Mál nr. 16/2015
Hinn 3. mars 2016 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 16/2015:
Beiðni um endurupptöku
héraðsdómsmáls nr. Y-8/2014;
Dragon eignarhaldsfélag ehf.
gegn
Bryndísi Guðmundsdóttur
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR:
I. Beiðni um endurupptöku
Með erindi dagsettu 16. desember 2015 fóru Hlédís Sveinsdóttir og Gunnar Árnason fyrir hönd Dragon eignarhaldsfélags ehf. þess á leit að mál nr. Y-8/2014, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 17. mars 2015, yrði endurupptekið.
Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um beiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Elín Blöndal og Þórdís Ingadóttir.
II. Málsatvik
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. Y-8/2014, dagsettum 17. mars 2015, var kröfu endurupptökubeiðanda hafnað um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að stöðva framkvæmd fjárnáms hjá gagnaðila. Var fjárnámsbeiðni endurupptökubeiðanda studd við skuldabréf sem gagnaðili hafði gefið út til Gunnars Árnasonar, sem hafði síðan áritað skuldabréfið um framsal til endurupptökubeiðanda. Með nefndum úrskurði héraðsdóms var kröfu endurupptökubeiðanda hafnað á þeirri forsendu að slíkur vafi væri um réttmæti kröfu endurupptökubeiðanda á hendur gagnaðila samkvæmt nefndu skuldabréfi að ekki væri fært að gera fjárnám á grundvelli þess án undangengins dóms eða sáttar.
Endurupptökubeiðandi skaut úrskurðinum til Hæstaréttar með kæru 31. mars 2015 sem staðfesti úrskurð héraðsdóms með dómi 20. apríl 2015 í hæstaréttarmáli nr. 269/2015. Fram kemur í dóminum að vegna tengsla forsvarsmanns endurupptökubeiðanda við Gunnar Árnason, en framkvæmdastjóri og stjórnarmaður endurupptökubeiðanda væri maki Gunnars, yrði að leggja grandsemi endurupptökubeiðanda til grundvallar um atvik sem Gunnari var kunnugt um. Yrði félagið því að sæta mótbárum gagnaðila. Með þessari athugasemd var niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna, þar á meðal að fyrirliggjandi tölvubréfasamskipti milli Gunnars og gagnaðila gæfu til kynna að þau hefðu litið svo á að skuld samkvæmt skuldabréfinu hafi verið gerð endanlega upp með tiltekinni greiðslu þó skuldabréfið hafi ekki verið áritað um hana.
III. Grundvöllur beiðni
Krafist er endurupptöku úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur með vísan til 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þess er sérstaklega getið að samhliða því að þessi beiðni er lögð fram hafi verið lagt erindi fyrir endurupptökunefnd þar sem æskt er endurupptöku á dómi Hæstaréttar í máli nr. 269/2015 sem kveðinn var upp 20. apríl 2015.
Í endurupptökubeiðni voru greindar málsástæður er lutu að því að skilyrðum 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála væri fullnægt. Fjallað var um gögn sem lögð voru fram af hálfu gagnaðila fyrir héraðsdómi, færð fram mótmæli við sönnunargildi þeirra og talið að á þeim verði ekki byggt gegn mótmælum af hálfu endurupptökubeiðanda. Þá var talið að gögn er lytu að ágreiningsmáli sem forsvarsmaður endurupptökubeiðanda átti hlut að fyrir Persónuvernd gæfu tilefni til að draga óhlutdrægni viðkomandi héraðsdómara í efa vegna persónulegra tengsla við formann stjórnar Persónuverndar. Loks var rakið á hvern hátt stórfelldir hagsmunir endurupptökubeiðanda væru í húfi.
III. Niðurstaða
Endurupptökubeiðni endurupptökubeiðanda er studd við 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála og lýtur að endurupptöku á úrskurði Héraðsdóms Reykavíkur sem kveðinn var upp 17. mars 2015.
Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXVI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 167. gr. laganna getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að héraðsdómur, sem hefur ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, verði endurupptekinn til nýrrar meðferðar í héraði ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt.
Samkvæmt framangreindu ákvæði er hægt að óska eftir endurupptöku héraðsdóms sem hefur ekki verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur er liðinn. Af ákvæðinu leiðir að ekki er grundvöllur til að verða við beiðni um endurupptöku dóms héraðsdóms sem Hæstiréttur hefur tekið til úrlausnar í kjölfar kæru eða áfrýjunar. Um endurupptöku slíkra mála fer samkvæmt XXVII. kafla laga um meðferð einkamála. Í beiðninni kemur fram að endurupptökubeiðandi hafi skotið úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar Íslands með kæru dagsettri 31. mars 2015. Hæstiréttur kvað síðan upp dóm 20. apríl 2015 í hæstaréttarmáli nr. 269/2015 í samræmi við 150. gr. laga um meðferð einkamála. Engar forsendur eru þannig að lögum til að endurskoða niðurstöðu héraðsdóms frekar. Þegar af þeirri ástæðu ber að vísa beiðni þessari frá endurupptökunefnd.
ÚRSKURÐARORÐ
Beiðni Dragon eignarhaldsfélags ehf. um endurupptöku máls nr. Y-8/2014, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 17. mars 2014, er vísað frá endurupptökunefnd.
Björn L. Bergsson formaður
Elín Blöndal
Þórdís Ingadóttir