ESB boðar aðgerðir vegna orkuskorts og hækkandi raforkuverðs
Að þessu sinni er fjallað um:
- ráðstafanir Evrópusambandsins (ESB) vegna orkuskorts og hækkandi raforkuverðs
- haustáætlun framkvæmdastjórnar ESB
- tillögur framkvæmdastjórnar ESB um Evrópska umönnunarstefnu
- samkomulag um efni tilskipunar um viðunandi lágmarkslaun innan ESB
- tillögu framkvæmdastjórnar ESB um niðurfellingu samnings við Rússland sem greiðir fyrir útgáfu vegabréfsáritana
- fund ráðherra sem bera ábyrgð á samheldnismálum í ESB
- fund heilbrigðisráðherra ESB
- forgangsáhrif ESB-réttar og réttarframkvæmd í Póllandi
- starfsáætlun norskra stjórnvalda vegna ESB- og EES-mála fyrir starfsárið 2022-2023
- ársskýrslur Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA)
Ráðstafanir Evrópusambandsins (ESB) vegna orkuskorts og hækkandi raforkuverðs
Áskoranir vegna yfirvofandi orkuskorts og hækkandi raforkuverðs, sem er ein birtingarmynd árásarstríðs Rússlands gagnvart Úkraínu, eru meðal mikilvægustu mála á vettvangi ESB nú þegar vetur nálgast með tilheyrandi aukinni eftirspurn eftir raforku, meðal annars til húshitunar. Beðið hefur verið eftir tillögum framkvæmdastjórnar ESB um hvernig tryggja eigi orkuframboð og stemma stigu við stöðugt hækkandi orkuverði. Áður hafði verið gert ráð fyrir að fyrirætlanir framkvæmdastjórnarinnar í þessu efni yrðu kynntar í stefnuræðu (State of the union speech) Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, sem hún mun flytja á Evrópuþinginu næstkomandi miðvikudag, 14. september. Mjög hefur hins vegar verið kallað eftir því m.a. af forseta leiðtogaráðs ESB, Charles Michel, að tillögugerð um aðgerðir verði flýtt eins og kostur er. Síðastliðinn miðvikudag, 7. september, steig forseti framkvæmdastjórnarinnar síðan fram og gaf yfirlýsingu um málið.
Í yfirlýsingunni kom fram að frá því að stríðsátökin hófust fyrir hálfu ári síðan hefði ESB aukið viðbúnað sinn til muna og með því dregið úr ítökum Rússlands á orkumarkaði í Evrópu. Viðbúnaður ESB hafi snúist um að draga úr eftirspurn, auka fjölbreytni orkugjafa og fjárfestingar í endurnýtanlegum orkugjöfum (RePowerEU). Þegar hafi verið dregið úr eftirspurn og orkuforða safnað með þeim árangri að sameiginlegar orkuforðageymslur ESB væru nú með 82% afkastagetu sem væri umfram áætlanir, en þrátt fyrir það væri ljóst að gera þyrfti betur.
Í yfirlýsingunni kom fram að enda þótt aðgerðir Rússlands á gasmarkaði væru stór orsakavaldur fyrir hækkandi orkuverði og orkuskorti þá væru fleiri þættir að hafa áhrif á raforkumarkað um þessar mundir eins og loftlagsbreytingar. Vatnsafl hafi dregist saman vegna þurrka í Evrópu auk þess sem framboð á kjarnorku í ESB væri minna en verið hefði.
Í yfirlýsingu sinni kynnti Ursula von der Leyen hugmyndir að fimm aðgerðum til að takast á við hækkandi orkuverð með það að markmiði að vernda viðkvæma neytendur og fyrirtæki og boðaði jafnframt að framkvæmdastjórnin myndi leggja tillögurnar fram formlega í næstu viku.
Aðgerðirnar eru eftirfarandi:
- Að fundnar verði leiðir til að spara raforku á skynsaman hátt með því að fletja út álagstoppa sem knýja raforkuverð upp. Í þessu skyni hyggst framkvæmdastjórnin leggja til að lögfest verði skylda til að draga úr raforkunotkun á álagstímum.
- Að þak verði sett á tekjur fyrirtækja sem framleiða raforku með litlum tilkostnaði og að óvæntur hagnaður þeirra í núverandi aðstæðum verði nýttur til að styðja viðkvæm heimili og fyrirtæki.
