Nýsköpunarstefna fyrir Ísland: Nýsköpun er ekki lúxus heldur nauðsyn
Nýsköpunarlandið Ísland er samfélag þar sem hugarfar, fjármagn, markaðsaðgengi, umgjörð og mannauður styðja við nýsköpun sem grundvöll menningarlegra og efnahagslegra lífsgæða. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra, kynnti í dag nýja Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland í Sjávarklasanum.
Stefnunni er ætlað að gera Ísland betur í stakk búið til að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum.
„Nýsköpun er ekki lúxus heldur nauðsyn,“ segir Þórdís Kolbrún.
Við mótun stefnunnar tóku þátt fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi, fulltrúar atvinnulífsins og háskólasamfélagsins. Vinnu stýrihóps leiddi Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og fyrrverandi yfirmaður vöruþróunar á Google Assistant.
Nýsköpunarstefna fyrir Ísland markar sýn til ársins 2030. Í henni er sett fram það markmið að árið 2030 sé Ísland fjölbreytt samfélag velferðar, öryggis og jafnra tækifæra. Ísland verði í fremstu röð þegar borin eru saman lífsgæði og hamingja í löndum heims. Samfélag þar sem nýsköpun er inngróin í menningu og efnahagslíf og kjörlendi til að setja á fót og starfrækja alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki. Samfélag þar sem virðing er borin fyrir frumkvöðlum og skapandi einstaklingum í efnahagslífi og menningu og er fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar sjálfbæra þróun.
„Það skiptir máli að hafa teiknað upp þá grunnsýn til næstu ára sem er lögð fram í nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, því að hún verður undirliggjandi hugmyndafræði þeirra aðgerða sem munu fylgja í kjölfarið. Við höfum alla burði til að vera virkir og fullgildir þátttakendur í hröðum og síbreytilegum heimi nýsköpunar og tæknibreytinga. Það er áskorun sem við þurfum að takast á við til að tryggja framúrskarandi lífskjör og velsæld á Íslandi á komandi áratugum. Sú stefna sem hér er lögð fram gerir okkur að mínu mati betur í stakk búin til þess en nokkru sinni fyrr,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra.
Þau leiðu mistök urðu að nafn Jóns Steindórs Valdimarssonar, fulltrúa Viðreisnar í stýrihópnum, vantaði á lista yfir meðlimi stýrihópsins. Stefnuskjalið hefur verið uppfært og er Jón Steindór beðinn afsökunar á þessu.