Fundur svæðisnefndar WHO í Evrópu í Serbíu
Fimmtugasti og sjöundi fundur svæðisnefndar WHO í Evrópu var haldinn í Belgrad í síðustu viku. Fundurinn var vel sóttur að venju og sendu öll 53 aðildarríki svæðisins fulltrúa sína til höfuðborgar Serbíu. Þar voru einnig staddir sendimenn fjölmargra alþjóðasamtaka, alþjóðastofnana og samstarfsaðila Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Það vakti undrun margra þegar ákveðið var að halda umræddan fund í Serbíu svo skömmu eftir átökin á Balkanskaga. Serbum er hins vegar greinilega umhugað um að sýna að þeir ætla sér þátttöku í starfi WHO á við aðrar þjóðir.
Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna, starfsmannastefna heilbrigðisþjónustunnar í Evrópu og ný evrópsk aðgerðaráætlun fyrir fæðu- og næringarstefnu 2007 – 2012 voru meðal þeirra mála sem hæst bar á fundinum.
Nú þegar sá tími er hálfnaður sem aðildarríkin fengu til þess að ná þúsaldarmarkmiðunum getur árangurinn á heimsvísu ekki talist sérlega uppörvandi. Ekkert af starfssvæðum WHO er til að mynda alveg á réttri braut varðandi markmið sem sett hafa verið um lækkun barnadauða þó svo að stór hluti Evrópusvæðisins hafi vissulega nokkra sérstöðu.
Skortur á heilbrigðisstarfsfólki er vandi sem menn glíma jafnt við í ríkum sem fátækum löndum. Heilbrigðisstarfsfólk flytur í vaxandi mæli frá þróunarlöndunum til þeirra landa þar sem velmegun er meiri og þróuðu ríkin mennta ekki nægjanlega marga sérhæfða heilbrigðisstarfsmenn. Samþykkt var áætlun sem leggur áherslu á margvíslegar aðgerðir og víðtækt samstarf til þess að bæta úr því ástandi sem ríkir í starfsmannamálum heilbrigðisþjónustunnar.
Fundur svæðisnefndarinnar samþykkti aðgerðaráætlun um framkvæmd fæðu- og næringarstefnu í Evrópu tímabilið 2007 – 2012 og leysir hún af hólmi fyrri stefnu sama efnis. Þrátt fyrir viðleitni til þess að bæta næringu og öryggi matvæla í aðildarríkjunum hefur sjúkdómabyrðin vegna lélegrar næringar farið vaxandi undanfarin ár. Aðgerðaráætlunin nær til margvíslegra aðgerða sem ætlað er að ná til allra sviða samfélagins, bæði til opinberra aðila og einkaaðila, fræðslu neytenda, heilsueflingar og meiri hreyfingar, og viðleiti til þess að draga úr áhættuþáttum eins og neyslu áfengis og tóbaks.
“Þörfin fyrir öflug og vel starfhæf heilbrigðiskerfi í öllum aðildarríkjunum er algjört grundvallaratriði,” sagði Dr. Margaret Chan, aðalframkvæmdastjóri WHO í ávarpi sínu á fundinum. “Hæfileiki okkar til þess að ná heilsutengdu þúsaldarmarkmiðunum verður metin eftir því hvernig okkur tekst að ná til hinna fátæku með sem víðtækastri þjónustu. Það er þar sem vandinn liggur.”