Hækkanir bóta almanna- og atvinnuleysistrygginga
Velferðarráðherra hefur kynnt hækkanir á bótum almanna- og atvinnuleysistrygginga í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins á almennum vinnumarkaði í maí síðastliðnum.
Bætur almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga hækka frá 1. júní síðastliðnum þannig að lífeyrisþegar og atvinnuleitendur njóti hliðstæðra kjarabóta og samið var um í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Markmiðið er ekki síst að bæta hag þeirra sem lökust kjörin hafa og draga úr fátækt.
Almannatryggingar
Bætur hækka um 8,1%
Bætur almannatrygginga hækka um 8,1% og er þar með tryggt að lífeyrisþegar með óskertar bætur njóta 12.000 kr. hækkunar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þannig munu lífeyrisþegar njóta hækkunarinnar og þá einnig þeir sem hafa aðrar tekjur, til dæmis frá lífeyrissjóðum eða atvinnutekjur.
Eftirtaldir bótaflokkar almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar hækka um 8,1%:
- Elli- og örorkulífeyrir.
- Tekjutrygging.
- Heimilisuppbót.
- Aldurstengd örorkuuppbót.
- Endurhæfingarlífeyrir.
- Barnalífeyrir.
- Barnalífeyrir vegna menntunar.
- Dánarbætur.
- Maka- og umönnunargreiðslur.
- Mæðra- og feðralaun.
- Sérstök uppbót til framfærslu.
- Sjúkra- og slysadagpeningar.
- Uppbætur vegna kostnaðar.
- Umönnunargreiðslur.
- Vasapeningar.
- Örorkustyrkur.
Viðmið á útreikningum framfærsluuppbótar hækkar.
Enn fremur er viðmiðið á útreikningum framfærsluuppbótar hækkað um 12.000 kr. þannig að lágmarkstrygging einstaklinga verður 196.140 kr. og 169.030 kr. hjá hjónum eða sambýlisfólki. Með þessu er verið að tryggja að þeir sem minnst hafa njóti einnig þeirra hækkana sem kjarasamningar á almennum vinnumarkaði kveða á um.
Jafnframt er gerð sú breyting frá og með 1. júní síðastliðnum verður ekki tekið tillit til uppbótar vegna reksturs bifreiðar (bensínstyrkur) við útreikning framfærsluuppbótar. Uppbót vegna reksturs bifreiðar hækkar jafnframt um 8,1% og verður 11.705 kr.
Eingreiðsla
Þeir sem hafa fengið greiddan lífeyri innan almannatryggingakerfisins á tímabilinu 1. mars til 31. maí 2011 eiga rétt á eingreiðslu að fjárhæð 50.000 kr. Þeir sem eiga rétt á fullum lífeyri fá því óskerta eingreiðslu án tillits til lækkunar vegna annarra tekna. Tryggingastofnun greiðir eingreiðsluna til lífeyrisþega 15. júní næstkomandi.
Desember- og orlofsuppbætur hækka
Orlofsuppbót verður 28,3% af tekjutryggingu og heimilisuppbót í stað 20% eins og gert hafði verið ráð fyrir á þessu ári sem svarar til 10.000 kr. álags samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.
Desemberuppbót verður 42% af tekjutryggingu og heimilisuppbót í stað 30% eins og gert hafði verið ráð fyrir á þessu ári sem svarar til 15.000 kr. álags samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.
Atvinnuleysistryggingar
Grunnatvinnuleysisbætur hækka
Grunnatvinnuleysisbætur hækka um 12.000 kr. sem svarar til krónutöluhækkunar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og verða því 161.523 kr. á mánuði frá og með 1. júní síðastliðnum.
Eingreiðsla
Atvinnuleitendur sem eru að fullu tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hafa staðfest atvinnuleit á tímabilinu 20. febrúar til 19. maí síðastliðinn fá 50.000 kr. eingreiðslu sem greidd verður út 10. júní næstkomandi.
Atvinnuleitendur sem eru hlutfallslega tryggðir eða hafa ekki staðfest atvinnuleit á öllu tímabilinu 20. febrúar til 19. maí síðastliðinn fá greidda hlutfallslega eingreiðslu. Biðtími eftir atvinnuleysisbótum teljast með við útreikninga enda hafi atvinnuleitandi verið skráður á atvinnuleysisskrá þann tíma. Eingreiðslan verður aldrei lægri en 12.500 kr. miðað við að atvinnuleitandi hafi verið að fullu tryggður.
Desemberuppbót
Enn fremur hefur verið ákveðið að atvinnuleitendur njóti desemberuppbóta sem reiknast sem 30% af grunnatvinnuleysisbótum. Er jafnframt gert ráð fyrir að greitt verði álag að fjárhæð 15.000 kr. í desember 2011 í samræmi við álag á desemberuppbót launafólks á almennum vinnumarkaði. Desemberuppbótin í desember 2011 til atvinnuleitenda verður því 63.457 kr.
Aðrar greiðslur
Jafnframt verða greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna hækkaðar um 8,1% sem og fæðingarstyrkur til foreldra og ættleiðingarstyrkir.
Sjá einnig reglugerðir tengdar hækkunum bóta
- Reglugerð nr. 565/2011 um fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2011
- Reglugerð nr. 566/2011 um breytingu á reglugerð nr. 548/2006, um fjárhæð atvinnuleysistrygginga
- Reglugerð nr. 567/2011 um breytingu á reglugerð nr. 1025/2008, um sjúkradagpeninga
- Reglugerð nr. 568/2011 um breytingu á reglugerð nr. 1009/2010, um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2011
- Reglugerð nr. 569/2011 um breytingu á reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri
- Reglugerð nr. 570/2011 um eingreiðslu til elli- og örorkulífeyrisþega í júní 2011
- Reglugerð nr. 571/2011 um breytingu á reglugerð nr. 170/2009, um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða
- Reglugerð nr. 572/2011 um breytingu á reglugerð nr. 991/2010, um orlofs- og desemberuppbætur til lífeyrisþega árið 2011
- Reglugerð nr. 573/2011 um breytingu á reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks
- Reglugerð nr. 574/2011 um breytingu á reglugerð nr. 1008/2010, um fjárhæðir greiðslna og frítekjumarks fyrir árið 2011 samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna