Mál nr. 8/1999: Dómur frá 14. janúar 2000.
Ár 2000, föstudaginn 14. janúar, var í Félagsdómi í málinu nr. 8/1999.
Vélstjórafélag Íslands
(Jónas Haraldsson hdl.)
gegn
Samtökum atvinnulífsins f.h.
Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h.
Útvegsmannafélags Norðurlands vegna
Þormóðs ramma-Sæbergs hf.
(Jón H. Magnússon hdl.)
kveðinn upp svofelldur
D Ó M U R :
Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi hinn 4. janúar sl.
Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.
Stefnandi er Vélstjórafélag Íslands, kt. 690269-3419, Borgartúni 18, Reykjavík.
Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Garðastræti 41, Reykjavík, f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna, kt. 420269-0649, Hafnarhvoli, Reykjavík, f.h. Útvegsmannafélags Norðurlands, kt. 432096-3239, Strandgötu 29, Akureyri, vegna Þormóðs ramma-Sæbergs hf., kt. 681271-1559, Aðalgötu 10, Siglufirði.
Dómkröfur stefnanda
- Að viðurkennt verði að stefndi, Þormóður rammi-Sæberg hf., hafi brotið gegn ákvæði greinar 1.03. í kjarasamningi um kaup og kjör yfirvélstjóra, vélstjóra, vélavarða o.fl. á fiskiskipum milli Vinnuveitendasambands Íslands vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna annars vegar og Vélstjórafélags Íslands, Vélstjórafélags Suðurnesja og Vélstjórafélags Vestmannaeyja hins vegar frá 27. mars 1998.
- Að stefnda, Þormóði ramma-Sæberg hf., verði gert að greiða stefnanda kr. 1.200.000,- samkvæmt ákvæði greinar 1.53. í kjarasamningi um kaup og kjör yfirvélstjóra, vélstjóra, vélavarða o.fl. á fiskiskipum milli Vinnuveitendasambands Íslands vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna annars vegar og Vélstjórafélags Íslands, Vélstjórafélags Suðurnesja og Vélstjórafélags Vestmannaeyja hins vegar frá 27. mars 1998, vegna brota á ákvæði greinar 1.03. í sama samningi.
- Að stefndi, Þormóður rammi-Sæberg hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.
Dómkröfur stefnda
- Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
- Að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að með gerð samninga 29. maí 1998 við áhafnir skipanna, Stálvíkur, Sigluvíkur, Múlabergs og Sólbergs um fiskverð hafi stefndi Þormóður rammi-Sæberg hf. uppfyllt ákvæði greinar 1.03 í kjarasamningi vélstjóra á fiskiskipum.
- Að stefnandi verði dæmdur í réttarfarssekt.
- Að sektarkrafa verði að hámarki kr. 300.000 ef aðalkrafa stefnanda verður tekin til greina.
- Stefndi gerir kröfu um að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu í öllum tilvikum.
Málsatvik
Málsatvik eru þau að stefndi, Þormóður rammi-Sæberg hf., gerði í lok maí 1998 samninga við áhafnir skipa sinna, Sólbergs ÓF-12, Stálvíkur SI-1, Sigluvíkur SI-2 og Múlabergs ÓF-32, um verð á rækju. Gildistími samninganna var frá 1. júní 1998 til 1. september 1999. Í samningunum er tekið fram að komi til verulegra breytinga á afurðaverði séu aðilar sammála um að samningarnir skuli teknir til endurskoðunar. Hvorki áhafnir né útgerð hafi óskað endurskoðunar samninganna.
Með bréfi Verkalýðsfélagsins Vöku á Siglufirði dags. 18. september 1998 til Verðlagsstofu skiptaverðs var þess óskað að kannað yrði hvort samningarnir væru í samræmi við það sem almennt gerðist um slíka samninga. Verðlagsstofa kannaði málið, fékk upplýsingar um verð á ísrækju, leitaði umsagna útgerða og áhafna og vann samanburðaryfirlit. Athugun Verðlagsstofu sýndi að vegið meðalverð á ísaðri rækju til áhafna samkvæmt fyrirliggjandi fiskverðssamningum og öðrum upplýsingum nam kr. 89,03 pr. kg., en meðalverð til áhafna umræddra skipa í eigu stefnda nam kr. 84,06 pr. kg., samkvæmt upplýsingum stefnda sjálfs. Verð stefnda til áhafna sinna var á þá leið að fyrir kg., af rækju með 230 stk. af rækju og færri í kg. fengust kr. 87 pr. kg., fyrir 231 til 290 stk. í kg. kr. 78 pr. kg., fyrir 291 til 350 stk. í kg. kr. 55 pr. kg. og fyrir 351 stk. og fleiri í kg. kr. 34 pr. kg.
Með bréfi dags. 10. desember 1998 vísaði Verðlagsstofa skiptaverðs, með tilvísun í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 13/1998 um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, málum áhafna fiskiskipanna sem aflasala og Þormóðs ramma-Sæbergs hf. sem aflakaupa til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna. Er tekið fram í bréfi Verðlagsstofu að þær forsendur sem í bréfinu eru raktar sýni fram á að rækjuverð til greindra skipa stefnda víki frá því sem algengast sé miðað við sambærilega ráðstöfun afla.
Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna kvað upp úrskurð í málinu 30. desember 1998. Nefndin vísaði til þess í niðurstöðu sinni að vegið meðalverð á ísrækju hafi verið kr. 89,03 pr. kg og frávik stefnda frá meðalverðinu því 5,91%. Hafi því þótt rétt að verð til áhafna umræddra fiskiskipa skyldi verða frá 17. desember 1998 til 1. mars 1999 sem hér segir: Rækja 230 stk. og færri í kg 94 kr./ kg, rækja 231 til 290 stk. 84 kr./kg, rækja 291 til 350 stk. 58 kr/kg og rækja 351 stk. og fleiri í kg. 36 kr/kg Í niðurstöðu nefndarinnar var tekið fram að við verðlagningu þessa hafi lítillega verið tekið tillit til þeirra lækkunaráhrifa sem rækjusamningar stefnda við áhafnir skipa sinna hafi haft á vegið meðaltal ísaðrar rækju.
Stefndi gerði frá 17. desember 1998 upp við áhafnir sínar samkvæmt þeim verðum sem úrskurðuð voru.
Með bréfi stefnanda til stefnda, Þormóðs ramma-Sæbergs hf., dags. 21. september 1999, gerði stefnandi þá kröfu að stefndi greiddi stefnanda kr. 1.200.000 í sekt samkvæmt. gr. 1.53. í kjarasamningi aðila vegna meintra brota útgerðarinnar á ákvæði 1. mgr. gr. 1.03. í kjarasamningnum sem hljóðar svo:
„Vélstjórum/vélavörðum skal tryggt hæsta gangverð alls sem aflað er og aldrei lægra en útgerðarmaður fær í sinn hlut. Þeir taka ekki þátt í útgerðarkostnaði.“
Í bréfi stefnda til stefnanda dags. 23. september 1999 kemur fram að stefndi telur sig ekki hafa brotið kjarasamninga á neinn hátt og hafnar kröfum stefnanda um fjárgreiðslur.
Með bréfi dags. 30. september 1999 ítrekaði lögmaður stefnanda gerðar kröfur og veitti 14 daga greiðslufrest. Afrit bréfsins var sent stefnda, Samtökum atvinnulífsins, stefnda, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og stefnda, Útvegsmannafélagi Norðurlands. Engin viðbrögð bárust frá stefndu og hefur stefnandi því höfðað mál þetta.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir mál sitt á ákvæði greinar 1.03. í kjarasamningi milli Vélstjórafélags Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Í 1. málsl. 1. mgr. greinarinnar segi að vélstjórum skuli tryggt hæsta gangverð alls sem aflað er og aldrei lægra en útgerðarmaður fái í sinn hlut. Áskilnaðurinn um hæsta gangverð afla sé ítrekaður í 2. málsl. 2. mgr. sömu greinar. Ákvæði þetta eigi við um sölu afla hvort heldur sé um að ræða sölu milli skyldra eða óskyldra aðila, nema þegar afli sé seldur á innlendum eða erlendum uppboðsmarkaði, sbr. 3. mgr. greinar 1.03., sem er undantekning frá meginreglunni um að greiða skuli hæsta gangverð. Ákvæði 6. mgr. greinar 1.03. um málskot til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna, sbr. 2. kafla í gr. 1.03. í samningnum, sé heimildarákvæði enda byggist slíkt málskot á vilja meirihluta áhafnar til að hafna tilboðum útgerðar um fiskverð og leita réttar síns hjá nefndinni. Málskotsheimild þessi leysi útgerðarmann m.ö.o. ekki frá þeirri kvöð í kjarasamningnum að tryggja sjómönnum sínum hæsta gangverð aflans. Leiti áhöfn skips ekki eftir aðstoð úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna við ákvörðun fiskverðs væri samningurinn ógildur kvæði hann á um lægra fiskverð en hæsta gangverð sbr. H. 497:1998 og H. 137:1999. Þá beri að líta til ákvæðis greinar 1.51. í kjarasamningnum en þar segir:
Sérsamningar einstakra útgerðarmanna og vélstjóra/vélavarða er hljóða upp á lægri kjör en tekið er fram í samningi þessum eru ógildir.
Lægri kjör en hæsta gangverð aflans brytu því tvímælalaust gegn áskilnaði 1. ml. 1. mgr. greinar 1.03 í kjarasamningnum og varðaði slíkt atferli sektum samkvæmt grein 1.53. í sama samningi.
Verðlagsstofu skiptaverðs væri skylt að blanda sér í samningsgerð sjómanna og útvegsmanna kæmist hún á snoðir um að fiskverð við uppgjör á aflahlut viki í verulegum atriðum frá því sem algengast sé við sambærilega ráðstöfun á afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna nr. 13/1998.
Það ferli sem leiðir til málskots Verðlagsstofu skiptaverðs til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna taki langan tíma, 6 mánuði í þessu máli, hafist Verðlagsstofa á annað borð handa vegna ætlaðs lágs fiskverðs hjá tiltekinni útgerð. Þann tíma hagnist ekki einungis viðkomandi útgerð verulega á kjarasamningsbrotum sínum heldur hafi hið lága fiskverð áhrif á meðalfiskverð alls landsins þannig að fiskverð til allra sjómanna lækki. Stefnandi bendir í því samhengi á að í áðurnefndum Hæstaréttardómum hafi einmitt verið miðað við meðalverð úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna sem hæsta gangverð, þar sem ekki hafi tekist að sanna að hærra verð hefði getað fengist fyrir aflann, við túlkun ákvæðis gr. 1.03. í kjarasamningi aðila um hæsta gangverð. Slíkt meðalverð hljóti þó að ráðast af réttmæti þess fiskverðs sem samið sé um hverju sinni. Ónógt aðhald stefnanda á réttri samningsgerð félagsmanna sinna við útgerðir sínar gæti þannig hæglega leitt til þess að ekki væri einungis um að ræða að viðkomandi félagsmenn bæru skarðan hlut frá borði heldur allir þeir félagsmenn sem hvergi kæmu nálægt samningsgerðinni og fengju samninga við sínar útgerðir á grundvelli ákvæðisins um hæsta gangverð. Í þessu sambandi mætti einnig benda á rök sóknaraðila í máli því sem úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna hafi haft til umfjöllunar og mál þetta sé risið af, að líta bæri til þess, að hlutur skipa stefnda hafi haft veruleg áhrif til lækkunar á því meðalverði sem Verðlagsstofa skiptaverðs hafi reiknað út, þar sem afli stefnda sé umtalsverður miðað við heildarafla á ísaðri rækju. Í forsendum og niðurstöðu nefndarinnar hafi einmitt verið tekið lítillega tillit til þeirra lækkunaráhrifa sem rækjusamningar stefnda við áhafnir skipa sinna hefðu haft á vegið meðaltal ísaðrar rækju enda mætti glögglega sjá að úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna hafi við fiskverðsákvörðun sína, vegna umræddra fjögurra skipa, farið upp fyrir meðalrækjuverð á landinu. Verði að telja að hér hafi tekist sönnun um hærra verð á rækju en meðalverð úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna, sbr. áðurgreinda dóma Hæstaréttar.
Stefnandi byggir einnig mál sitt á ákvæði 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, en þar segi að laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um séu lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem samningurinn tekur til og að samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar kveða á um séu ógildir. Kjarasamningur Vélstjórafélags Íslands við Landssamband íslenskra útvegsmanna sé tvímælalaust sá samningur sem við eigi enda sé stefndi aðili að Landssambandi íslenskra útvegsmanna og þeir vélstjórar sem störfuðu um borð í umræddum fjórum fiskiskipum séu félagsmenn stefnanda. Ákvæði greinar 1.03. í kjarasamningnum um hæsta gangverð sé grundvallarákvæði í samningnum og tæki til allra íslenskra sjómanna og útvegsmanna. Sérsamningar einstakra sjómanna við einstakar útgerðir um lægra fiskverð en leiddi af framangreindu ákvæði gætu ekki staðist enda miðaði Hæstiréttur að minnsta kosti við meðalverð úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna við túlkun ákvæðisins. Gagnstæð niðurstaða myndi leiða til þess að sjómenn gætu samið um 1 kr. pr. kg af ísrækju við útgerð sína án þess að stefnandi eða aðrir sjómenn sem slíkt myndi vafalaust bitna á gætu rönd við reist. Ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980 ætti sér samsvörun í grein 1.51. í kjarasamningi aðila en þar segir að sérsamningar milli einstakra útgerðarmanna og vélstjóra er hljóða upp á lægri kjör en tekið sé fram í samningnum skulu ógildir. Yrði því að telja að stefndi hafi brotið gegn umræddu ákvæði 1.03. í kjarasamningnum með því að hafa gert upp við sjómenn sína á alltof lágu fiskverði tímabilið 1. júní 1998 til 17. desember sama ár.
Krafa stefnanda um sektir að fjárhæð kr. 1.200.000 sé byggð á ákvæði greinar 1.53. í kjarasamningi aðila en þar segir að brot gegn samningnum varði sektum allt að kr. 300.057 er renni í félagssjóð stefnanda. Sektarupphæðin skuli síðan hækka í hlutfalli við kaupgjaldsákvæði samningsins. Samkvæmt grein 1.08. í kjarasamningum hafi einstakir kaupliðir hækkað um 3,65% þann 1. janúar 1999 og því nemi nú sektir vegna kjarasamningsbrota kr. 311.009. Stefnandi hafi ákveðið að miða við eitt brot á hvert ofangreindra skipa, þ.e. 4 fiskverðssamninga, og ákvarða hvert brot að fjárhæð kr. 300.000 eða samtals kr. 1.200.000.
Stefnandi leggur áherlsu á að sektarákvæði greinar 1.53. í kjarasamningnum sé stefnanda afar mikilvægt til að þrýsta á um að gerður kjarasamningur væri haldinn. Þannig mætti benda á ákvæði í kjarasamningnum, þar sem fjárhagslegir hagsmunir félagsmanna stefnanda væru vandmetnir, til að mynda þegar hafnarfrísákvæði samningsins væru brotin. Án sektarákvæðisins yrði mun erfiðara að tryggja að útgerðarmenn fylgdu ýmsum skýlausum ákvæðum samningsins. Mætti þannig benda til samanburðar á févítisákvæði ýmissa verksamninga. Kæmist Félagsdómur að þeirri niðurstöðu að stefndi hefði brotið gegn ákvæði greinar 1.03. í kjarasamningnum með því að greiða áhöfnum sínum lægra verð en hæsta gangverð þá myndu afleiðingar þess einfaldlega verða þær, nyti sektarákvæðisins ekki við, að brotið yrði viðurkennt stefnda að kostnaðarlausu og að slíkri viðurkenningu fenginni myndi stefndi einfaldlega halda áfram uppteknum hætti enda væri um verulegan fjárhagslegan ágóða að ræða.
Í því sambandi bendir stefnandi á að samkvæmt upplýsingum Fiskistofu hafi heildaraflamagn á Stálvík SI-1, tímabilið 9. september til 9. desember 1998, numið 251.399 kg af úthafsrækju. Væri einungis miðað við meðalverð á ísrækju á þessu tímabili, kr. 89,03 pr. kg, sbr. úrskurð Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna en ekki hæsta gangverð, hafi aflaverðmætin átt að nema kr. 22.382.057, en ekki kr. 21.132.599 eins og niðurstaðan hafi síðan orðið miðað við meðalverð útgerðarinnar, sem að mati stefnda sjálfs hafi numið kr. 84,06. Mismunur meðalverðs úrskurðarnefndar og þess verðs sem útgerðin hafi greitt umrædda 3 mánuði hafi því numið kr. 1.249.457. Á Sigluvík SI-2 hafi samtals veiðst 207.848 kg af úthafsrækju tímabilið 7. september til 7. desember 1998. Miðað við uppgefið meðalverð stefnda hafi aflahlutur numið kr. 17.471.702 en miðað við meðalverð úrskurðarnefndar hafi aflahluturinn í það minnsta átt að nema kr. 18.504.707 eða mismunur að fjárhæð kr. 1.033.055. Á Sólbergi ÓF-12 hafi veiðst 256.951 kg af úthafsrækju tímabilið 8. september til 9. desember 1998 og miðað við meðalverð stefnda hafi aflaverðmætin numið kr. 21.599.301 en miðað við meðalverð úrskurðarnefndar hafi aflaverðmætin átt að nema kr. 22.876.347 eða mismunur að fjárhæð kr. 1.317.046. Á Múlabergi ÓF-32 hafi veiðst 269.796 kg af úthafsrækju tímabilið 6. september til 9. desember 1998 og miðað við meðalverð stefnda hafi aflaverðmætin numið kr. 22.679.051 en miðað við meðalverð úrskurðarnefndar hafi aflaverðmætin átt að nema kr. 24.019.937 eða mismunur að fjárhæð kr. 1.340.886.
Af ofangreindu megi ráða að þó að einungis væri miðað við þriggja mánaða tímabil á umræddum fjórum skipum stefnda; einungis meðalverð frá úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, þrátt fyrir skýlaust orðalag ákvæðis gr. 1.03. í kjarasamningi aðila um hæsta gangverð og þrátt fyrir þá staðreynd að farið væri eftir þeim upplýsingum sem stefndi sjálfur lét uppi um meðalverð á úthafsrækju útgerðarinnar til sjómanna sinna, þá kæmi fram mismunur á reiknuðum og vanreiknuðum aflahlut að fjárhæð kr. 4.940.444. Sektarfjárhæðin næmi hins vegar kr. 1.200.000 og teldi stefnandi hana varlega áætlaða enda hafi stefndi ítrekað sýnt fram á að hann teldi hag sínum best borgið með því að fylgja ekki ákvæðum gerðs kjarasamnings. Árið 1997 hafi stefndi lagt skipum sínum í 7 vikur til að knýja rækjuverð til áhafna sinna niður. Þannig hafi að lokum verið samþykkt lægra rækjuverð en þeim hafi upphaflega staðið til boða. Þá hafi stefndi ekki samið um fiskverð eftir 1. mars 1999 þrátt fyrir að rækjuverð hafi hækkað um 8 til 10% á þessu tímabili. Úrskurðarnefndin hafi af þeim sökum enn hækkað rækjuverð áhafna umræddra skipa stefnda um 5% þann 22. október sl. Málsókn þessi væri stefnanda því mikilvæg til að sporna við áframhaldandi kjarasamningsbrotum stefnda.
Stefnandi byggir kröfur sínar á ákvæðum greinar 1.03., 1.51. og 1.53. í kjarasamningi milli Vélstjórafélags Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna frá 27. mars 1998 og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Um kröfu 1 og 2
Stefndi rökstyður sýknukröfu sína með því, að hann hafi, með samningum við áhafnir Stálvíkur, Sigluvíkur, Múlabergs og Sólbergs í maí 1998 efnt að fullu samningsskyldur sínar við félagsmenn stefnanda samkvæmt grein 1.03. í kjarasamningi. Þá sé stefnda einnig nauðsynlegt að fá viðurkenningu þess að hann hafi með samningum við áhafnir skipa sinna farið að kjarasamningum þegar um viðskipti milli skyldra aðila sé að ræða. Máli sínu til stuðnings vísar stefndi til framlagðra gagna og undirstöðuraka um túlkun samninga.
Mótmælt sé sem röngum og ósönnuðum fullyrðingum stefnanda um að stefndi hafi brotið gegn kjarasamningi vélstjóra. Í bréfum stefnanda sé hótað málsókn fyrir ætluð brot á 1. mgr. greinar 1.03. í kjarasamningi. Í stefnu sé krafa stefnanda hins vegar víkkuð út og krafist viðurkenningar á því að stefndi hafi brotið gegn grein 1.03. Fallist sé á það með stefnanda að skoða verði grein 1.03. í heild við úrlausn þessa máls.
Í 5. mgr. greinarinnar séu ákvæði um það að útgerðarmaður og áhöfn skuli gera sín á milli samning um fiskverð þegar útgerð selji afla til eigin vinnslu. Í 6. mgr. séu heimildir meirihluta áhafnar til þess að leita úrskurðar úrskurðarnefndar telji áhöfnin sig ekki eiga kost á samningi um sanngjarnt fiskverð skv. 5. mgr.
Ekki hafi reynt á ákvæði 6. mgr. þar sem stefndi hafi í maí 1998 gert samninga við áhafnir skipa sinna. Hafi verið farið eftir ákvæðum 5. gr. í þeim efnum. Séu samningar við allar fjórar áhafnirnar eins og áhafnirnar hafi ákveðið að greiða atkvæði í einn pott þannig að annað hvort væri kominn á samningur við þær allar eða enga. Stefndi hafi ekkert haft við það að athuga og hafi samningarnir verið samþykktir í leynilegri atkvæðagreiðslu áhafnanna og öðlast gildi samkvæmt 5. mgr. greinar 1.03.
Mótmælt sé sem röngum fullyrðingum í stefnu um að málskotsheimild í 6. mgr. greinar 1.03. leysi útgerðarmann ekki frá þeirri kvöð að tryggja sjómönnum sínum hæsta gangverð og að samningur útgerðar og áhafna sé ógildur kveði hann á um lægra fiskverð en hæsta gangverð. Engar skýringar séu á því í stefnu hvað átt sé við með hæsta gangverði að mati stefnanda. Ákvæðið hafi verið mjög lengi í kjarasamningi eða allt frá dögum Verðlagsráðs sjávarútvegsins, sem hafi ákvarðað fiskverð áður en fiskverð hafi verið gefið frjálst. Í verðlagsráði hafi átt sæti fulltrúar seljenda, þ.e. útgerða og áhafna og fulltrúar kaupenda, þ.e. fiskvinnslu, auk oddamanns. Áður fyrr hafi ákvarðanir um fiskverð verið í höndum verðlagsráðs, sem hafi ákvarðað lágmarksverð. Frá því hafi verið horfið í byrjun þessa áratugar, fiskverð gefið frjálst og verðlagsráð formlega lagt niður 1992.
Skipshöfnum og útgerðum hafi eftir að verðlagsráð hafi verið lagt niður verið gert að semja sín á milli um fiskverð í viðskiptum milli skyldra aðila. Það fiskverð geti verið til endurskoðunar af aðilum sjálfum eða úrskurðarnefnd sé málum skotið til hennar. Sú endurskoðun geti m.a. tekið tillit til meðalverðs fyrir liðinn tíma, enda sé eðli málsins samkvæmt ekki hægt að reikna það út fyrr en eftir á. Í raun og veru hafi hins vegar engin fiskvinnsla verið að borga þetta meðalverð, því það sé einungis sú viðmiðun, sem meirihluti úrskurðarnefndarinnar hafi ákveðið að væri sanngjörn og eðlileg viðmiðun. Úrskurðir úrskurðarnefndar sem starfi samkvæmt lögum nr. 13/1998 feli ekki í sér neinn áfellisdóm um það að gildandi samningar áhafnar og útgerðar um fiskverð hafi verið ólögmætir, heldur sé hin nýja fiskverðsákvörðun einungis lögbundinn gerðardómur, sem geti breytt áður umsömdu fiskverði í skiptum útgerðarmanna og sjómanna til lækkunar eða hækkunar um ákveðinn tíma frá því þeir eru kveðnir upp. Það að sjómenn gætu hugsanlega þurft að sætta sig við lækkun umsamins fiskverðs á grundvelli niðurstöðu meirihluta oddamanns og fulltrúa útgerðarmanna í gerðardóminum, hafi ekki heldur þau réttaráhrif að þeir hafi gerst sekir um brot gegn grein 1.03. í kjarasamningi vegna samnings síns við útgerðarmanninn um fiskverð.
