Hoppa yfir valmynd
9. desember 2008 Innviðaráðuneytið

Alþingi samþykkir breytingu á lögum um húsnæðismál

Samþykkt hefur verið á Alþingi frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, um breytingu á lögum um húsnæðismál. Samkvæmt lögunum er nú heimilt að lengja lánstíma lána vegna greiðsluerfiðleika í allt að 30 ár í stað 15 ára og hámarkslánstími hjá sjóðnum er lengdur úr 55 árum í 70 ár. Lenging hámarkslánstíma í 70 ár er gerð til að tryggja að allir geti nýtt sér heimild til skuldbreytingar láns í 30 ár. Þá er sjóðnum nú heimilt að leigja eða fela öðrum með samningi að annast leigumiðlun með íbúðarhúsnæði sem sjóðurinn hefur leyst til sín á nauðungarsölu.

Breytingarnar eru liður í aðgerðum sem ráðherra hefur gripið til í samvinnu við Íbúðalánasjóð til að auka möguleika sjóðsins á því að koma til móts við lántakendur í greiðsluvanda. Heimild Íbúðalánasjóðs til að leigja eða fela öðrum að annast útleigu íbúðarhúsnæðis hefur þann megintilgang að gera leigjendum íbúða sem sjóðurinn hefur eignast á nauðungaruppboði, eða eigendum íbúða sem hafa misst þær vegna greiðsluerfiðleika, kleift að búa áfram í íbúðinni í tiltekinn tíma gegn leigu. Íbúðalánasjóður getur sjálfur annast útleigu íbúða eða falið það öðrum með samningi. Til dæmis gæti sjóðurinn samið við sveitarfélög um að annast þetta verkefni. Ekki er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður eigi og leigi íbúðarhúsnæði til lengri tíma heldur sé hér fyrst og fremst um skammtímaúræði að ræða. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um skilyrði varðandi útleigu sjóðsins á íbúðarhúsnæði og fyrirkomulag þess í reglugerð.


Tenging frá vef ráðuneytisins Lög um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta