Streymi frá ráðstefnu um stuðning við börn innflytjenda
Norræna netið fyrir nýaðflutta nemendur og mennta- og barnamálaráðuneytið boða til ráðstefnunnar Unlocking potential: Effective strategies for supporting immigrant children fyrir stefnumótandi aðila á Norðurlöndunum. Ráðstefnan er haldin fimmtudaginn 7. desember 2023 í Gamla Bíó í Reykjavík á ensku. Hún er opin öllum áhugasömum í streymi.
Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2023. Ráðstefnan er liður í hlutverki Íslands við að auka norrænt samstarf með það að markmiði að byggja upp samfélagslega sjálfbærni á Norðurlöndunum.
Tilgangur ráðstefnunnar er að styrkja faglegt tengslanet norrænna stefnumótenda og efla samstarf í stefnumótun fyrir nýflutt börn innflytjenda til Norðurlandanna, með þeirri sameiginlegu norrænu sýn að byggja stefnu sem gerir börnunum kleift að taka fullan þátt í samfélaginu með sömu framtíðarmöguleikum og jafnaldrar þeirra.
Á ráðstefnunni verða nýjar rannsóknir kynntar ásamt sögum af vettvangi um hvernig styrkja megi móttöku og inngildingu barnanna. Einnig verður rætt um hvernig styðja megi fagfólk og nemendur í tungumálanámi, fyrstu skrefum sínum í nýju samfélagi og virkri þátttöku.
Markmið þess að stefna saman norrænum stefnumótendum í Reykjavík er að miðla þeirri þekkingu sem þarf til að bæta árangur, bæði félagslega og við menntun nemenda með innflytjenda- og flóttamannabakgrunn til að bæta inngildingu og vellíðan þeirra í nýju samfélagi.
Lokað hefur verið fyrir skráningu til þátttöku á staðnum.