Álagning opinberra gjalda á einstaklinga fyrir 2020
Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga sbr. frétt á vef Skattsins í dag og tilkynningu frá Fjársýslu ríkisins. Álagningin 2021 tekur mið af tekjum einstaklinga árið 2020 og eignastöðu þeirra 31. desember 2020.
Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:
- Fjöldi framteljenda er 312.511 og fækkar um 826 frá því árið 2019. Þetta er í fyrsta skipti frá árinu 2011 sem framteljendum fækkar á milli ára. Skattskyldar tekjur framteljenda eru 1.816 ma.kr. og skila samtals 226 ma.kr. í tekju- og fjármagnstekjuskatt til ríkissjóðs og 256 ma.kr. í útsvar til sveitarfélaga. 236 þúsund einstaklingar fá álagðan tekjuskatt og 301 þúsund álagt útsvar. Tekjulausir framteljendur eru um 12 þúsund.
- Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2021 vegna tekna ársins 2020 nam 1.701 ma.kr. og hækkaði um 5,7% frá fyrra ári. Stofninn telur öll laun og ígildi launa, hlunnindi, lífeyri frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, styrki og hvers kyns aðrar greiðslur.
- Af einstökum tekjuliðum tekjuskatts- og útsvarsstofnsins var mesta hækkunin í atvinnuleysisbótum sem hækka um 46,5 ma.kr. frá fyrra ári og voru samtals 65 ma.kr. Viðtakendur atvinnuleysisbóta voru 55.557 og en fjöldi þeirra fjórfaldast milli ára. Þá jukust greiðslur úr lífeyrissjóðum um 36,4 ma.kr. sem er 24,3% aukning milli ára. Vegur þar þungt sérstök úttekt séreignarsparnaðar vegna COVID-19 þar sem 14.988 manns nýttu sér úrræðið á árinu 2020 og tóku samtals út 18,7 ma.kr.
- Til frádráttar tekjuskatts- og útsvarsstofni koma meðal annars frádráttarbær iðgjöld í lífeyrissjóð, kostnaður á móti ökutækjastyrk og dagpeningar, ásamt frádrætti vegna ýmissa styrkja. Heildarfrádráttur frá tekjuskatts- og útsvarsstofni er 107,3 ma.kr. og vegur þar þyngst frádregið iðgjald í lífeyrissjóði og frádregið iðgjald í séreignalífeyrissjóði. Þá fengu 66 einstaklingar frádrátt vegna kaupa á hlutabréfum og lækkaði það tekjuskattsstofn þeirra um 122 m.kr.
- Fjöldi þeirra sem fá áætlaðan tekjuskattsstofn eru 13.871 og fækkar um 13,1% á milli ára. Samtals var áætlað tæplega 67,3 ma.kr. að meðtöldu álagi og nemur hlutfall áætlaðs tekjuskattsstofn 4,0% af tekjuskatts- og útsvarsstofninum.
- Álagður tekjuskattur að frádregnum persónuafslætti sem rennur til ríkissjóðs er 203,9 ma.kr. og hækkar um 6,7 ma.kr. á milli ára eða um 3,4%. Nemur almennur tekjuskattur því rúmum 44,4% af samanlagðri álagningu almenns tekjuskatts og útsvars. Árið 2020 var nýtt tekjuskattsþrep tekið upp sem hluti af tekjuskattsbreytingum og var sú breyting til lækkunar á skattbyrði tekjuskatts.
- Álagt útsvar til sveitarfélaga er 255,8 ma.kr. sem er 4,7% aukning milli ára. Fjöldi framteljenda með álagt útsvar er 300.796 og fækkar um 1.488 frá fyrra ári, eða um 0,5%. Í þeim tilvikum þar sem persónuafsláttur er nýttur til greiðslu útsvars ábyrgist ríkissjóður greiðslu útsvars til sveitarfélaganna. Ríkissjóður greiðir þannig að öllu leyti útsvar þeirra sem hafa tekjur undir skattleysismörkum. Persónuafsláttur nýttur til greiðslu útsvars fyrir tekjuárið 2020 nemur 8,8 ma.kr. sem er 2,0% hækkun á milli ára. Útsvar greitt af ríkissjóði í formi persónuafsláttar nemur nú 3,4% af heildarútsvarstekjum sveitarfélaga.
- Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 22,3 ma.kr. sem er 7,9% lækkun milli ára. Fjölskyldum sem greiða fjármagnstekjuskatt fækkar um 36,1% og eru samtals 25.395. Ein helsta ástæða fækkunar greiðenda fjármagnstekjuskatts eru breytingar sem gerðar voru á fjármagnstekjuskatti einstaklinga þar sem frítekjumarkið var tvöfaldað úr 150 þús.kr. í 300 þús.kr. Þá var frítekjumarkið auk þess útvíkkað þannig að það nær auk vaxtatekna til úthlutaðs arðs og söluhagnaðar hlutabréfa í félögum sem skráð eru á skipulagðan verðbréfamarkað. Meðalfjármagnstekjuskattur á hverja fjölskyldu er 879 þús.kr. sem er hækkun um 44,2% milli ára.
- Fjármagnstekjur voru 115,7 ma.kr. og drógust saman um 5,2% á milli ára. Skipta má fjármagnstekjum arð, vexti, leigu og söluhagnað. Tekjur af arði er stærsti einstaki liður fjármagnstekna, eða 44%. Tekjur af arði námu 51 ma.kr árið 2020, sem er 11,7% hækkun á milli ára. Hækkunin skýrist að öllu leyti af auknum arði af erlendum hlutabréfum. Fjölskyldum sem telja fram arð fækkar töluvert á milli ára. Tekjur af söluhagnaði námu 25,2 ma.kr. og dragast saman um 16,6% á milli ára. Fjöldi fjölskyldna sem telja fram tekjur af söluhagnaði eykst lítillega milli ára. Tekjur af vöxtum námu 23,9 ma.kr. og dragast saman um 6,3 ma.kr. eða um 20,9%. Munar þar mest um vexti af innistæðum í bönkum sem drógust saman um 42,7%. Þá námu leigutekjur 15,1 ma.kr. og drógust saman um 2,6% milli ára. Um 7.550 fjölskyldur telja fram leigutekjur og fækkar þeim lítillega milli ára.
- Í árslok 2020 voru eignir heimilanna metnar á 7.678 ma.kr. og jukust um 7,2% frá fyrra ári. Þar af voru fasteignir 74% af heildareignum og verðmæti þeirra 5.662 ma.kr. sem er 5,8% hækkun á milli ára. Fasteignaeigendum fjölgaði um 3.722 samkvæmt skattframtölunum og voru samtals 108.166. Þá námu framtaldar skuldir heimilanna 2.380 ma.kr. og hækkuðu um 9,4% milli ára. Þar af námu framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa samtals 1.752 ma.kr. sem er 12,4% hækkun milli ára. Nettóeign heimila, skilgreind sem heildareignir að frádregnum heildarskuldum, var samtals 5.298 ma.kr. og jókst um 6,2% á milli ára. Samtals eru 30.433 fjölskyldur með skuldir umfram eignir og fækkar þeim um tæplega 2.000 milli ára.
- Framteljendur á aldrinum 16-69 ára með tekjur yfir skattleysismörkum þurfa að greiða útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraða. Tekjur af útvarpsgjaldi nema 4,2 ma.kr. og hækka um 1,9% milli ára og var fjöldi greiðenda rúmlega 227 þúsund. Tekjur af gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraða nema 2,7 ma.kr. og hækka um 2,1% milli ára.
- Greiðslur ríkissjóðs vegna barnabóta nema 12,5 ma.kr. sem er 3,4% hækkun milli ára. Rúmlega 49 þúsund einstaklingar fá barnabætur og fjölgar um 3,0% milli ára. Neðri skerðingarmörk barnabóta voru hækkuð um 8,0% fyrir álagningu 2021. Til viðbótar almennum barnabótum er greiddur sérstakur barnabótaauki að upphæð 30 þús.kr með hverju barni þeirra foreldra sem fá greiddar tekjutengdar barnabætur samkvæmt niðurstöðu álagningar. Um er að ræða aðgerð vegna heimsfaraldurs COVID-19. Heildarfjárhæð barnabótaaukans nemur 1,6 ma.kr. og rennur til 49 þúsund einstaklinga.
- Almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2020, nema 2,4 ma.kr. sem er 8,1% lækkun milli ára. Rúmlega 15 þúsund einstaklingar fá almennar vaxtabætur og fækkar þeim um 2,9% milli ára. Lækkun vaxtabóta nú eins og fyrri ár skýrist af betri eiginfjárstöðu heimila og lækkun vaxta. Nýting iðgjalda af séreignarsparnaði til greiðslu íbúðarskulda skiptir þar máli og auk þess auknar tekjur og þar með minnkandi vaxtabyrði.
- Inneign framteljenda að lokinni álagningu er alls 26,6 ma.kr. en þar af verður 3,5 ma.kr. ráðstafað upp í kröfur vegna vangoldinna gjalda. Eftir stendur því 23,1 ma.kr. sem tæplega 171 þúsund manns eiga í inneign hjá ríkissjóði nú um mánaðamótin. Um er að ræða endurgreiðslur á ofgreiddum sköttum, barnabætur, barnabótaauka og vaxtabætur. Þá á ríkið kröfur á hluta gjaldenda sem verða á gjalddaga á síðari hluta ársins 2021 vegna vangreiddra skatta ársins 2020 og eldri krafna. Sú fjárhæð nemur alls 56,7 ma.kr.
Útborgun til einstaklinga í kjölfar álagningarinnar
M.kr. | 2020 | 2021 |
---|---|---|
Barnabætur | 3.396 | 3.438 |
Sérstakur barnabótaauki | 3.000 | 1.613 |
Vaxtabætur | 2.151 | 1.987 |
Ofgreidd staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars | 13.003 | 14.725 |
Ofgreidd staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts | 1.075 | 957 |
Annað | 474 | 397 |
Alls | 23.098 | 23.117 |
- Heildarfjárhæðin sem greidd er út við álagninguna er 23,1 ma.kr. og helst svo gott sem óbreytt á milli ára. Töluverð aukning varð á ofgreiddri staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars en á móti lækkaði heildarupphæð sérstaka barnabótaaukans. Þá mun ríkissjóður auk þess greiða 3,4 ma.kr. í barnabætur þann 1. október næstkomandi.