- Að þak verði sett á tekjur jarðefnaeldsneytisfyrirtækja og að óvæntur hagnaður þeirra verði nýttur, með sama hætti og óvæntur hagnaður raforkufyrirtækjanna, til að styðja við viðkvæm heimili og fyrirtæki og til að fjárfesta í hreinum staðbundnum orkugjöfum.
- Að stuðningur verði veittur til orkuveitufyrirtækja í formi aðgangs að lausafé og ábyrgða til takast á við markaðssveiflur og til að tryggja stöðugleika á markaði til framtíðar.
- Að verðþak verði sett á rússneskt gas til að draga úr tekjum Rússlands og um leið getu landsins til að fjármagna stríðsreksturinn í Úkraínu.
Tillögur forseta framkvæmdastjórnar ESB komu til umræðu á fundi orkumálaráðherra ESB sem haldinn var í dag, 9. september. Í tilkynningu sem birt var að fundinum loknum kom fram að það væru fjögur meginsvið sem aðildarríkin ætlast til að framkvæmdastjórnin grípi til aðgerða á og ríma þær áherslur að meginstefnu saman við framangreindar hugmyndir að aðgerðum, þ.e. að böndum verði komið á óvæntan hagnað raforkuframleiðenda, að skoðaðir verði möguleikar á því að verðþak verði sett á gas, að gripið verði til ráðstafana til að draga úr raforkuþörf og úrræði innleidd til að sporna við lausafjárvanda.
Ráðherrarnir hvöttu framkvæmdastjórn ESB til skjótra aðgerða á þessum sviðum.
Eins og áður segir er búist er við formlegum tillögum framkvæmdastjórnar ESB í næstu viku.
Haustáætlun ESB og helstu málefni á komandi misseri
Framkvæmdastjórn ESB birtir reglulega uppfært yfirlit yfir tillögur að nýrri Evrópulöggjöf og öðrum frumkvæðismálum sem áætlað er að teknar verða til umræðu og afgreiðslu í framkvæmdastjórninni á komandi misseri. Nýjasta yfirlitið tekur til tímabilsins frá september til desember 2022 og var birt 19. júlí sl. Skipunartími framkvæmdastjórnar Ursulu von der Leyen er nú rúmlega hálfnaður og margar gerðir í stærstu stefnumálum hennar eru því að líta dagsins ljós á næstunni. Í yfirlitinu er greint frá fjölmörgum nýjum gerðum, þ.e. löggjafartilllögum, áætlunum og aðgerðaplönum sem margar varða EES-samninginn og samvinnu Íslands við ESB.
Eins og rakið er að framan þá leikur ekki vafi á því að orkumál, orkuöflun og gríðarlegar áskoranir vegna hækkandi orkuverðs verða meðal meginviðfangsefna sem Evrópusambandið stendur frammi fyrir á komandi vetri. Þess má vænta að erfiðar samningaviðræður séu framundan milli aðildarríkjanna á vettvangi ráðherraráðs ESB og innan Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnarinnar um efnislegt innihald löggjafarpakkans um umhverfismál sem nefndur hefur verið „Fit for 55“. Er viðbúið að umræðan á vettvangi sambandsins um loftlagsmálin muni litast af orkukreppunni og fylgist sendiráðið í Brussel náið með framvinnu þeirra mála.
Meðal annarra mála sem verða til umræðu hjá sambandinu á komandi misseri má nefna:
- fæðuöryggi; landbúnaðarráðherrar ESB munu hittast tvisvar í þessum mánuði, í næstu viku í Prag og í Brussel stuttu síðar til umræðu um þessi mál,
- aðfangakeðjur; tillögur eru í pípunum um aukin lagaleg úrræði til að tryggja aðföng í neyðaraðstæðum,
- fjölmiðlafrelsi; jafnvægið á milli lagatakmarkana til að tryggja samkeppni og persónuvernd og nýsköpunar og framþróunar á vettvangi nútíma fjölmiðlunar verða í brennidepli,
- netöryggismál; framundan er lokafrágangur nýrrar lagasetningar um netöryggi í mikilvægum innviðum auk þess sem í undirbúningi er ný lagasetning um netöryggiskröfur í ýmsum nettengdum varningi sem almenningur notar.
