Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu ― ávinningur að ári liðnu
Verkefni á vegum Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu (ÞÍH) um skynsamlega notkun sýklalyfja hefur skilað miklum árangri á höfuðborgarsvæðinu og nú er innleiðing verkefnisins á landsvísu að hefjast. Þetta er eitt fjölmargra verkefna sem unnið er að hjá þróunarmiðstöðinni sem sett var á fót fyrir réttu ári samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra. Vegna tímamótanna var í dag efnt til kynningarfundar þar sem fjallað var um helstu verkefni þróunarmiðstöðvarinnar, ávinning að ári liðnu og verkefnin framundan.
Fyrirrennari ÞÍH er Þróunarstofa Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Með ákvörðun ráðherra og auknum fjármunum fékk hin nýja Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu meira sjálfstæði en forveri sinn og víðtækara hlutverk en henni er ætlað að leiða faglega þróun allrar heilsugæsluþjónustu í landinu. Rekstrargrunnur ÞÍH nemur tæpum 230 milljónum króna á ári og þar starfa sérfræðingar með breiða fagþekkingu í þrettán stöðugildum.
Heilbrigðisráðherra skipar þróunarmiðstöðinni sérstakt fagráð sem vinnur að stefnumörkun og tryggir tengsl þróunarmiðstöðvarinnar við aðrar heilbrigðisstofnanir sem reka heilsugæslustöðvar. „Þróunarmiðstöðinni er ætlað stórt hlutverk á landsvísu. Þar vegur þungt að jafna aðgengi landsmanna að þessari mikilvægu grunnþjónustu hvar sem fólk býr, efla gæði þjónustunnar og stuðla að nýjungum“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Á fundinum í dag kynnti Emil Lárus Sigurðsson forstöðumaður ÞÍH helstu verkefni þróunarmiðstöðvarinnar og ræddi um ávinning af tilteknum verkefnum sem þegar er orðinn sýnilegur og mælanlegur.
Allt að 30% minni notkun breiðvirkra sýklalyfja
Sem dæmi um árangur af sérstökum þróunarverkefnum innan heilsugæslunnar nefndi Emil hvernig tekist hefur á skömmum tíma að draga úr notkun breiðvirkra sýklalyfja hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um 20 – 30%. Verkefni sem þetta hefur mikið vægi, því ofnotkun sýklalyfja og ómarkviss notkun þeirra er ein af ástæðum sýklalyfjaónæmis sem er vaxandi vandamál og alvarleg heilbrigðisógn á heimsvísu. Emil segir við blasa að ráðast í sambærilegt verkefni til að sporna við ofnotkun sterkra verkalyfja sem innihalda ópíóíða og valdið geta alvarlegri fíkn.
Emil fjallaði einnig um verkefni sem lýtur að þróun leiðbeininga og nýrra verkferla vegna meðhöndlunar sjúklinga með sykursýki. Hann segir verkefnið mikilvægt fyrsta skref að því markmiði að koma á laggirnar heilsueflandi móttöku í heilsugæslu til að meðhöndla og sporna við ýmsum lífsstílssjúkdómum. Þessar móttökur tækju þá við af sérstökum móttökum fyrir sykursjúka og gætu sinnt fleiri sjúklingahópum svo sem sjúklingum sem glíma við háþrýsting, offitu, stoðkerfisverki, andlega vanlíðan o.s.frv.
Verkefni ÞÍH eru mörg og fjölbreytt, enda er hlutverk þróunarmiðstöðvarinnar víðtækt. Í því felst meðal annars að vinna að samræmingu verklags og samhæfingu fagfólks á heilsugæslustöðvum, gæðaþróun og framförum í heilsugæslu í samráði við heilbrigðisstofnanir sem reka heilsugæslustöðvar og sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar. Emil segir að framundan verði rík áhersla lögð á að styrkja tengsl ÞÍH við veitendur heilsugæsluþjónustu um allt land og séu ýmis áform í bígerð þar að lútandi.