Sérstök úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna um fiskverð hafi fyrst verið sett á fót með lögum nr. 84/1995. Í ákvörðunum sínum skyldi nefndin taka mið af því fiskverði, sem algengast væri við sambærilega ráðstöfun afla. Með lögum nr. 13/1998 hafi fyrrnefndum lögum verið breytt og komið á fót sérstakri Verðlagsstofu skiptaverðs, sem hafi það hlutverk að fylgjast með og afla upplýsinga um fiskverð, sbr. 1. gr. og 3. gr. og birta þær til að gagnast sjómönnum og útvegsmönnum. Verðlagsstofan hafi einnig fengið málskotsrétt til úrskurðarnefndarinnar skv. 7. gr. í því skyni að draga úr návígi sjómanna og útgerðarmanna og til þess að treysta grundvöllinn undir áhafnabundna fiskverðssamninga. Tilgangur úrskurðarnefndarinnar sé að komast hjá því að sjómenn þyrftu að þola óeðlileg frávik frá fiskverði, vegna þess að fiskvinnsla væri í eigu sömu aðila. Úrskurðarnefndin hafi því stöðu lögbundins gerðardóms, sem geti breytt umsömdu fiskverði eftir á og þá fram í tímann. Þeim gerðardómi verði ekki breytt nema ógildingarástæður, 2. mgr. 13. gr. laga nr. 13/1989 um samningsbundna gerðardóma eigi við. Í athugasemdum með lögunum komi því skýrt fram að úrskurður um nýtt fiskverð sé aðeins framvirkur. Það sé hugsað sem ígildi lögbundins lágmarksverðs í næstu þrjá mánuði. Bæði sjómenn og útgerðarmenn séu því bundnir af samningum sínum um fiskverð fyrir liðinn tíma. Löggjafanum hafi verið ljóst að nýja fiskverðið, gerðardómsverðið, gæti orðið óásættanlegt fyrir útgerð og fiskvinnslu, og því hafi verið mælt fyrir um að bótarétt sjómanna í 16. gr. laganna, tæki útgerð þá ákvörðun að leggja skipi á gildistíma úrskurðarins. Hvorki lögum nr. 13/1998 né eldri lögum hafi þannig verið ætlað að raska gildi eldri fiskverðssamninga með afturvirkum hætti.
Í málsástæðum stefnanda í stefnu segi: „Ónógt aðhald stefnanda á réttri samningsgerð félagsmanna sinna við útgerðir sínar gæti þannig hæglega leitt til þess að ekki væri einungis um að ræða að viðkomandi félagsmenn bæru skarðan hlut frá borði heldur allir þeir félagsmenn sem hvergi kæmu nálægt samningsgerðinni og fengju samninga við sínar útgerðir á grundvelli ákvæðisins um hæsta gangverð.“ Þetta lýsi í hnotskurn því að stéttarfélagið geti ekki fellt sig við það að heimildir til samninga um fiskverð hafi verið færðar í hendur þeirra sem málið snertir beint, þ.e. útgerðar og áhafna skipa hennar. Sé í þessu sambandi minnt á niðurstöðu Félagsdóms í máli nr. 12/1998, sem stefnandi virðist ekki geta fellt sig við. Þá vakni spurning um það hvort stéttarfélag vélstjóra geti ekki fellt sig við lýðræðislegar aðferðir, þ.e. að meirihluti áhafnar ráði.
Þá sé ein málsástæða stefnanda að brotið hafi verið gegn 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launþega, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993 um lágmarkskjör. Túlkun stefnanda á ákvæðum þeirra laga sé með ólíkindum. Hefði stefndi breytt hlutaskiptakjörum hefði það varðað við þau lög, t.d. ef útgerðarmaður hefði ákveðið að skipstjóri fengi 1,5 hluti í stað tveggja hluta, en furðulegt sé að að halda fram að rokkandi fiskverð væri hluti af því. Þá sé mótmælt þýðingu tilvitnaðra dóma Hæstaréttar sem þessu máli óviðkomandi.
Með tilvísun til framangreinds og meginreglna um skuldbindingargildi og túlkun samninga er gerð krafa um að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda og að viðurkennt verði að hann hafi uppfyllt ákvæði kjarasamninga með gerð samninganna við áhafnir skipa sinna um fiskverð.
Um kröfu 3
Stefnandi virðist nánast nota hvert tækifæri til þess að sverta ímynd útgerðarmannsins í augum starfsmanna hans. Það sé auðvelt að eyðileggja vinnuandann með því að halda því fram að verið sé að hafa af starfsmönnum. Það geti verið erfiðara að bæta vinnuandann á eftir. Starfsmenn trúi því að forystumenn þeirra fari með rétt mál. Verði því að taka fast á því þegar þeir gera það ekki eins og í þessu tilfelli.
Í bréfum stefnanda og í stefnu sé því haldið fram að geri stefnandi ekkert í málinu væri það hvatning til útgerðarmanna að semja um nógu lágt verð á afurðum sínum og hagnast þannig a.m.k. tímabundið eða allt til loka þeirrar löngu málsmeðferðar sem þessum málum fylgi. Þá sé það fullyrt í stefnu að stefndi hafi ítrekað sýnt fram á það að hann teldi hag sínum best borgið með því að fylgja ekki ákvæðum gerðs kjarasamnings. Þessar aðdróttanir í garð stefndrar útgerðar séu vítaverðar sem virðast hafa það eitt að markmiði að sverta viðkomandi útgerð í augum starfsmanna sinna. Er þess krafist með tilvísun til 63. og 65. gr. laga nr. 80/1938 og 22. kafla laga nr. 91/1991 að stefnandi verði dæmdur í sekt fyrir þessi ummæli sín.
