Heilbrigðisráðherra heimsækir Tryggingastofnun
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, heimsótti í dag starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins.
Ráðherra átti viðræður við stjórnendur og starfsmenn meðal annars um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á verkefnum og starfsemi Tryggingastofnunar en þeim verður “skipt upp og sjúkratryggingar betur afmarkaðar innan heilbrigðisráðuneytis en lífeyristryggingar og félagslegar bætur færðar til félagsmálaráðuneytis” eins og fram kom í stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í gær.
Í heimsókn sinni í Tryggingastofnun afgreiddi ráðherra fyrsta sjálfvirka afsláttarkort Tryggingastofnunar ríkisins sem stofnunin getur nú gefið út eftir móttöku upplýsinga sem berast rafrænt um vefþjónustugátt frá Landspítala (LSH). Gáttin gerir Tryggingastofnun kleift að senda mönnum afsláttarkort sjálfkrafa heim til að tryggja endurgreiðslu kostnaðar heilbrigðisþjónustu á spítalanum þegar tilteknu marki er náð. Tryggingastofnun ríkisins hóf útgáfu sjálfvirka afsláttarkortsins um síðustu áramót. Afsláttarkortið er sent sjálfkrafa heim til sjúkratryggðra einstaklinga sem hafa greitt tiltekna fjárhæð á sama almanaksárinu fyrir heilbrigðisþjónustu og þar með öðlast rétt til að endurgreiðslu útlagðs kostnaðar.
Sjá nánar dreifirit Tryggingastofnunar ríkisins (pdf opnast í nýjum glugga).