Þakkað fyrir frábærar viðtökur við samráði
Nýlega lauk samráði um tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið kallaði sérstaklega eftir umsögnum enda mikilvægt að sem flestar raddir heyrist svo að á Íslandi þrífist enn sterkara samfélag þar sem þekking og tækni er nýtt með það að markmiði að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein landsins.
Alls bárust 42 umsagnir og þakkar ráðuneytið sýndan áhuga og frábærar hugmyndir sem styrkja og bæta aðgerðirnar. Umsagnirnar eru vel ígrundaðar og koma til með að nýtast vel við mótun aðgerða.
,,Við óskuðum sérstaklega eftir umsögnum enda hefur aldrei verið sett fram stefnumarkandi aðgerðaáætlun um að byggja upp þekkingarsamfélag hérlendis. Það er því mjög ánægjulegt að svona margar umsagnir hafi borist sem munu gera sýnina sterkari og aðgerðirnar betri,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.