Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2021 Forsætisráðuneytið

971/2021. Úrskurður frá 5. febrúar 2021.

Úrskurður

Hinn 5. febrúar 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 971/2021 í máli ÚNU 20100025.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 26. október 2020, kærði A synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 12. október 2020, á beiðni hans, dags. 21. ágúst 2020, um aðgang að tilteknum upplýsingum varðandi framleiðendur og innflytjendur svínakjöts á Íslandi. Beiðni kæranda var í sjö liðum en ráðuneytið veitti kæranda aðgang að gögnum undir fimm liðum af sjö. Eftir stendur beiðni kæranda um upplýsingar undir 2. og 4. lið varðandi:

• Þrjá stærstu framleiðendur svínakjöts á Íslandi og magn framleiðslu hvers og eins.
• Fimm stærstu innflytjendur svínakjöts og magn innflutnings hvers og eins.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið synjaði kæranda um aðgang að gögnunum varðandi 2. lið beiðninnar með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem upplýsingarnar hefðu að geyma upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni framleiðendanna. Þá vísaði ráðuneytið til þess að það hefði óskað eftir afstöðu umræddra framleiðenda til upplýsingabeiðninnar sem hefðu lýst sig mótfallna afhendingu þar sem um mikilvæga viðskiptahagsmuni væri að ræða. Varðandi 4. lið beiðninnar kom fram að ráðuneytið hefði hvorki undir höndum upplýsingar um stærstu innflytjendur svínakjöts né magn innflutnings hvers og eins.

Í kæru er farið fram á að úrskurðarnefnd um upplýsingamál leggi fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að veita kæranda aðgang að þeim upplýsingum sem 2. og 4. liður beiðninnar snýr að. Í kærunni segir að umbeðnar upplýsingar geti ekki talist viðkvæmar enda beri öllum þessum framleiðendum að skila ársreikningum sem hafi að geyma mun viðkvæmari upplýsingar en þær sem óskað er eftir undir 2. lið beiðninnar. Hvað fjórða lið beiðninnar varðar dregur kærandi í efa að umbeðnar upplýsingar séu ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu og bendir á að ráðuneytið fari með úthlutun tollkvóta og haldi uppi tollvernd fyrir innlenda svínakjötsframleiðendur.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 29. október 2020, var atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kynnt kæran og gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.

Í umsögn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 18. nóvember 2020, kemur fram að ráðuneytið hafi í tilefni af upplýsingabeiðni kæranda sent tölvubréf, dags. 8. september 2020, til þriggja stærstu svínakjötsframleiðendanna, þar sem upplýst hafi verið um upplýsingabeiðni kæranda og þeim kynnt efni hennar og þess óskað að umræddir aðilar veittu álit sitt á því að þessar tilteknu upplýsingar um framleiðslutölur þeirra yrðu veittar, sbr. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá segir í umsögninni að ráðuneytið hafi komist að þeirri niðurstöðu að veita bæri kæranda allar umbeðnar upplýsingar sem væru fyrirliggjandi í ráðuneytinu að frátöldum upplýsingum sem óskað var eftir varðandi þrjá stærstu framleiðendur svínakjöts á Íslandi og magn framleiðslu hvers og eins. Í því sambandi vísaði ráðuneytið til þess að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga sé óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gildi um aðgang að gögnum sem varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Í ljósi þess að þeir aðilar sem upplýsingarnar vörðuðu samþykktu ekki afhendingu upplýsinganna og í ljósi þess að þær varði að mati ráðuneytisins mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni, sé það niðurstaða þess að undanþága 9. gr. upplýsingalaga eigi við um afhendingu gagnanna og því sé ekki fallist á að veita aðgang að þeim. Hvað varði beiðni kæranda undir fjórða lið ítrekar ráðuneytið í umsögn sinni að það hafi hvorki upplýsingar um stærstu innflytjendur svínakjöts né magn innflutning hvers og eins. Ráðuneytið úthluti tollkvótum vegna svínakjöts og séu niðurstöður úthlutunar auglýstar og opinberaðar hverju sinni. Hins vegar liggi ekki fyrir hjá ráðuneytinu heildartölur yfir magn innflutnings sundurliðaðar eftir innflytjendum þar sem innflutningur eigi sér einnig stað utan tollkvóta. Í umsögninni er tekið fram að í svari ráðuneytisins til kærandi hafi verið vísað til vefsíðu Hagstofu Íslands þar sem finna megi tölur um heildarinnflutning svínakjöts.

