,” sagði ráðherra og hélt áfram: „Við þurfum að geta fengið að vera í friði fyrir þeim sem vilja þrengja trúarskoðunum uppá fólk, en við þurfum að vera umburðarlynd gagnvart þeim sem langar til að þjóna sínum Guði. Og ekkert síður hinum sem leita í veraldlega siðfræði og til hugsuða sem láta jörðina og hið áþreifanlega nægja í leit að svörum.“
Undir lok ávarps síns sagðist ráðherra vera ánægður með hvernig umræðan um lífsskoðunarfélög, trúarbrögð og trúfrelsi hefði þróast hérlendis. „Mér hefur fundist þessi umræða spretta upp úr því besta í hinni íslensku arfleifð sem ég hef hér vísað til; arfleifð umburðarlyndisins.“
Mikilvægt samfélaginu og einstaklingnum
Þá flutti erindi Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, og sagði hún trúfrelsi vera mikilvægt fyrir samfélagið og fyrir einstaklinginn. Hún fór yfir greinar í stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu sem fjölluðu um trú og benti á að þær vernduðu líka rétt manna til að vera án trúar.
Hjalti Hugason, prófessor við guðfræði- og trúarbragðadeild Háskóla Íslands, fjallaði um hvort skrá ætti trúfélög og freista þess að draga úr mismunun. Hann taldi rétt að taka það skref að lífsskoðunarfélög fengju að njóta sama réttar og trúfélög og fór yfir skilgreiningar er vörðuðu skráningu og til dæmis réttindi forstöðumanns félags, skil á skýrslum og fleira.
Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar, sagði mikilvægt að efna til samtals sem þessa og þakkaði frumkvæði innanríkisráðherra við mótun landsáætlunar í mannréttindamálum. Hann rakti nokkuð baráttu Siðmenntar fyrir því að fá skráningu og hann kvaðst vona að frumvarpið um trúfélög og lífsskoðunarfélög sem væri til meðferðar á Alþingi næði fram að ganga.
Á myndinni eru frá hægri frummælendurnir þrír, þau Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar, Hjalti Hugason, prófessor við guðfræði- og trúarbragðadeild HÍ, og Ragnhildur Helgasdóttir, prófessor við lagadeild HR, og Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem var fundarstjóri.
Næsti fundur í lok mars
Umfangsmikil vinna fer nú fram í innanríkisráðuneytinu í tengslum við mótun landsáætlunar í mannréttindum. Með fundaröðinni er leitast við að fá sem flesta til að taka þátt í stefnumótun í málaflokknum til að hún eigi sér ekki aðeins stað innan veggja ráðuneyta heldur í samstarfi og í beinum tengslum við hagsmunaaðila, fræðasamfélag og almenning. Næsti fundur er ráðgerður í lok mars.
- Ávarp innanríkisráðherra við setningu fundar um trúfrelsi
- Glærur/erindi fyrirlesara:
Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild HR
Hjalti Hugason, prófessor við guðfræði- og trúarbragðadeild HÍ
Bjarni Jónsson,varaformaður Siðmenntar