- viðskipamál; von er löggjafartillögum frá framkvæmdastjórn ESB annars vegar um bann við viðskiptum með vörur sem framleiddar eru af verkafólki í nauðungarvinnu og hins vegar löggjöf sem mun auðvelda ESB að beita efnahagslegum refsiaðgerðum þegar tilefni þykir til,
- fjármálaþjónusta; endurskoðun reglna um áhættustjórnun og innstæðutryggingar verður til umræðu,
- félags- og heilbrigðismál; evrópsk umönnunarstefna, tilskipun um lágmarkslaun o.fl., sbr. umfjöllun hér síðar í Vaktinni.
Greint verður nánar frá efni og framgangi einstakra mála er varða hagsmuni Íslands sérstaklega hér í Brussel-vaktinni eftir því sem þeim vindur fram á vettvangi framkvæmdastjórnarinnar, Evrópuþingsins og ráðsins.
Tillögur framkvæmdastjórnar ESB um evrópska umönnunarstefnu
Í vikunni kynnti framkvæmdastjórnin „European Care Strategy“ eða evrópska umönnunarstefnu. Stefnunni er ætlað að tryggja gæði og aðgengi að umönnun á viðráðanlegu verði á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, auk þess að tryggja bætt starfsskilyrði þeirra sem starfa í greininni.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, boðaði framsetningu slíkrar stefnu í stefnuræðu sinni í fyrra með það fyrir augum að stuðla að bættum lífskjörum Evrópubúa og auknu jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Með stefnunni er framkvæmdastjórnin að bregðast við áskorunum frá Evrópuþinginu og hagsmunaaðilum um að setja fram stefnumótandi og heildstæða nálgun vegna langtímaumönnunar en kórónuveirufaraldurinn leiddi í ljós almennar brotalamir á kerfisbundnu fyrirkomulagi umönnunar. Stefnunni er ætlað að draga fram samfélagslegt og efnahagslegt mikilvægi umönnunargeirans en talið er að árangursríkt fyrirkomulag langtímaumönnunar skipti sköpum til að bæta lífskjör borgaranna og viðhalda nauðsynlegri félagslegri vernd.
Í stefnunni er einnig boðuð endurskoðun Barselóna-markmiðanna ECEC (Early Childhood Education and Care) sem voru sett fram fyrir 20 árum. Þátttaka í menntun á forskólaaldri er talin hafa jákvæð áhrif á þroska barna og hjálpar til við að draga úr hættu á félagslegri einangrun og fátækt.
Ný viðmið hafa verið sett fram í þessu efni sem aðildarríkin eiga að stefna að því að ná fyrir 2050;
- 50% barna undir 3ja ára aldri séu í leikskóla (Early Childhood care)
- 96% barna frá 3ja ára aldri að skólaaldri séu í leikskóla
(var áður 30% og 90%)
Þá er því beint til aðildarríkjanna að tryggja að þessi þjónusta sé vönduð, á viðráðanlegu verði og aðgengileg öllum hvort heldur sem er í þéttbýli eða dreifbýli.
Lögbundinn réttur ætti að vera til leikskólavistar helst þannig að réttur til leikskóla taki við af launuðu leyfi foreldra. Tryggja þurfi nægilega langan vistunartíma – til þess að foreldrar geti tekið virkan þátt á vinnumarkaði og aðildarríkin eru sérstaklega hvött til þess að stuðla að jafnri þátttöku kynjanna og styðja við fjölskylduvænt vinnufyrirkomulag.
Hvað varðar langtímaumönnun aldraðra og fatlaðra leggur framkvæmdastjórnin til að aðildarríkin setji fram aðgerðaáætlun sem miði að því að betri og aðgengilegri umönnun sé í boði fyrir alla sem á henni þurfa að halda. Þannig þurfi að:
- Tryggja að umönnun sé heildstæð, tímanleg og á viðráðanlegu verði, þannig að fólk með langtímaþjónustuþarfir geti lifað mannsæmandi lífi.
- Auka þurfi fjölbreytni og framboð þjónustu svo sem heimaþjónustu, samfélagslegrar þjónustu, búsetuúrræði o. fl. Tryggja þurfi að þjónusta sé í boði bæði í þéttbýli og einnig í dreifðum byggðum. Koma þurfi á úrræðum sem nýti stafrænar lausnir og sjálfvirkni og tryggja aðgengi fólks með fötlun.
