Hoppa yfir valmynd
3. mars 2017 Utanríkisráðuneytið

Ísland eykur verulega stuðning við aðgengi að öruggum fóstureyðingum

Logo UNFPA
UNFPA

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur ákveðið að þrefalda framlag ríkisstjórnar Íslands til mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og styðja þannig meðal annars við aðgengi að öruggum fóstureyðingum sem er mikilvægt mannréttindamál og snýr ekki síst að rétti kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Málaflokkurinn gegnir veigamiklu hlutverki í þróunarsamvinnu okkar. Ísland styður jafnframt heilshugar frumkvæði Hollands, Belgíu, Svíþjóðar og Danmerkur sem kennt er við SHE DECIDES sjóðinn en fyrsti fundur samtakanna fór fram í Brussel í gær og var fulltrúi Íslands á meðal þátttakenda.

Ljóst er að fjárframlög til samtaka og stofnana á sviði mæðra- og ungbarnaverndar, kynfræðslu, aðgengi að getnaðarvörnum og heilbrigðisþjónustu vegna kynsjúkdóma á borð við HIV/alnæmi munu dragast saman á næstu misserum. Að mati íslenskra stjórnvalda er hér um að ræða mikilvægt heilbrigðismál þar sem aðgerðir gegn löglegum og öruggum fóstureyðingum munu ekki leiða til fækkunar fóstureyðinga, heldur leiða til hins gagnstæða, fjölgunar fóstureyðinga sem framkvæmdar eru með vafasömum hætti og leggja þannig líf fjölda kvenna í hættu. Þetta á ekki síst við um fátækustu ríkin þar sem slík grunnþjónusta er víða af afar skornum skammti. 

„Ísland hefur verið í fararbroddi í þessum málum, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og mun verða áfram. Ég hef ákveðið að þrefalda stuðning okkar til mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) sem íslensk stjórnvöld hafa stutt um árabil, en UNFPA er stærsta og mikilvægasta stofnun SÞ á þessu sviði. Við styðjum frumkvæði Hollendinga og annarra ríkja og teljum að samtakamáttur þessara ríkja verði til þess að efla enn frekar þennan málaflokk. Öll vinna þessi ríki að sama marki og þessari verulegu aukningu á framlögum Íslands til málaflokksins er best varið með því að styrkja enn frekar UNFPA,“ segir Guðlaugur Þór. 

Framlagið sem um ræðir hækkar úr tæpum 11 milljónum króna í rúmar 32 milljónir. Þessu til viðbótar veita íslensk stjórnvöld stuðning við mæðraheilsu og fjölskylduáætlanir í tvíhliða samstarfsöndum, t.d. í Malaví.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta