Hoppa yfir valmynd
19. desember 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 601/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 19. desember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 601/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19110044

 

Beiðni […] endurupptöku

 

I.             Málsatvik

Þann 22. október 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. ágúst 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Íran (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu. Úrskurður kærunefndar var birtur kæranda þann 28. október 2019 og þann 4. nóvember 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Kærunefnd synjaði þeirri beiðni með úrskurði nr. 552/2019, dags. 15. nóvember 2019. Þann 22. nóvember 2019 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku auk fylgiskjals.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls byggir á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kærenda

Í beiðni kæranda um endurupptöku er byggt á því að ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Hvorki Útlendingastofnun né kærunefnd hafi gert sér grein fyrir alvarleika þeirra gagna sem hann hafi lagt fram við meðferð málsins, þ.e. að hann hafi orðið fyrir árásum og hótunum í Grikklandi. Markmið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga sé að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir séu bæði löglegar og réttar. Meðfylgjandi beiðni um endurupptöku hafi kærandi lagt fram gögn þar sem hann reki sögu sína og aðstæður í Grikklandi á sínu móðurmáli með enskri þýðingu. Þá fylgi einnig skilaboð sem m.a. hafi borist honum eftir að úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp, þar sem honum sé með einum eða öðrum hætti hótað ofbeldi eða lífláti. Stafi skilaboðin frá fjölmörgum einstaklingum sem bendi til þess að um skipulagða atlögu sé að ræða og þá hafi andlit hans verið gert opinbert á samfélagsmiðlum þar sem einstaklingar séu bersýnilega hvattir til að ráða hann af dögum. Hafi skilaboðin verið þýdd yfir á ensku en úrskurður kærunefndar gefi ekki til kynna að umrædd skjöl hafi verið þýdd við meðferð málsins og ekki sé hægt að draga aðra ályktun en að nefndin hafi ekki lagt sérstakt mat á alvarleika þessara hótana.

Vísar kærandi til þess að aðstæður hans í Grikklandi séu lífshættulegar og að þeim lágmarkskröfum sem Mannréttindadómstóll Evrópu geri um alvarleika sé náð. Telji stjórnvöld aðstæður hans ekki nægja verði að telja að framkvæmd íslenskra stjórnvalda gangi í berghögg við inntak 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Telji kærandi það hafið yfir allan vafa að úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum sem nú liggi fyrir.

III.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 22. október 2019, var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að sérstakar ástæður mæltu með því að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Fyrir liggur að kærandi er með alþjóðlega vernd í Grikklandi og gilt dvalarleyfi þar í landi til 21. desember 2020.

Af þeim gögnum sem lágu fyrir við meðferð málsins hjá kærunefnd var ljóst að kærandi kvaðst m.a. hafa orðið fyrir hótunum og ofbeldi í Grikklandi og lagði kærandi fram gögn því til stuðnings, m.a. skjáskot af hótunum sem honum hafði borist. Var frásögn kæranda af ofbeldi í Grikklandi og samskiptum hans við grísku lögregluna lögð til grundvallar í málinu auk þeirra gagna sem hann lagði fram við meðferð málsins. Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda var m.a. fjallað um grísku lögregluna og dómskerfi landsins. Kærunefnd vísaði til þess að í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 13. mars 2019 (2018 - Country Reports on Human Rights Practices - Greece) kæmi m.a. fram að dæmi séu um að flóttafólk sé beitt ofbeldi og þ.m.t. af hendi grísku lögreglunnar. Ofbeldisbrot væru rannsökuð af grísku lögreglunni en að embætti umboðsmanns rannsaki meint brot lögreglu. Ýmsir annmarkar væru á dómskerfi landsins en sjálfstæði dómstóls væri þó tryggt í framkvæmd svo og réttindi brotaþola og sakborninga. Þá var tekið fram í úrskurði kærunefndar að það væri mat nefndarinnar, af fyrirliggjandi gögnum, að óttist kærandi um öryggi sitt í Grikklandi geti hann leitað til lögreglu eða annarra þar til bærra stjórnvalda sökum þess. Kærunefnd telur því ljóst að afstaða hafi verið tekin til málsástæðu hans um ofbeldi og hótanir í Grikklandi m.t.t. frásagnar hans og þeirra gagna sem hann lagði fram. Þau gögn sem kærandi lagði fram með beiðni sinni um endurupptöku breyta ekki fyrra mati kærunefndar. Kærunefnd telur því ljóst að úrskurður kærunefndar hafi ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá tekur kærunefnd ekki undir þá málsástæðu að aðstæður kæranda falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og áréttar það sem fram kom í úrskurði nefndarinnar í máli kæranda; að óttist kærandi um öryggi sitt í Grikklandi geti hann leitað til lögreglu eða annarra þar til bærra stjórnvalda.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. 505/2019, dags. 22. október 2019, hafi ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.


 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda er hafnað.

The request of the appellant is denied.

 

Áslaug Magnúsdóttir

 

Árni Helgason                                                                                    Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta