Vel heppnuð rökræðukönnun um stjórnarskrána um helgina
Rökræðukönnun um endurskoðun stjórnarskrárinnar fór fram í Laugardalshöll um helgina. Þátttakendur voru á þriðja hundrað manns hvaðanæva af landinu en könnunin er hluti af almenningssamráði um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Tekin voru fyrir nokkur afmörkuð atriði s.s. ákvæði um embætti forseta Íslands, þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði, Landsdómur, breytingaákvæði stjórnarskrár, kjördæmaskipting og atkvæðavægi og alþjóðasamstarf.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:
„Nýjar aðferðir í samráði við almenning eru einn af lykilþáttunum í þeirri heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem nú stendur yfir. Við ákváðum því snemma í ferlinu að ráðast í þessa rökræðukönnun og ég held að það sé óhætt að segja að hún hafi tekist vel. Þátttakendur voru mjög virkir og við erum mjög þakklát fyrir að fólk hafi gefið sinn tíma og orku í þetta mikilvæga verkefni. Niðurstöðurnar verða kynntar formönnum stjórnmálaflokkanna og munu verða okkur leiðsögn í áframhaldandi vinnu.“
Rökræðukönnunin fór þannig fram að þátttakendum var skipt í hópa sem ræddu viðfangsefnin út frá rökum með og á móti ýmsum tillögum undir stjórn umræðustjóra. Að loknum umræðum um hvert efni gafst þátttakendum tækifæri á samtali við sérfræðinga í pallborðsumræðum. Viðhorfskönnun fór fram í upphafi fundar og einnig í lok hans og þannig var kannað hvort viðhorf fólks breyttust við að taka þátt í nánari skoðun, rýni og umræðum um viðfangsefnin.
Helstu niðurstöður könnunarinnar munu liggja fyrir á næstu vikum og verða þær sendar öllum þátttakendum og birtar opinberlega. Lokaskýrsla fundarins lítur dagsins ljós í janúar.
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands annaðist rökræðukönnunina í samstarfi við Öndvegisverkefni um lýðræðislega stjórnarskrárgerð og Center for Deliberative Democracy við Stanfordháskóla.
Þátttakendur í rökræðukönnuninni voru valdir úr hópi þeirra sem svöruðu viðhorfskönnun um stjórnarskrána sem gerð var síðastliðið sumar sem byggði á slembiúrtaki og netpanel Félagsvísindastofnunar.