Um kröfu 4
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að um brot gegn kjarasamningi sé að ræða og það gæti varðað við grein 1.53. í kjarasamningi er gerð krafa til þess að sekt geti þó aldrei orðið hærri en sem nemi kr. 300.000. Þó að um samningsbundið sektarákvæði sé að ræða verði að fara varlega í túlkun á ákvæðinu og að því sé ekki beitt nema um mjög alvarleg brot sé að ræða. Ákvæði sem þetta sé óþekkt í öðrum kjarasamningum en kjarasamningum fiskimanna. Forsendur samþykkis útvegsmanna á ákvæðinu hafi verið að því væri beitt við mjög gróf og óumdeild brot á kjarasamningi.
Um kröfu 5
Um málskostnaðarkröfu er vísað til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 65. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Gerð er krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sem byggist á því að Samtök atvinnulífsins og Landssamband íslenskra útvegsmanna, sem greiði kostnaðinn, stundi ekki virðisaukaskattskylda starfsemi samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og þurfi því að fá þann skatt greiddan úr hendi stefnanda til að verða skaðlaus af honum. Við ákvörðun málskostnaðar sé tekið tillit til þess að málshöfðun stefnanda sé tilefnislaus, sbr. 131. gr. einkamálalaga.
Niðurstaða
Í grein 1.03. í kjarasamningi aðila frá 27. mars 1998 er fjallað um sölu afla innanlands. Í upphafsákvæði greinarinnar er tekið fram að vélstjórum/vélavörðum skuli tryggt hæsta gangverð alls sem aflað er og aldrei lægra en útgerðarmaður fær fyrir sinn hlut. Þá er tekið fram að vélstjórar/vélaverðir taki ekki þátt í útgerðarkostnaði. Í 1. mgr. I. kafla greinar 1.03. er ákvæði þetta ítrekað. Þar er og kveðið svo á um, sbr. 4. mgr. kaflans, að útgerðarmaður og áhöfn skuli gera sín á milli samning um fiskverð þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu, þ.e.a.s. í viðskiptum milli skyldra aðila. Nánar er kveðið á um slíka samninga í greininni, gerð þeirra, form, og efni. Þá er tekið fram í 5. mgr. þessa kafla greinar 1.03. hvernig með skuli fara þegar meirihluti áhafnar telur sig ekki eiga kost á samningi um sanngjarnt fiskverð og skal þá leita úrskurðar nefndar sem samtök sjómanna og útvegsmanna koma sér saman um að skipuð verði. Um nefnd þessa, skipan hennar, störf og starfshætti eru ákvæði í II. kafla greinar 1.03. Í III. kafla greinarinnar er hins vegar fjallað um ráðstöfun afla í skiptum milli óskyldra aðila.
Í máli þessu eru atvik með þeim hætti að um var að ræða sölu afla (ísrækju) til eigin vinnslu. Þeir samningar um fiskverð, sem áhafnir hinna tilgreindu fiskiskipa stefnda og stefndi gerðu sín á milli, voru því gerðir á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis 4. mgr. I. kafla greinar 1.03. kjarasamningsins.
Auk þeirra ákvæða kjarasamningsins, sem hér hefur verið getið, hafa lög nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna þýðingu við úrlausn málsins, en með lögum þessum var Verðlagsstofu skiptaverðs komið á fót og ákvæðum þágildandi laga um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna nr. 84/1995 breytt til samræmis við það og þeim skipað í lög nr. 13/1998.
Eins og fram er komið tók Verðlagsstofa skiptaverðs rækjuverð samkvæmt fyrrgreindum samningum um fiskverð til sérstakrar athugunar, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1998. Var það í tilefni af bréfi verkalýðsfélagsins Vöku frá 18. september 1998. Ákvað Verðlagsstofa þá að skjóta málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna samkvæmt 2. mgr. 7. greinar. Hinn 30. desember 1998 kvað nefndin upp úrskurð í málinu og ákvarðaði rækjuverð til uppgjörs við áhafnir skipanna, sbr. II. kafla laga nr. 13/1998. Var gildistími úrskurðarins frá 17. desember 1998 til 1. mars 1999.
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn í meginatriðum á því að þar sem úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna hafi í úrskurði sínum frá 30. desember 1998 komist að þeirri niðurstöðu að ákvarða beri uppgjörsverð, er væri í öllum tilvikum hærra en fiskverð samkvæmt nefndum samningum, liggi fyrir að stefndi hafi brotið gegn fyrrgreindum ákvæðum greinar 1.03. í kjarasamningnum um hæsta gangverð með því að hafa gert upp við áhafnirnar á alltof lágu verði tímabilið 1. júní 1998 til 17. desember sama ár. Er á það bent að nefndin hafi tekið mið af meðalverði, sbr. túlkun hennar á hugtakinu „algengast fiskverð við sambærilega ráðstöfun afla“ er fram komi í lögum nr. 13/1998, en líta beri á meðalverðið sem hæsta gangverð, nema sannað sé að gangverð sé hærra, sbr. dómafordæmi Hæstaréttar sem stefnandi vísar til. Af þessu leiði síðan að beita beri ákvæðum greinar 1.53. í kjarasamningnum um sektir.
Af hálfu stefnda er sýknukrafan, svo og krafa um að viðurkennt verði að með gerð fiskverðssamninganna hafi stefndi uppfyllt ákvæði greinar 1.03. í kjarasamningnum, byggðar á því að með þeim samningum hafi stefndi efnt að fullu samningsskyldur sínar við félagsmenn stefnanda samkvæmt þessari grein kjarasamningsins. Bendir stefndi m.a. á að samningarnir hafi verið gerðir til langs tíma eða 15 mánaða og þannig hafi áhafnirnar tryggt sér ákveðið verð þann tíma og stefndi með því tekið nokkra áhættu. Fyrir hafi legið samkvæmt reynslu að einhverra verðsveiflna væri að vænta á afurðaverði á svo löngum tíma og gengið hafi verið út frá því við samningsgerðina af hálfu beggja aðila að minniháttar verðsveiflur hefðu ekki áhrif, enda sé í samningunum tekið fram um endurskoðun þeirra komi til verulegra breytinga á afurðaverði. Úrskurður úrskurðarnefndar samkvæmt lögum nr. 13/1998 ógildi ekki samninga útgerða og áhafna um fiskverð, enda geti slík ákvörðun einungis breytt umsömdu fiskverði til hækkunar eða lækkunar um ákveðinn tíma frá því að hún var tekin. Úrskurðurinn hafi stöðu lögbundins gerðardóms sem breytt geti fiskverði eftir á og þá fram í tímann.
Við túlkun á hugtakinu „hæsta gangverð alls sem aflað er“ í grein 1.03. í kjarasamningi aðila ber að líta til þess að gerðir hafa verið samningar um fiskverð á grundvelli þeirrar samningsskyldu sem mælt er fyrir um í 4. mgr. I. kafla greinarinnar, sem síðan hafa sætt athugun og úrlausn samkvæmt þeirri tilhögun sem kveðið er á um í lögum nr. 13/1998.
Eins og fram hefur komið voru umræddir samningar um rækjuverð stefnda til uppgjörs við áhafnir hinna tilgreindu fiskiskipa stefnda gerðir til alllangs tíma eða frá 1. júní 1998 til 1. september 1999. Í samningunum er verðið tilgreint og tekið fram að komi til verulegra breytinga á afurðaverði séu aðilar sammála um að samningarnir skuli teknir til endurskoðunar. Samningarnir voru samþykktir af áhöfnum skipanna og óumdeilt er að ekki var óskað eftir endurskoðun á fiskverði samkvæmt greindu ákvæði þeirra. Ekki liggur annað fyrir en að rækjuverð samkvæmt fiskverðssamningunum hafi verið ákveðið á málefnalegum grundvelli enda hefur hinu gagnstæða ekki verið haldið fram af hálfu stefnanda.
Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 13/1998 er við það miðað að Verðlagsstofa skiptaverðs taki mál til sérstakrar athugunar „víki fiskverð við uppgjör á aflahlut áhafnar í verulegum atriðum frá því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða...“ Samsvarandi ákvæði er í 2. mgr. 11. gr. laganna hvað varðar ákvarðanir úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 13/1998, kemur fram að þessi regla er sett fram sem viðmiðunarregla um lágmarksfiskverð við uppgjör á aflahlut sjómanna, en af eðli málsins leiði að ekki sé unnt að orða slíka reglu nákvæmlega í lagatexta. Í ákvörðun sinni um málskot til úrskurðarnefndar, dags. 10. desember 1998, gerir Verðlagsstofa skiptaverðs grein fyrir forsendum sínum. Ályktun Verðlagsstofunnar er að verð á ísrækju sé „lægra en almennt gerist“ og byggir hún álit sitt á heildarmati á þar tilgreindum forsendum. Í úrskurði úrskurðarnefndar, dags. 30. desember 1998, kemur fram að frávik frá meðalverði í tilviki umræddra samninga sé 5,91%. Því þyki rétt að hækka rækjuverðið. Hvorki í málskoti Verðlagsstofunnar né úrskurði úrskurðarnefndar kemur skýrt fram að verð samkvæmt samningunum víki í verulegum atriðum frá þeirri verðviðmiðun sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 7. gr. og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998.
Þegar litið er til samninganna um rækjuverð og framangreindrar umfjöllunar um þá og virtar eru þær ákvarðanir Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna, sem í málinu greinir, bæði efni þeirra og eðli samkvæmt lögum nr. 13/1998, verður að telja varhugavert að slá því föstu að stefndi hafi brotið ákvæði greinar 1.03. í kjarasamningi aðila. Samkvæmt því ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Stefndi hefur gert þá gagnkröfu að viðurkennt verði að með gerð samninganna frá 29. maí 1998 við áhafnir umræddra fiskiskipa stefnda um fiskverð hafi stefndi uppfyllt ákvæði greinar 1.03. í kjarasamningi aðila. Stefndi hefur ekki skotið viðhlítandi stoðum undir þessa kröfu sína og er henni því hafnað. Ekki eru efni til að taka til greina kröfu stefnda um réttarfarssekt á hendur stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Samtök atvinnulífsins f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h. Útvegsmannafélags Norðurlands, vegna Þormóðs ramma-Sæbergs hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Vélstjórafélags Íslands, í máli þessu.
Viðurkenningarkröfu stefnda og kröfu um réttarfarssekt er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.