- Auka kröfur sem gerðar eru til menntunar og þjálfunar starfsfólks í umönnun og setja þjónustustaðla.
- Styðja við þá sem eru í ólaunuðum umönnunarstörfum, sem eru gjarnan ættingjar þeirra sem þurfa á umönnun að halda (oftast konur) með þjálfun, ráðgjöf og sálrænum og fjárhagslegum stuðningi.
- Tryggja fjármagn – m.a. úr sjóðum ESB til að byggja upp úrræði.
Til þess að bæta vinnuskilyrði og þjálfun starfsfólks í umönnunargeiranum og laða fleiri, einkum karla, að þessari tegund starfa er lagt til að aðildarríkin:
- Styðji við kjarasamninga og viðræður aðila vinnumarkaðarins með það í huga að bæta laun og starfsskilyrði.
- Tryggja vinnuvernd og öryggi starfsmanna.
- Komi á símenntun og þjálfun fyrir starfsmenn.
- Leitist við að takast á við staðalmyndir kynjanna t.d. með kynningarherferðum.
- Fullgildi og innleiði samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um starfsfólk sem sinnir störfum á heimili í atvinnuskyni.
Framkvæmdastjórnin hyggst styðja við framangreint með ýmsum leiðum m.a. með því að stuðla að umræðu um félagslega þjónustu á vettvangi ESB og stuðla að samstarfi um mat á hæfni og færni auk þess að styrkja rannsóknir til að leggja mat á félagslegt og efnahagslegt gildi vinnu og starfsskilyrða i umönnunargeiranum. Þá verður stutt við markmiðin með fjárveitingum úr sjóðum ESB auk þess sem settir verða fram hlutlægir mælikvarðar til þess að meta árangur ríkjanna í þessu efni.
Samkomulag um efni tilskipunar um viðunandi lágmarkslaun innan ESB
Í júnímánuði sl. náðist samkomulag í þríhliða viðræðum framkvæmdastjórnar ESB, ráðherraráðsins og Evrópuþingsins um efni væntanlegrar tilskipunar um viðunandi lágmarkslaun í aðildarríkjunum.
Gert er ráð fyrir því atkvæðagreiðsla um málið fari fram í þinginu og ráðinu nú í september og er gert ráð fyrir því að tillagan verði samþykkt.
Tilskipunin byggir á 3. gr. sáttmála um Evrópusambandið og sjöttu meginreglu Evrópustoðar félagslegra réttinda þar sem mælt er fyrir um að tryggja skuli sanngjörn lágmarkslaun, gagnsæi og fyrirsjáanleika launaákvarðana.
Tillagan hefur verið til umræðu innan ESB frá því í október 2020 þegar upprunaleg tillaga framkvæmdastjórnarinnar var lögð fram en sú tillaga reyndist talsvert umdeild. Launasetning og laun eru mjög mismunandi milli ríkja ESB og í tillögunni er tekið fram að með henni sé hvorki stefnt að því að samræma reglur um ákvörðun lágmarkslauna né fjárhæð þeirra, heldur sé tilgangurinn að leitast við að tryggja nægjanleika lágmarkslauna hvarvetna á svæðinu, meðal annars með því að:
- Stuðla að því kjarasamningar verði grundvöllur launasetningar, þar sem launþegar eða samtök þeirra gera samninga við vinnuveitendur eða samtök vinnuveitenda um starfskjör og afleidd réttindi. Sú stefnumótun byggir á athugunum sem sýna að lágmarkslaun í þeim ríkjum Evrópu þar sem ákvörðun launa er byggð á kjarasamningum eru almennt hærri en í löndum þar sem lágmarkslaun eru lögbundin auk þess sem þar er minni munur á lágmarkslaunum og meðallaunum.
- Tryggja reglulega uppfærslu fjárhæðar lágmarkslauna, í þeim ríkjum þar sem lágmarkslaun eru lögbundin með skýrum viðmiðum t.d. með tengingu við vísitölur framfærslukostnaðar.
- Tryggja að launþegar hafi virkan aðgang að upplýsingum og réttarvernd við ákvörðun launa.
- Að aðildarríkin hafi virkt eftirlit með því að lágmarkslaun séu nægileg og að viðurlög verði sett við brotum á þessu sviði. Þá er gert ráð fyrir að framkvæmdastjórnin taki saman skýrslu annað hvert ár um stöðu mála á þessu sviði.
Forsendur tillögunnar eru meðal annars þær að nægjanleg lágmarkslaun, séu til hagsbóta fyrir alla, ekki eingöngu launþega og atvinnurekendur heldur fyrir samfélagið allt og til þess fallin að tryggja hagsmuni viðkvæmra hópa á vinnumarkaði, þ.e. kvenna, ungs fólks, fatlaðs fólks, lítið menntaðra auk farandverkamanna en þessir hópar eru almennt taldir líklegri til þess að vera í láglaunastörfum.
Í tillögunni er lögð áhersla á að tekið verði tillit til mismunandi stöðu aðildarríkjanna á þessu sviði og að mótaðar verði aðgerðaráætlanir í þeim ríkjum þar sem staðan er verst til auka hlut kjarasamninga í launasetningu.
Málið er á forgangslista ríkisstjórnar Íslands vegna hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB vegna aðildar Íslands að EES-samningnum. Endanlegt mat á því hvort væntanleg tilskipun teljist falla undir EES-samninginn liggur ekki fyrir, en fyrsta mat sérfræðinga ESB og EFTA er að tilskipunin falli ekki undir efnislegt og landfræðilegt gildissvið EES-samningsins. Hvað sem því líður er ljóst að efni tilskipunarinnar, einkum hvað varðar kröfur viðunandi lágmarkslaun, eru allrar athygli verð.
Tillaga framkvæmdastjórnar ESB um niðurfellingu samnings við Rússland sem greiðir fyrir útgáfu vegabréfsáritana
Hinn 6. september sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu þess efnis að samningur ESB við Rússland, sem greiðir fyrir útgáfu vegabréfsáritana (e. Visa Facilitation Agreement with Russia), verði felldur úr gildi að fullu. Samningurinn hefur þegar verið felldur niður gagnvart rússneskum ráðamönnum og viðskiptamönnum.
Tillagan var lögð fram í kjölfar niðurstöðu óformlegs fundar utanríkisráðherra ESB þann 31. ágúst sl. en niðurstaðan var sú að Evrópusambandið geti ekki haldið úti samningi sem þessum við ríki sem rekur eyðileggjandi utanríkisstefnu, gerir hernaðarárás á umsóknarríki að ESB og virðir alþjóðaskuldbindingar að vettugi. ESB hefur gert samskonar samning við örfá önnur ríki en forsenda slíkra samninga er gagnkvæmt traust og virðing.
Tillagan var síðan samþykkt í dag, 9. september, í ráðherraráði ESB og hefur hún í för með sér að útgáfa vegabréfsáritana til rússneskra ferðamanna fer eftir almennum ákvæðum reglugerðar um vegabréfsáritanir (e. VISA CODE), þ.e. áritanagjaldið hækkar, málsmeðferðartími lengist og erfiðara verður fyrir Rússa að fá útgefna vegabréfsáritun sem gildir fyrir margar komur (e. multiple entry visa).
Um er að ræða tvíhliða samning ESB við Rússland sem Ísland er ekki beinn aðili að. Ísland er á hinn bóginn hluti af Schengen-svæðinu og í Schengen-samningnum kemur fram að Ísland hafi með þátttöku sinni í Schengen-samstarfinu skuldbundið sig til að fylgja sameiginlegri stefnu í málefnum sem varða för fólks og þá sérstaklega með tilliti til reglna um vegabréfsáritanir.
Ráðherrafundur um samheldnistefnu ESB
Dagana 1. – 2. september stóðu Tékkar, sem nú fara með formennsku í ráðherraráði ESB, fyrir óformlegum ráðherrafundi í Prag þar sem samheldnistefna ESB og byggðamál voru rædd. Innviðaráðherra var boðið að sækja fundinn en vegna anna ráðherrans sóttu ráðuneytisstjóri innviðaráðuneytisins Ragnhildur Hjaltadóttir og aðstoðarmaður ráðherrans, Sigtryggur Magnason, fundinn auk fulltrúa utanríkisráðuneytisins, Bergþórs Magnússonar, sem á sæti í stjórn Uppbyggingarsjóðs EES.
