Um Leiðarljós og þjónustu við langveik börn
Unnið er að því að tryggja heilbrigðisþjónustu við langveik börn sem Leiðarljós hefur sinnt, með samningi við Heilsueflingarmiðstöðina ehf. Fullyrðingum forstöðumanns Leiðarljóss um svik heilbrigðisráðherra við langveik börn er vísað á bug.
Velferðarráðuneytið hefur að að undanförnu haft til skoðunar þjónustu við langveik börn sem Leiðarljós hefur sinnt frá því að það var stofnað fyrir söfnunarfé almennings árið 2012. Árið 2016 ákvað heilbrigðisráðherra að leggja félaginu Nótt og degi (sem reka Leiðarljós) rúmar 25 milljónir króna til rekstrarins meðan unnið yrði að því að finna þjónustunni farveg til framtíðar. Samkvæmt lögum um sjúkratryggingar er það á verksviði Sjúkratrygginga Íslands að gera samninga um heilbrigðisþjónustu.
Í september sl. var það niðurstaða fundar Leiðarljóss og ráðuneytisins að tengja starfsemi Leiðarljóss við heimahjúkrun barna sem veitt er á vegum Heilsueflingarmiðstöðvarinnar samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Heilbrigðisráðherra fól Sjúkratryggingum Íslands að undirbúa samning við Heilsueflingarmiðstöðina vegna heilbrigðisþjónustu Leiðarljóss við langveik börn. Við undirbúning málsins hjá Sjúkratryggingum Íslands var gerð greining á þeirri þjónustu sem annars vegar er veitt langveikum börnum af hálfu Heilsueflingarmiðstöðvarinnar og hins vegar af hálfu Leiðarljóss. Greiningin leiddi í ljós að stór hluti af þjónustu Leiðarljóss er sá sami og fram kemur í samningi Heilsueflingarmiðstöðvarinnar og Sjúkratrygginga Íslands. Eigandi Heilsueflingarmiðstöðvarinnar, Bára Sigurjónsdóttir, er jafnframt framkvæmdastjóri Leiðarljóss. Á fundi velferðarráðuneytisins með Báru hefur ítrekað komið fram að hún telji heimahjúkrun barna ekki nógu vel sinnt vegna fjárskorts. Meðal annars í því ljósi var það niðurstaða velferðarráðuneytisins að í stað þess að gera tvo samninga um þjónustu við langveik börn, þ.e. annars vegar við Nótt og dag um þjónustu Leiðarljóss og hins vegar við Heilsueflingarmiðstöðina um heimahjúkrun barna, væri skynsamlegra að gera einn samning við Heilsueflingarmiðstöðina en breyta þeim samningi í þá veru að fyrirtækið gæti betur sinnt þeim þáttum sem nú er sinnt af hjúkrunarfræðingum Leiðarljóss. Á þessum grundvelli hefur velferðarráðuneytið falið SÍ að ganga til samnings við Heilsueflingarmiðstöðina um aukna þjónustu og er ráðgert að veita 12 milljónum króna til aukinna verkefna vegna þjónustu við langveik börn og fjölskyldur þeirra.