Nýtt lofthreinsiver tífaldar afköst föngunar og förgunar
Framkvæmdir eru hafnar á nýju lofthreinsiveri Climeworks á Hellisheiði, Mammoth, sem í samstarfi við Carbfix og Orku náttúrunnar, mun tífalda núverandi afköst föngunar og förgunar á koldíoxíði (CO2) úr andrúmslofti á svæðinu. Fyrir er Orca, lofthreinsiver Climeworks, sem tók til starfa haustið 2021 og var fyrsta sinnar tegundar í heiminum.
Í nýjustu loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna kemur fram að auk verulegs samdráttar í losun er föngun og förgun CO2 úr andrúmslofti nauðsynleg í meirihluta þeirra sviðsmynda sem takmarka hlýnun andrúmsloftsins við 1,5 gráður árið 2100. Í skýrslunni kemur fram að til að ná því markmiði þurfi að fanga allt að 310 milljarða tonna af CO2 úr andrúmsloftinu til næstu aldamóta.
Með nýja lofthreinsiverinu, fara afköst föngunar á Hellisheiði úr fjórum þúsundum tonna af CO2 á ári í alls 40 þúsund tonn en því er síðan fargað neðanjarðar með Carbfix tækninni, þar sem það hvarfast við berggrunninn og myndar steindir. Mörg tækifæri felast í föngun og förgun CO2 beint úr andrúmsloftinu en Carbfix hlaut ásamt samstarfsaðilum sínum, Heirloom og Verdox, tvenn Milestone verðlaun í fyrri umferð XPRIZE Carbon Removal verðlaunanna. Einnig stendur til að byggja svokallaða DAC þróunarstöð sem mun ýta undir tækniþróun fyrirtækja sem sérhæfa sig í föngun koldíoxíðs beint úr andrúmsloftin og vilja farga með Carbfix tækninni.