Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2002 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 4/2001

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 4/2001:

A

gegn

Heilbrigðisstofnuninni Selfossi (Réttargeðdeild að Sogni)

 -----------------------------------------------------------------

 Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 12. apríl 2002 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með bréfi, dags. 19. nóvember 2001, sem barst kærunefnd jafnréttismála 20. nóvember 2001, óskaði kærandi, A, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun um launaflokkshækkun, eftir að framgangsnefnd hafði metið störf kæranda samkvæmt framgangskerfi, brjóti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Heilbrigðisstofnuninni Selfossi með bréfi, dags. 4. desember 2001. Var með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 óskað eftir upplýsingum um fjölda og kyn þeirra sem starfa sem hjúkrunarfræðingar við Réttargeðdeildina að Sogni, svo og við Heilbrigðisstofnunina Selfossi. Einnig var óskað eftir upplýsingum um það hvaða viðmið hafi verið höfð til hliðsjónar þegar Heilbrigðisstofnunin Selfossi raðaði hjúkrunarfræðingum sem starfa við Réttargeðdeildina að Sogni, svo og við Heilbrigðisstofnunina Selfossi, í launaflokka. Óskað var eftir upplýsingum varðandi launaflokkaröðun eftirmanns kæranda sem aðstoðardeildarstjóra við Réttargeðdeildina að Sogni, svo og varðandi aðra hjúkrunarfræðinga sem þar starfa og þá sem starfa við Heilbrigðisstofnunina Selfossi. Þá var óskað eftir upplýsingum um framgangsmatið, svo sem hvernig það var framkvæmt og hvaða viðmið hafi verið notuð við gerð þess.

Með bréfi D, framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi, dags. 7. janúar 2002, bárust svör við framangreindum fyrirspurnum.

Með bréfi, dags. 21. janúar 2002, var kæranda kynnt umsögn Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi og óskað eftir frekari athugasemdum kæranda. Sú umsögn var veitt með bréfi, dags. 29. janúar 2002.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Kærandi hóf störf sem aðstoðardeildarstjóri við Réttargeðdeildina að Sogni í júní 1997 og starfaði þar fram í maí 2001. Réttargeðdeildin að Sogni er sjálfstæð stofnun sem rekin er af Heilbrigðisstofnuninni Selfossi í samræmi við þjónustusamning við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

Hinn 2. desember 1998 var gerður samningur milli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga annars vegar og Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi hins vegar um nánari forsendur og reglur um röðun starfa við stofnunina samkvæmt ákvæðum 3. gr. kjarasamnings Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra f.h. ríkisins, dags. 9. júlí 1997. Með samningi, dags. 28. apríl 2000, milli Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga var mælt fyrir um framgangskerfi fyrir hjúkrunarfræðinga innan Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi. Í samningnum er framgangskerfið skilgreint þannig að þeir hjúkrunarfræðingar sem starfa innan Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi geti fengið viðurkenningu og starfsframa sem leiði til launalegs ávinnings eftir mat á þáttum, svo sem menntun, hæfni og frammistöðu.

Í janúar 2001 var beiðni kæranda um framgangsmat tekið fyrir hjá framgangsnefnd. Kærandi var ekki sáttur við niðurstöðu framgangsnefndarinnar og telur hann sig ekki hafa fengið framgang m.a. vegna kynferðis. Telur kærandi sig eiga að flokkast sem [hjúkrunarfræðing E], en honum var raðað í B.

Með bréfi, dags. 27. mars 2001, kærði kærandi til samstarfsnefndar framgangsmat það sem áður var nefnt. Í erindi sínu til samstarfsnefndarinnar gerði kærandi ítarlega grein fyrir menntun sinni, þekkingu og reynslu sem hann taldi að máli skipti varðandi framgangsmatið.

Fyrir liggur að samstarfsnefnd fjallaði um erindi kæranda, en niðurstaða nefndarinnar leiddi ekki til breytinga á launum hans. Í kjölfar þess vísaði kærandi máli þessu til kærunefndar jafnréttismála.

 

III

Sjónarmið kæranda

Í bréfi kæranda, dags. 19. nóvember 2001, kemur fram að kærandi telji sig ekki vera í réttum launaflokki, eins og honum var raðað samkvæmt framgangsmati í byrjun janúar 2001. Að mati kæranda hafi framgangsnefnd unnið ófaglega og óvísindalega og verið hlutdræg. Hún hafi ekki verið sjálfri sér samkvæm þar sem fólki var mismunað í krafti kynferðis eða vegna annarra hvata. Kærandi kveður engin rök fyrir því að hann raðist svo lágt sem raun bar vitni.

Kærandi vísar til framangreinds samkomulags þar sem m.a. er kveðið á um að taka skuli mið af menntun starfsmanna, starfi þeirra, ábyrgð og álagi. Hann kveður skilning sinn á framangreindu vera þann að aðallega skuli farið eftir eðli og ábyrgð þess starfs sem viðkomandi er í. Hann telur sig hafa allnokkra reynslu m.a. sem aðstoðardeildarstjóri að Sogni. Hann fái ekki séð að aðstoðardeildarstjórinn sem kom í hans stað eigi að raðast hærra í launum í umræddu starfi. Sú sem tók við starfinu hafi hvorki þá sértæku reynslu sem nýtist í starfi né menntun sem teljist meiri eða betri en kæranda.

Þá bendir kærandi sérstaklega á að við framgangsmat hafi hann ekki fengið metið stjórnunarnám sem hafi verið hluti af viðskiptafræðinámi hans við Háskóla Íslands, sem hann lauk 1986. Telur kærandi sig hafa gengt stjórnunarstöðu að Sogni og við þær aðstæður eigi að meta viðbótarnám í stjórnun til hækkunar launa. Telur kærandi að í því felist mismunun sem fari gegn jafnréttislögum.

  

IV

Sjónarmið Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi

Í bréfi frá Heilbrigðisstofnuninni Selfossi, dags. 7. janúar 2002, var á því byggt að við röðun kæranda í launaflokk hafi verið stuðst við gildandi kjarasamning á milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs annars vegar og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hins vegar. Einnig sé stuðst við stofnanasamning á milli Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, en í tengslum við stofnanasamninginn sé stuðst við framgangskerfi sem allir hjúkrunarfræðingar séu metnir eftir persónubundið.

Heilbrigðisstofnunin Selfossi telur að framgangsmat gagnvart kæranda hafi verið í fullu samræmi við tilvísaðan kjarasamning og að kærandi hafi verið metinn til framgangs með sama hætti og aðrir hjúkrunarfræðingar. Kærandi hafi neytt allra tiltækra úrræða til að fá framgangsmati sínu breytt, hann hafi óskað eftir endurskoðun framgangsnefndar og vísað málinu til stéttarfélags síns sem tekið hafi málið upp í samstarfsnefnd.

Niðurstaða samstarfsnefndar var sú að tekið var að nokkru undir athugasemdir kæranda, en þær breytingar leiddu ekki til launahækkunar.

Heilbrigðisstofnunin Selfossi vísar á bug dylgjum kæranda um óréttlæti og að framgangsnefndin hafi unnið ófaglega, óvísindalega, verið hlutdræg og ekki sjálfri sér samkvæm þar sem fólki hafi verið mismunað í krafti kynferðis eða annarra hvata.

 

V

Niðurstaða

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að tilgangur laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnun tækifæra kvenna og karla.

Kærandi hóf störf hjá Réttargeðdeildinni að Sogni í júní 1997 og starfaði þar fram í maí 2001. Samkvæmt samningi milli Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, frá 28. apríl 2000, var komið á framgangskerfi fyrir hjúkrunarfræðinga innan Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi. Samkvæmt samningnum var skipuð framgangsnefnd sem hafði það hlutverk að gera hjúkrunarfræðingum kleift innan Heilbrigðistofnunarinnar Selfossi að fá viðurkenningu og starfsframa sem leiði til launalegs ávinnings. Framgangsnefndin er skipuð þremur fulltrúum hjúkrunarfræðinga og tveimur fulltrúum yfirstjórnenda Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi. Framgangskerfið felur í sér framgang innan hvers launaramma og/eða flutning milli stiga (hjúkrunarfræðingur F–G). Við röðun starfa innan hvers stigs skal taka tillit til menntunar, mats á einstökum störfum, mats á hæfni, frammistöðu og starfshlutfalli. Við uppbyggingu kerfisins var þeim atriðum sem skilgreina hvert stig skipt niður í fjóra flokka; klíníska hjúkrun, samskipti, símenntun/fræðslu/rannsóknir og stjórnun. Framgangskerfið tók gildi 1. desember 1999.

Í janúar 2001 var framgangur kæranda metinn hjá framgangsnefndinni. Svo sem áður er lýst var kærandi ósáttur við niðurstöðu framgangsnefndarinnar. Í framangreindum samningi er kveðið á um að þeir hjúkrunarfræðingar sem ekki eru sáttir við framgangsmat geti farið fram á endurmat hjá framgangsnefndinni, en ef ágreiningur er enn til staðar skal vísa málinu til samstarfsnefndar Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi, sem skipuð er þremur hjúkrunarfræðingum, sem eru fulltrúar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, og þremur fulltrúum atvinnurekenda. Niðurstaða samstarfsnefndar leiddi ekki til breytinga á launaflokkun kæranda.

Í erindi kæranda til kærunefndar jafnréttismála byggir kærandi á því að hann hafi ekki fengið framgang hjá framgangsnefnd, m.a. vegna kynferðis. Bendir kærandi jafnframt á að framgangsnefnd hafi ekki tekið tillit til stjórnunarnáms sem hann hafi stundað í viðskiptafræðinámi sínu.

Framgangsmat það sem kærandi vísar til í kæru sinni byggir á kjarasamningi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkisins hins vegar. Í framgangsmatinu er metið á hlutlægan hátt til eininga ýmis atriði sem lúta að menntun, störfum og reynslu viðkomandi. Að mati kærunefndar jafnréttismála verður ekki séð að framgangskerfið sem slíkt feli í sér mismunun sem rekja megi til kynferðis. Þá er það mat kærunefndar jafnréttismála að kærandi hafi ekki leitt líkur að því að niðurstaða framgangsnefndar, sem efnislega var staðfest í samstarfsnefnd, hafi falið í sér mismunun sem rekja megi til kynferðis. Rétt er að taka fram að það fellur ekki undir kærunefnd jafnréttismála að taka afstöðu til þess almennt hvort mat framgangsnefndar hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum að öðru leyti, enda verður að telja að kærandi hafi önnur úrræði telji hann að við framgangsmat hafi ekki verið gætt faglegra sjónarmiða.

Með vísan til ofanritaðs, sbr. 3. mgr. 14. gr. og 2. mgr. 23. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að Heilbrigðistofnunin Selfossi hafi ekki brotið gegn lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í máli þessu.

 

 

Andri Árnason

Ragnheiður Thorlacius

Stefán Ólafsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta