Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 31/2001

Þriðjudaginn, 23. apríl 2002

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.

 

Þann 7. ágúst 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 27. júlí 2001.

 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi.

 

Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 16. júlí 2001, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

"...vil kæra úrlausn ykkar á umsókn minni um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og úthlutunarregluna um greiðslu, sem miðast við meðaltal síðustu 12 mánuði, sem er byrjað á 2 mánuðum fyrir áætlaða fæðingu barnsins. Dóttir mín kom í heiminn 30. júní 2001 og hélt ég að ég gæti lifað svo til áhyggjulaus næstu 6 mánuðina. En svo er ekki.

 

Samkvæmt útreikningum (16. júlí 2001) fæ ég útborgað 89.190 kr. Ég var alveg viss um að greiðsla miðaðist við það sem ég fæ í tekjur í dag. Núna er hin langþráða kauphækkun loksins komin hjá B 1. maí 2001, eftir mikla vinnu og mikið þref og var ekki hægt að lifa af laununum áður. Núna er það D kr. á mánuði og plús E kr. frá Landspítalanum, þar sem ég hef unnið sem F í 33% starfi. Sem sagt ég hélt ég fengi G kr. mínus 20% og svo skattur. Núna fæ ég helmingi minna en ég ætti að fá í laun og tel ég það vera mjög rangt þegar það munar svona miklu. Ég tapa á þessu...

 

Ég sótti um styrk hjá H en fékk neitun þar sem B eða I borga ekki í styrktarsjóðinn.

 

Ég á einn son, sem verður 2 ára í september og var ég að reyna að vera meira heima með honum og einnig maðurinn minn, þannig að tekjur voru minni frá mars til sept. 2000, en það bitnar núna illa á okkur. Þetta er ekki fjölskyldustefna til styrktar fjölskyldum.

 

Þessi regla um greiðslu miðuð við ár aftur í tímann er hreint og beint fráleit og hefur ekkert með sanngirni að gera eða raunsæi í efnahagsmálum. Það er ekki hægt í mínu tilfelli, þegar það munar um helmingi á launum í dag.

 

Ég krefst þess að þið breytið þessari reglu, að minnsta kosti í svona tilfelli hafið undanþágu þegar mismunurinn er svona mikill.

 

Mér finnst ekki rétt að miða reglu gr. 13. ffl. svona langt aftur í tímann, þ.e.a.s. þegar ég er á 6. mán. í fæðingarorlofi miðast hann af meðaltali 20. mán. áður.

 

Eftir að meðlimir í B höfðu dregist veruleg aftur úr launum, þá kom hin langþráða hækkun 1. maí 2001. Fæ ég ekki að njóta góðs af því. Tekjutap mitt að vera í fæðingarorlofi er 50%, en þar sem verðbólga og vísitala hafa hækkað minnst 10%-15% seinustu mánuðina, er þetta ennþá meiri skerðing..."

 

Með bréfi, dags. 7. nóvember 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 30. janúar 2002. Í greinargerðinni segir:

"Kærð er úrlausn á umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og sú úthlutunarregla um greiðslu sem miðast við meðaltal síðustu 12 mánuði, sem endar 2 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barnsins. Kærandi telur það vera mjög rangt að lægri tekjur á fyrri hluta viðmiðunartímabilsins skuli hafa þau áhrif að greiðslur í fæðingarorlofinu séu helmingi lægri en laun sín eftir launahækkun 1. maí 2001 en taka fæðingarorlofsins hófst 25. júní.

 

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði nema 80% af meðaltali heildarlauna á 12 mánaða samfelldu tímabili sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að með mánuðum í ákvæði þessu er átt við almanaksmánuði.

 

Í 3. mgr. 15. gr. ffl. er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris skuli byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá skattyfirvalda. Ef foreldri telur upplýsingar úr viðkomandi skrám ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar.

 

Ljóst er að við útreikning á greiðslum er óheimilt að líta til þess að laun hafi verið orðin hærri við lok viðmiðunartímabilsins en í byrjun þess. Ekki hafa verið lögð fram nein gögn um að upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK séu rangar. Útreikningur á greiðslum til kæranda var því í samræmi við ákvæði 13. og 15. gr. ffl. byggður á launum samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK á tímabilinu apríl 2000-mars 2001."

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 4. febrúar 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

 

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi útreikning á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi.

 

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofi og greiðslu fæðingarstyrks. Í framangreindu ákvæði laganna er skýrt tekið fram að greiðslur til þeirra sem uppfylla skilyrði til þess að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi skuli miðast við meðaltal heildarlauna á tólf mánaða samfelldu tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, í lögunum eru engin ákvæði sem heimila undantekningar.

 

Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að miða skuli við almanaksmánuði, þegar kemur til athugunar  hvert framangreint tólf mánaða viðmiðunartímabilið er.

 

Með hliðsjón af framangreindu er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

 Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir, hdl.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri

Jóhanna Jónasdóttir, læknir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta