Reglugerð um heimild Íbúðalánasjóðs til yfirtöku húsnæðislána
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur undirritað reglugerð um heimild Íbúðalánasjóðs til að yfirtaka íbúðaveðlán fjármálafyrirtækja. Reglugerðin er sett með stoð í nýju ákvæði í lögum um húsnæðismál sem samþykkt var á Alþingi 6. október síðastliðinn vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.
Samkvæmt reglugerðinni verður Íbúðalánasjóði heimilt að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi að því tilskildu að kaupin séu til þess fallin að tryggja öryggi lána á íbúðalánamarkaði og hagsmuni lántakenda. Heimildin á jafnt við um lán í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum. Ef skuldabréf sem sjóðurinn yfirtekur er í erlendri mynt verður skuldbinding lántakanda áfram í sömu mynt.
Hvorki Íbúðalánasjóður né einstaklingar geta haft frumkvæði að því að lán flytjist til sjóðsins heldur þurfa fjármálastofnanir að óska sjálfar eftir því að Íbúðalánasjóður yfirtaki íbúðaveðlán á þeirra vegum. Ef ekki næst samkomulag milli Íbúðalánasjóðs og fjármálafyrirtækis um samningsskilmála og kaupverð sem sjóðurinn telur fullnægjandi með hliðsjón af útlánahættu skal hann synja umsókn fjármálafyrirtækisins um yfirtöku.
Þegar Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið skuldabréfalán öðlast lántakendur sömu réttindi gagnvart sjóðnum og aðrir lántakendur hans og bera jafnframt sömu skyldur. Kjör og skilmálar skuldabréfalána gagnvart lántakendum sem Íbúðalánasjóður yfirtekur verða óbreytt frá því sem var fyrir yfirtöku sjóðsins á láninu eftir því sem við getur átt.
Íbúðalánasjóði er heimilt við kaup á skuldabréfum að gera samkomulag við viðkomandi fjármálafyrirtæki um að það sjái áfram um afgreiðslu og innheimtu þeirra skuldabréfalána sem Íbúðalánasjóður kaupir af fyrirtækinu.