Guðlaugur Þór stýrði fundi EES-ráðsins
Samvinna ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn og afleiðingar hans voru í brennidepli á fjarfundi EES-ráðsins í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra stýrði fundinum af hálfu EFTA-ríkjanna í EES. Í almennum umræðum um alþjóðamál var einnig rætt um áhrif faraldursins á heimsvísu, auk umræðna um Rússland sem og um tengsl loftslagsmála og öryggimála.
EES-ráðið, sem skipað er utanríkisráðherrum EES EFTA-ríkjanna og fulltrúum framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs ESB, kom saman til fundar í Brussel í dag. Fundurinn var sá fyrri af tveimur fundum ráðsins á þessu ári. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra stýrði fundinum af hálfu EFTA-ríkjanna innan EES þar sem Ísland er í formennsku á EFTA-hlið EES-samstarfsins um þessar mundir.
Á fundinum lýsti Guðlaugur Þór ánægju með að ástandið í ríkjum á EES-svæðinu færi batnandi eftir því sem bólusetningum vindur fram. „Bætt staða bólusetninga vekur vonir um að ástandið í ríkjunum komist fljótlega í eðlilegt horf. Góð samvinna á milli ríkja á svæðinu er afar mikilvæg í þessu sambandi. Sú ákvörðun ESB um að gera kröfu um útflutningsleyfi vegna bóluefna til EFTA-ríkjanna var því afar óheppileg. Sem betur fer var sú ákvörðun leiðrétt eftir kröftug viðbrögð okkar og mótmæli. Það er mikilvægt að tryggja að slíkar uppákomur endurtaki sig ekki,“ sagði Guðlaugur Þór.
Ráðherra benti jafnframt á að mikilvægt væri að liðka fyrir ferðalögum innan EES-svæðisins og frá þriðju ríkjum eftir því sem betur gengur að ná tökum á faraldrinum. Hann tók fram að EFTA-ríkin innan EES fagni tillögum ESB um samræmd bólusetningarvottorð og stefni að því að taka fyrirhugaðar reglur sambandsins um slík vottorð með skjótum hætti upp í EES-samninginn til að tryggja að þær geti tekið gildi samhliða innan alls EES-svæðisins.
Guðlaugur Þór ítrekaði einnig þá áherslu sem lögð er á að tryggja möguleika allra viðkomandi aðila frá EFTA-ríkjunum innan EES til að taka frá upphafi þátt í samstarfsáætlunum ESB á nýju tímabili 2021-2027.
Á fundinum ítrekaði Guðlaugur Þór enn á ný að tveggja stoða kerfi EES-samningsins værigrundvallarforsenda EES samstarfsins sem standa yrði vörð um. Hann benti á að á undanförnum árum hafi orðið sífellt erfiðara að finna lausnir sem byggjast á tveggja stoða kerfinu með upptöku gerða í EES-samninginn sem kveða á um tilfærslu valdheimilda frá aðildarríkjum ESB til stofnana sambandsins. Mikilvægt væri að áfram yrði haldið að leita skapandi og praktískra leiða til að tryggja að tveggja stoða kerfið sé virt.
Í umræðum um fyrirhugaða upptöku sérstakrar tilskipunar um innistæðutryggingar í EES-samninginn (DGS III) áréttaði utanríkisráðherra að ekki kæmi til greina að taka gerðina upp í samninginn nema fyrir liggi að ekki verði ríkisábyrgð á innstæðutryggingum. „Á undanförnum árum hef ég ítrekað tekið málið upp við fulltrúa sambandsins og áréttað ég muni aldrei standa að því að Ísland samþykki á vettvangi EES samstarfsins upptöku og innleiðingu þessarar tilskipunar nema fyrir liggi að hún feli ekki í sér ríkisábyrgð á bankainnistæður. Í því sambandi nægir að vísa til niðurstöðu Icesave-málsins,“ sagði Guðlaugur Þór
Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur á undanförnum árum ítrekað bent fulltrúum ESB á að verulegt ójafnvægi sé í samningi Íslands við ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur og að talsvert vanti upp á að íslenskar sjávarafurðir njóti fulls tollfrelsis við innflutning til ESB. Guðlaugur tók þessi mál upp á nýjan leik á fundinum og lagði ríka áherslu á að úr þessu verði að bætt. Í því samhengi sagði hann að erfitt væri að útskýra framlag Íslands til uppbyggingarsjóðs EES á meðan helsta útflutningsvara okkar á innri markað er tollalögð. Þetta þyrfti að hafa í huga í komandi viðræðum um nýjan sjóð.
Myndbandsávarp utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í aðdraganda fundar.