Samningur um tannlækningar barna framlengdur
Sjúkratryggingar Íslands og Tannlæknafélag Íslands hafa undirritað samning sem kveður á um framlengingu rammasamnings um tannlækningar barna sem rann út um síðustu áramót. Framlengdur samningur gildir til loka janúar árið 2021. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur staðfest framlengdan samning með undirritun.
Samningur um tannlækningar barna tók gildi um mitt ár 2013. Samningurinn var innleiddur í áföngum þar sem markmiðið var að tannlækningar fyrir börn 17 ára og yngri yrðu þeim að kostnaðarlausu að undaskildu árlegu komugjaldi. Til að byrja með tók samningurinn til barna 15, 16 og 17 ára og síðan bættust fleiri árgangar við samkvæmt tímasettri áætlun þar til hann náði til allra barna þegar innleiðingunni lauk að fullu þann 1. janúar 2018.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir einkar ánægjulegt að þessi mikilvægi samningur hafi verið framlengdur: „Vel hirtar og heilar tennur eru mikilvægur þáttur í heilbrigði fólks alla ævi. Gott aðgengi barna að þjónustu tannlækna og reglubundnu tanneftirliti í uppvextinum hefur þar mikið að segja“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Á meðfylgjandi súluriti Sjúkratrygginga Íslands má sjá þróun á komum barna til tannlækna á árunum 2001 – 2019 og fjölda viðgerða hjá hverju barni á tímabilinu.