Ísland verður þátttakandi í samvinnuverkefni um grænni ríkisrekstur
Ísland er meðal 39 þjóða sem munu eiga með sér samstarf um grænni ríkisrekstur í gegnum vettvanginn “Greening Government Initiative”. Þetta var tilkynnt á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP26 í Glasgow í dag. Þátttakan felst í að deila árangursríkum aðferðum og leiðum til að gera ríkisrekstur umhverfisvænni.
„Það er mjög mikilvægt að horfa á leiðandi hlutverk ríkisaðila í grænni umbyltingu samfélagsins og nýta öll þau tækifæri sem gefast til að auka samstarf og læra af hvort öðru. Með stefnumörkun um sjálfbær innkaup ríkisaðila og sameiginlegri vegferð ríkja um heim allan viljum við hraða grænni þróun ríkisrekstrar, styrkja nýsköpun og samstarf við markaðinn og auka skriðþunga í loftslagsmálum.“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra af tilefninu.
„Með því að vera í fararbroddi gefast tækifæri til að auka þekkingarstörf á Íslandi og styðja við loftslagsvæna nýsköpun,” sagði Bjarni enn fremur.