Í umsögninni er því einnig lýst að ráðuneytið safni upplýsingum um framleiðslu framleiðenda í samræmi við ákvæði 1. mgr. 77. gr. búvörulaga nr. 99/1993 og 5. mgr. 15. gr. reglugerðar um merkingar búfjár nr. 916/2012. Upplýsingar um framleiðslu framleiðenda sem komi frá sláturhúsum séu meðal annars nýttar til útreikninga á stuðningsgreiðslum en tekið er fram að ekki séu reiknaðar stuðningsgreiðslur sem ætlaðar séu til svínakjötsframleiðslu samkvæmt ákvæðunum. Gagnaöflun ráðuneytisins um framleiðslu svínakjöts sé einkum ætlað að veita upplýsingar um hagtölur um svínarækt, heildarframleiðslu innan árs, heildarsölu og birgðastöðu.

Umsögn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 18. nóvember 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust með tölvubréfi, dags. 4. desember 2020, þar sem ítrekaðar voru fyrri kröfur og athugasemdir.

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda um aðgang að gögnum í vörslum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins annars vegar um þrjá stærstu framleiðenda svínakjöts á Íslandi og magn framleiðslu hvers og eins og hins vegar upplýsingar um fimm stærstu innflytjendur svínakjöts og magn innflutnings hvers og eins.

1.

Synjun stofnunarinnar á beiðni kæranda um upplýsingar um þrjá stærstu framleiðendur svínakjöts og magn hvers og eins byggir á 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en þar segir orðrétt:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:

„Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“

Þá er enn fremur tiltekið í greinargerðinni:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir máli að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða.“

Úrskurðarnefndin hefur skoðað þau gögn sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið synjaði kæranda um aðgang að með hliðsjón af þessum sjónarmiðum. Eins og rakið er í umsögn ráðuneytisins var upplýsinganna aflað á grundvelli 1. mgr. 77. gr. búvörulaga þar sem mælt er fyrir um hlutverk ráðuneytisins að safna upplýsingum og birta ár hvert skýrslu um framleiðslu búvara, vinnslu þeirra og sölu og gera áætlanir um framleiðslu og sölu búvara. Í 2. mgr. er fjallað um skyldu þeirra sem hafa með höndum vinnslu eða sölu búvara að láta ráðherra í té allar upplýsingar sem að gagni geta komið og þeir geta veitt, þar með talið upplýsingar um verð búvöru til framleiðenda. Fyrir liggur að upplýsinganna var aflað í tengslum við lögbundna upplýsingaöflun ráðuneytisins um svínarækt í landinu en ekki í tengslum við ákvörðun um stuðningsgreiðslur á grundvelli búvörulaga til handa einstaka framleiðanda. Hvað sem því líður hefur nefndinni ekki verið sýnt fram á, hvorki í umsögnum ráðuneytisins né þeirra fyrirtækja sem um ræðir, að upplýsingar um hverjir séu stærstu framleiðendur svínakjöts á Íslandi og heildarmagn framleiðslu þeirra séu þess eðlis að þær geti skaðað samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Í öllu falli verður að skýra ákvæðið þröngri lögskýringu í ljósi meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Með hliðsjón af framangreindu ber að veita kæranda aðgang að gögnum hjá ráðuneytinu er lúta að þremur stærstu framleiðendum og magn framleiðslu hvers og eins þeirra.

2.

Eins og fyrr segir var synjun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á beiðni kæranda hvað varðar fimm stærstu innflytjendur svínakjöts og magn innflutnings hvers og eins byggð á því að þær upplýsingar lægju ekki fyrir hjá ráðuneytinu. Í ljósi þessa hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að umrædd gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu.

Af 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á því formi sem óskað er. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða ákvörðun um að synja um aðgang að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál hvað þennan þátt varðar.

Úrskurðarorð:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu ber að veita kæranda aðgang að upplýsingum um þrjá stærstu framleiðendur svínakjöts á Íslandi og magn framleiðslu hvers og eins þeirra. Þá er þeim þætti kærunnar er snýr að beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um fimm stærstu innflytjendur svínakjöts og magn hvers og eins vísað frá úrskurðarnefndinni.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigríður Árnadóttir Símon Sigvaldason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta