Hagsmunamat Íslands á norðurslóðum til umsagnar
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kemur fram að meginmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu sé að gæta hagsmuna lands og þjóðar á alþjóðavettvangi og að unnið skuli að því að Ísland verði leiðandi afl á norðurslóðum og virkur þátttakandi í vestnorrænu starfi. Ennfremur segir að hefja skuli undirbúning að nýtingu tækifæra sem skapast með opnun siglingaleiða um norðurslóðir og áhersla verði lögð á að verkefni þeim tengd verði vistuð hérlendis.
Þróun mála á norðurslóðum er margþátta. Ríki við norðurskautið standa frammi fyrir margvíslegum tækifærum og áskorunum og hefur Ísland verulegra hagsmuna að gæta. Til að nýta þau tækifæri og mæta þeim áskorunum er ljóst að horfa þarf til þróunarinnar á norðurslóðum með heildstæðum hætti. Með það í huga, og svo tryggja megi skilvirka og samræmda hagsmunagæslu Íslands á æðsta stigi stjórnsýslunnar, ákvað ríkisstjórnin hinn 8. október 2013 að setja á fót ráðherranefnd um málefni norðurslóða. Nefndin starfar í samræmi við reglur um starfshætti ráðherranefnda nr. 166/2013 og er stýrt af forsætisráðherra. Í nefndinni eiga að öðru leyti fast sæti utanríkisráðherra, innanríkisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra.
Í samræmi við stefnumið nefndarinnar hefur undanfarið ár verið unnið að hagsmunamati Íslands á norðurslóðum. Horft er til hagsmuna Íslands með heildstæðum hætti og þess freistað að greina jafnt tækifæri sem viðsjár. Drög að mati á hagsmunum Íslands á norðurslóðum liggja nú fyrir og eru birt hér á vefnum til umsagnar.
Umsagnarfrestur um drögin er til 31. mars nk. og óskast umsagnir sendar á netfangið[email protected] með efnislínunni: Umsögn um mat á hagsmunum Íslands á norðurslóðum.