Aukið samstarf á milli Íslands og Noregs um Brexit og EES
Ísland og Noregur munu eiga náið samstarf um fyrirhugaða úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Þetta var niðurstaða fundar utanríkisráðherra og Frank Bakke-Jensen, EES- og Evrópumálaráðherra Noregs, í Reykjavík í gær. Á fundinum lagði utanríkisráðherra áherslu á að mikilvægi þess að EFTA-ríkin myndu starfa náið saman að því að tryggja sem best viðskiptakjör við Bretland eftir útgöngu þess úr Evrópusambandinu. Unnið verður að nánari útfærslu á samstarfi landanna sem ráðherrarnir taka til frekari skoðunar í marsmánuði.
Á fundinum ákváðu ráðherrarnir ennfremur að styrkja samstarf Íslands og Noregs um framkvæmd EES-samningsins og ítrekuðu það sameiginlega markmið ríkjanna að draga úr svonefndum upptökuhalla í EES-samstarfinu. Ráðherrarnir ákváðu ennfremur að Ísland og Noregur munu taka höndum saman um að taka virkari þátt í mótun EES-löggjafar. Hvöttu ráðherrarnir ennfremur til aukins samstarfs Alþingis og norska Stórþingsins um EES-mál, m.a. til að stuðla að aukinni þátttöku þingmanna við mótun EES-löggjafar.
Ráðherrarnir voru einnig sammála um að norrænt samstarf væri sífellt mikilvægara, bæði innan Evrópu sem og í alþjóðamálum en Franke Bekke-Jensen er einnig samstarfsráðherra Norðurlandanna í norsku ríkisstjórninni en Noregur fer með formennsku í norrænu ráðherranefndinni í ár. Í kjölfar fundarins snæddu ráðherrarnir hádegisverð í boði utanríkisráðherra og tók Kristján Þór Júlíusson, samstarfsráðherra Norðurlandanna, einnig þátt í hádegisverðinum.