Fyrir fundinum lá að ræða hvernig mætti ná betri árangri með þeim fjármunum sem varið er til samheldnistefnu sambandsins, samræma aðgerðir ýmissa aðgerðaáætlana, skerpa áherslur og draga úr tvíverknaði á milli aðila og hvernig betur mætti nýta þá fjármuni sem varið er til samheldnissjóðsins til að bregðast við aðsteðjandi krísum eins og kórónuverufaraldrinum og orkukreppunni í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
Almennt töldu fundarmenn að samheldnissjóðurinn hefði gegnt mikilvægu hlutverki þegar bregðast þurfti við aðsteðjandi krísum og hefði t.d. komið að góðu gagni í kórónuveirufaraldrinum og við að taka á móti milljónum flóttamanna frá Úkraínu. Kominn væri tími til þess að snúa sér að grunnverkefni sjóðsins sem er að draga úr efnahagslegum og félagslegum ójöfnuði í Evrópu með því að styðja við langtíma fjárfestingu, styrkja byggðalög og uppbyggingu þeirra. Í úttekt um árangur samheldnisstefnunnar kom fram að hver evra sem varið hefði verið í málaflokkinn hefði skilað 2,7 evrum í auknu framlagi til landsframleiðslu sambandsins.
Á fundinum gerði Ragnhildur grein fyrir byggðaáætlun Íslands og hvernig markvisst væri unnið að því að samþætta hana við önnur verkefni ráðuneytisins svo sem uppbyggingu samgönguinnviða. Einnig væri markvisst unnið að aðkomu annarra ráðuneyta og að tengja og styðja byggðaáætlun við heilbrigðisþjónustu, menntamál og atvinnumál. Með auknum samtakamætti væri hægt að ná betri árangri.
Með skírskotun til orkukreppunnar og þeirra möguleika á jarðhitanýtingu sem er að finna í viðtökuríkjum Uppbyggingarsjóðs EES sagði fulltrúi Íslands einnig frá reynslu Íslands af hagnýtingu jarðhita í kjölfar orkukreppunnar á áttunda áratug síðustu aldar. Á þeim tíma voru flest hús á Íslandi kynt með olíu. Hátt olíuverð leiddi til þess að afar hagkvæmt var að nýta jarðhita til húshitunar. Orkukreppan leiddi því til hraðrar uppbyggingar á hitaveitum í eigu sveitarfélaga og miðlægrar miðlunar á jarðvarma til upphitunar húsa. Mikil þekking hefur því myndast á Íslandi við nýtingu jarðvarma og starfa mörg fyrirtæki á því sviði. Í dag eru nær öll hús á Íslandi hituð með jarðvarma auk þess sem hann er nýttur til umfangsmikillar framleiðslu á raforku. Mikil tækifæri leynast víða í nýtingu þessarar umhverfisvænu orku og á Íslandi er að finna þekkingu til að færa sér hana í nyt. Á fundinum gafst mikilvægt tækifæri til að segja frá reynslu Íslendinga á þessu sviði og benda á leiðir til að nýta þekkingu þeirra fyrir atbeina Uppbygginarsjóðs EES. Góður rómur var gerður að þeirri ábendingu og í lokaorðum sínum á ráðstefnunni tók Elisa Ferreira, framkvæmdastjóri ESB á sviði samheldnisstefnu þess, sérstaklega fram að innlegg Íslands á fundinum hefði verið afar gagnlegt.
Fundur heilbrigðisráðherra ESB
Heilbrigisráðherrar ESB komu saman á óformlegum fundi í vikunni í Prag, en Tékkar fara nú eins og áður segir með formennsku í ráðherraráði sambandsins. Heilbrigðisráðherrum Íslands, Noregs og Sviss var boðið að sækja fundinn. Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins, sótti fundinn fyrir Íslands hönd í forföllum ráðherra.
Dagskrá fundarins var tileinkuð þremur málefnum sem Tékkar leggja áherslu á í formennskutíð sinni. Í fyrsta lagi stuðning Evrópuríkja við heilbrigðiskerfi Úkraínumanna, í öðru lagi mikilvægi bólusetninga gegn smitsjúkdómum og hvernig vinna megi gegn andstöðu gegn bólusetningum og í þriðja lagi baráttunni við krabbamein.
Í ræðu fulltrúa Íslands á fundinum kom fram skýr stuðningur við tillögur Tékka um að styðja við endurreisn úkraínska heilbrigðiskerfisins eins og kostur væri. Þá var tilkynnt um nýtt stuðningsverkefni af hálfu íslenska fyrirtækisins Össurar sem þekktast er fyrir framleiðslu sína á gervilimum. Verkefnið er unnið í samstarfi við úkraínska sjálfseignarstofnun og samtök sem vinna á þessu sviði, en reiknað er með að í kringum 1000 einstaklingar þurfi á gervilimum að halda í Úkraínu nú. Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að styðja verkefnið fjárhagslega.
Framkvæmdastjórn ESB notaði tækifærið í Prag, meðan ráðherrar voru á svæðinu, til að kalla saman fund í stjórn HERA (Health Emergency Preparedness and Response Authority). Til umræðu voru samningar um bóluefnakaup með fulltrúum framleiðanda frá Bavarian Nordic um bóluefni gegn Apabólu og við BioNTech, Pfizer og Moderna um umfram-magn af bóluefnum gegn Covid-19 sem ekki er lengur þörf fyrir. Framkvæmdastjórnin hefur legið undir gagnrýni aðildarríkja vegna samninganna og hefur um nokkurt skeið átt í viðræðum við þá um aukinn sveignleika til framtíðar. Sagt var frá þessari gagnrýni í Vaktinni 10. júní sl. Á fundinum náðist samkomulag um hagræðingu og aukinn sveigjanleika til aðildarríkja m.a. um að framboð bóluefna verður aðlagað eftirspurn.
Sjá nánar um fundinn og niðurstöður í fréttatilkynningu sem gefin var út að fundi loknum.
Forgangsréttur Evrópuréttar og réttarframkvæmd í Póllandi
Ný rannsókn sem unnin var að beiðni laganefndar Evrópuþingsins (JURI committee) bendir til að tiltekið fráhvarf hafi orðið frá meginreglunni um forgangsáhrif Evrópuréttar gangvart landsrétti í dómaframkvæmd pólskra dómstóla eftir að breytingar voru gerðar á skipan dómsvaldsins þar í landi.
Rannsóknin er innlegg í umræðu um þróun réttarríkisins innan einstakra aðildarríkja Evrópusambandsins en framkvæmdastjórn ESB og Evrópuþingið hafa einna helst lýst áhyggjum af þróun mála í Póllandi annars vegar og Ungverjalandi hins vegar.
Norsk stjórnvöld kynna starfsáætlun vegna ESB- og EES- mála fyrir starfsárið 2022-2023
Norska ríkisstjórnin kynnti þann 11. júlí sl. starfsáætlun sína vegna ESB- og EES-mála fyrir starfsárið 2022-2023. Í starfsáætluninni er mikilvægi Evrópusamvinnunnar og EES-samningsins fyrir norska hagsmuni undirstrikað og áherslumál norskra stjórnvalda í hagmunagæslunni gagnvart ESB skilgreind. Starfsáætlunin þjónar áþekku hlutverki og forgangslisti íslenskra stjórnvalda í hagmunagæslu gagnvart ESB vegna aðildar Íslands að EES-samningnum fyrir árið 2022-2023 sem ríkisstjórn Íslands samþykkti 10. júní sl. og greint frá í vaktinni.
Ársskýrslur Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA)
Ársskýrslur EFTA og ESA fyrir árið 2021 komu út í júlí síðastliðnum.
Í ársskýrslu ESA er fjallað um helstu samningsbrotamál sem voru til meðferðar hjá stofnuninni á árinu gegn Íslandi, Noregi og Liechtenstein, ríkisaðstoðarmál, samkeppnismál og dómsmál sem rekin voru í tengslum við málsmeðferð ESA o.fl.
Í ársskýrslu EFTA er fjallað um starfsemi EFTA í víðu samhengi, fundi EFTA-ráðsins og EES-ráðsins þar sem utanríkisráðherrar EFTA ríkjanna sitja og móta pólitíska stefnu samtakanna. Fjallað er um rekstur EES-samningsins og framlög EES/EFTA-ríkjanna í uppbyggingasjóði EES, gerð fríverslunarsamninga við ríki utan ESB o.fl.
***
Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.
Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.
Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].