Athygli heilbrigðisstofnana vakin á mikilvægri könnun
Undanfarið hafa fjölmargar opinberar stofnanir brugðist við heimsfaraldri kórónuveiru með ýmsum breytingum á starfsemi sinni sem meðal annars hafa miðað að því að tryggja notendum mikilvæga opinbera þjónustu. Ýmsar nýjar lausnir hafa orðið til sem stuðlað geta að varanlegum umbótum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið stendur nú fyrir könnun á slíkum lausnum hjá stofnunum hins opinbera. Heilbrigðisráðuneytið vekur athygli á þessari könnun og hvetur stjórnendur heilbrigðisstofnana um allt land til að taka þátt í henni.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir stofnanir heilbrigðiskerfisins hafa sýnt og sannað að undanförnu að þær búi yfir vilja og getu til að aðlagast og takast á við krefjandi aðstæður með því að breyta aðferðum og beita nýjum lausnum. „Kórónaveirufaraldurinn hefur kallað á nýjar lausnir, sveigjanleika og skjót vinnubrögð og við heilbrigðisstofnanirnar hafa brugðist skjótt og vel við því kalli. Það eru mikil tækifæri fyrir hendi í þróun og hagnýtingu lausna á sviði fjarheilbrigðisþjónustu og ljóst að upplýsingatækni og stafrænar lausnir munu gegna lykilhlutverki í þróun heilbrigðiskerfisins á komandi árum.“