Hoppa yfir valmynd
6. október 2012 Innviðaráðuneytið

Ræddi rafræna stjórnsýslu, persónukjör og samgöngumál á aðalfundi Eyþings

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra gerði samgöngumál, eflingu sveitarfélaga, rafræna stjórnsýslu og persónukjör meðal annars að umræðuefni í ávarpi sínu á aðalfundi Eyþings, samtaka sveitarfélaga á Norðausturlandi í gær. Fundurinn var haldinn í menningarhúsinu Bergi á Dalvík og sóttu hann fulltrúar frá sveitarfélögunum og gestir.

Ögmundur Jónasson ávarpaði aðalfund Eyþings 5. október.
Ögmundur Jónasson ávarpaði aðalfund Eyþings 5. október.

Auk Ögmundar fluttu ávörp á fundinum þeir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis, og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Áherslubreyting

Í upphafi ræddi innanríkisráðherra um þá áherslubreytingu sem orðið hefði í umræðu um samgöngumál í þá veru að minni áhersla væri nú lögð á að stytta ferðatíma milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis en frekar að stytta ferðatíma milli byggðarlaga og sagði hann það tengjast að vissu leyti umfjöllun um sóknaráætlun landshluta. Þá ræddi hann um innanlandsflug og sagði mikilvægt að viðhalda góðum innanlandsflugsamgöngum jafnvel þótt vegakerfið færi batnandi. Staðan væri erfið en ræða þyrfti af mikilli yfirvegun hvernig viðhalda eigi góðum flugsamgöngum landsmanna meðal annars á leið leiðum sem ríkið hefur styrkt.

Þá fjallaði ráðherra um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem hann sagði að fyrirrennari sinn í embætti, Kristján L. Möller, hefði unnið að. Því verkefni hefði verið haldið áfram og ljóst væri að í gegnum sveitarfélögin færi nú um þriðjungur af útgjöldum hins opinbera og stefna myndi í vel yfir 40% ef til kæmi flutningur á málefnum aldraðra frá ríki til sveitarfélaga. Hann sagði verkefni um rafræna stjórnsýslu tengjast eflingu sveitarfélaga, þar væri um mikil hagræðingar- og sóknartækifæri að ræða. Unnið væri einnig að undirbúningi þess að koma á persónukjöri við sveitarstjórnarkosningar í góðri samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og kvaðst ráðherra leggja mikla áherslu á að kerfið yrði einfalt og skiljanlegt og að kosningakerfi sem hannað væri  fyrir sveitarstjórnarstigið yrði gert með samþykki sveitarstjórnarmanna.

Frá aðalfundi Eyþings á Dalvík 6. október.

Í lokin greindi ráðherra frá því að í ríkisstjórn þá um morguninn hefði verið tekið til umfjöllunar plagg frá innanríkisráðuneytinu um innanríkisstefnu. Hann sagði marga koma þar við sögu, hún yrði mótuð á Alþingi, í sveitarstjórnum, á ýmsum vettvangi og byggðist á því að finna markvisst  form til að koma á framfæri þeim verkefnum sem IRR er treyst fyrir. Óskað væri eftir góðu samstarfi um mótun aðgerðaráætlana sem teflt yrði fram og væri verið að senda sveitarstjórnum erindi til að hvetja til samstarfs.

Nýtt verklag í sóknaráætlunum

Eitt aðalefni aðalfundarins var umræða um sóknaráætlanir landshluta og breytt verklag í stjórnsýslunni og voru flutt þrjú erindi um efnið.

Hermann Sæmundsson ræddi um sóknaráætlanir á aðalfundi Eyþings 6. október.Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, fjallaði um nýtt verklag. Í máli Hermanns kom fram að tilgangur verkefnisins væri ákveðin valddreifing og bætt verklag við svæðisbundna áætlanagerð til að ná fram skilvirkari stjórnsýslu á sviði byggðaþróunar. Minnti hann á þá samþykkt ríkisstjórnarinnar að fjármunir sem Alþingi ráðstafar til verkefna í einstökum landshlutum á sviði atvinnumála, byggða og samfélagsþróunar byggist á sóknaráætlunum hvers landshluta og renni um einn farveg á grundvelli samnings til miðlægs aðila í hverjum landshluta.

Hólmfríður Sveinsdóttir, verkefnisstjóri í sóknaráætlunum landshluta, ræddi um gerð sóknaráætlana landshluta. Sagði hún mikla áherslu ávallt hafa verið lagða á mikið samráð milli Sambands íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtakanna og stjórnarráðsins. Hólmfríður sagði stefnt að því að allt styrkjafyrirkomulag rynni um sama farveg og að sóknaráætlanirnar endurspegli stefnumótun landshlutanna. Hún sagði næstu skref að móta samráðsvettvang í hverjum landshluta þar sem því væri ekki lokið nú þegar og ákveða fyrirkomulag á móttöku og útdeilingu fjármuna. Huga þyrfti einnig að lagagrundvelli fyrir sóknaráætlanir. Stefnt væri að því að drög sóknaráætlana liggi fyrir í desember og að árin 2013 til 2015 standi tilrauna- og aðlögunartímabil.

Jón Óskar Pétursson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, tók fyrir efnið sóknaráætlun og skipulag samstarfs innan landshluta. Fjallaði hann um skipulag og starfsemi SSNV og hvernig sóknaráætlunin tengdist inn í þá starfsemi.

Frá aðalfundi Eyþings sem haldinn var á Dalvík 5. október.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta