Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2014

Úrskurður


 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. nóvember 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 7/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. október 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 9. október 2013 fjallað um mál kæranda og tekið þá ákvörðun að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar á grundvelli 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi hafið rekstur og verði atvinnuleysisbætur ekki greiddar fyrir þann tíma sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 15. febrúar til 31. ágúst 2013, samtals með inniföldu 15% álagi 690.204 kr. sem verði innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 8. janúar 2014, og óskar þess að ákvörðunin verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 17. janúar 2013. Hún var afskráð af atvinnuleysisskrá 26. febrúar til 28. febrúar 2013 og 1. mars 2013 barst Vinnumálastofnun reikningur vegna verktakavinnu kæranda. Kærandi var einnig afskráð á eftirtöldum tímabilum: 12. apríl til 21. apríl 2013, 8. júní til 16. júní 2013 og 6. ágúst til 12. ágúst 2013 vegna verktakavinnu. Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 30. apríl 2013, var farið fram á það við kæranda að hún gæfi undirritaða yfirlýsingu þar sem fram kæmi að hún myndi ekki starfa við rekstur á eigin kennitölu eða taka að sér verktakavinnu án undanfarandi tilkynningar til stofnunarinnar og afskráningar á meðan verkefnið stæði. Var henni jafnframt tilkynnt að ef hún væri skráð á launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra þyrfti Vinnumálastofnun að berast staðfest afrit af tilkynningu til ríkisskattstjóra um afskráningu af launagreiðendaskrá. Kærandi skilaði í kjölfarið yfirlýsingu um að hefja ekki rekstur eða taka að sér verktakavinnu án undanfarandi tilkynningar til stofnunarinnar, dags. 8. maí 2013.

Við skoðun Vinnumálastofnunar á máli kæranda kom í ljós að hún hafði verið með opna launagreiðendaskrá frá 15. febrúar 2013 og var því óskað eftir skýringum kæranda, með bréfi dags. 12. september 2013, á ástæðu þess að hún hefði ekki tilkynnt Vinnumálastofnuna að svo væri. Engar skýringar bárust frá kæranda og var því tekin ákvörðun á fundi Vinnumálastofnunar 10. október 2013 um málefni kæranda eins og rakið hefur verið.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun og var hún veitt í bréfi Vinnumálastofnunar dags. 1. nóvember 2013. Í rökstuðningnum kemur meðal annars fram að frá því að kærandi hafi hafið töku atvinnuleysisbóta 17. janúar 2013 hafi Vinnumálastofnun borist tilkynningar frá henni um verktakavinnu. Að lokinni verktakavinnunni hafi hún ávallt skilað inn reikningi til stofnunarinnar vegna vinnunnar ásamt undirritaðri yfirlýsingu um að hún myndi ekki hefja rekstur samhliða atvinnuleysisbótum en á yfirlýsingunni komi fram að óheimilt sé að vera skráður á launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Í rökstuðningsbeiðni kæranda, dags. 17. október 2013, óski hún eftir upplýsingum um það hvers vegna stofnunin hafi ekki kallað eftir frekari gögnum þegar hún hafi skilað inn þeim reikningum sem hún hafi gert mánaðarlega. Þrátt fyrir að aðili taki að sér verktakavinnu og gefi út reikning vegna þess þá leiði það ekki í öllum tilvikum til þess að viðkomandi opni launagreiðendaskrá. Slíkir aðilar sem opni ekki launagreiðendaskrá séu svokallaðir ársmenn. Af þeim sökum hafi ekki verið kallað eftir frekari upplýsingum frá henni, enda hafi Vinnumálastofnun ekki haft ástæðu til þess að ætla að hún væri með opinn rekstur. Hafi það fyrst verið í september 2013 þegar mál kæranda hafi farið í nánari skoðun að í ljós hafi komið að hún hafi verið með opna launagreiðendaskrá frá 15. febrúar 2013.

Af hálfu kæranda kemur fram að í upphafi árs 2013 hafi henni boðist að taka að sér tilfallandi snyrtingar sem verktaki. Hún hafi borið það undir ráðgjafa Vinnumálastofnunar á B sem hafi sagt við hana að hún yrði afskráð þá daga sem hún væri að vinna sem verktaki. Hún hafi talið sig hafa gert allt rétt og í fávisku sinni hafi hún ekki vitað nákvæmlega hvað launagreiðendaskrá væri því bókari hennar sæi alfarið um þá hlið málsins. Kærandi kveðst í kjölfar leiðbeininga Vinnumálastofnunar hafa gefið stofnuninni upp lista mánaðarlega yfir unna daga. Þetta hafi hún gert samviskusamlega og ekki fengið neina athugasemd við þetta fyrirkomulag fyrr en með hinni kærðu ákvörðun. Þá hafi henni verið tjáð af fulltrúum Vinnumálastofnunar að hún hefði ekki átt að skila af sér skatti og skyldum mánaðarlega heldur með ársskilum. Hjá ríkisskattstjóra hafi hún síðan fengið þær upplýsingar að hægt væri að leiðrétta þessa rangskráningu með því að skrá tekjurnar allar á eitt tímabil þar sem árstekjur hennar hafi ekki náð 450.000 kr. og hafi það verið gert. Hún hafi því ekki verið með opna launaskrá lengur en um það hafi misskilningurinn snúist.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 10. mars 2014, kemur fram að mál þetta varði ofgreiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda á tímabilinu 15. febrúar til 31. ágúst 2013 sökum þess að kærandi hafi verið með opna launagreiðendaskrá sem verktaki. Verktakar teljist vera sjálfstætt starfandi einstaklingar í skilningi 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt f- og g-liðum 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysisbótum atvinnuleitanda að hann hafi stöðvað rekstur og leggi fram staðfestingu um stöðvun rekstrar skv. 20. og 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af gögnum máls þessa megi ráða að kærandi hafi verið með opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu 15. febrúar til 31. ágúst 2013. Þá liggi fyrir að kærandi hafi undirritað 8. maí 2013 yfirlýsingu þar sem fram komi að óheimilt sé að vera skráður á launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Hefði kæranda því átt að vera kunnugt um að henni væri óheimilt að vera með opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta.

Í kæru kæranda hafi komið fram að hún hafi fengið þær upplýsingar frá ráðgjafa stofnunarinnar að hún ætti rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á móti þeim tekjum sem hún myndi afla sem verktaki, sambærilegt og ef hún fengi hlutastarf í minna en 50% starfshlutfalli. Vinnumálastofnun geti ekki fallist á með kæranda að henni hafi verið veittar tilvitnaðar leiðbeiningar, enda komi fram í rökstuðningsbeiðni hennar frá 17. október 2013 að henni hafi verið veittar þær leiðbeiningar að hún yrði afskráð þá daga sem verktakavinna hennar færi fram og ætti hún að óska eftir endurkomu á greiðsluskrá að verktakavinnunni lokinni. Sé það í samræmi við það fyrirkomulag sem viðhaft sé hjá stofnuninni vegna verktakavinnu. Í kæru sinni greini kærandi einnig frá því að hún hafi fengið þær leiðbeiningar frá ráðgjafa Vinnumálastofnunar að hún þyrfti að skila af sér staðgreiðslu skatts af verktakalaunum sínum mánaðarlega til ríkisskattstjóra. Í því samhengi bendi Vinnumálastofnun á að staðgreiðsla skatta og annarra launatengdra gjalda sé á ábyrgð skattaðilans og sé það hlutverk ríkisskattstjóra að veita skattaðilum leiðbeiningar þar um.

Ljóst sé að kærandi hafi verið með opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu 15. febrúar til 31. ágúst 2013 og af þeim sökum hafi hún ekki uppfyllt skilyrði laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. mars 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 27. mars 2014. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

2.      Niðurstaða

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 17. janúar 2013 en greiðslur til kæranda voru stöðvaðar með ákvörðun Vinnumálastofnunar 9. október 2013 þar sem hún var ekki talin hafa uppfyllt skilyrði f- og g-liða 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með því að hafa verið með opna launagreiðendaskrá sem verktaki á tímabilinu. Kæranda var gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 15. febrúar til 31. ágúst 2013 að fjárhæð samtals 690.204 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag.

Af gögnum málsins má ráða að kærandi taldist vera sjálfstætt starfandi einstaklingur skv. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til sjálfstætt starfandi einstaklinga er að hann hafi stöðvað rekstur sinn og lagt fram staðfestingu um slíka stöðvun skv. f- og g-liðum 18. gr., sbr. 20. og 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Fyrir liggur að kærandi skráði sig nokkuð reglulega af atvinnuleysisskrá og lagði fram reikninga vegna verktakavinnu sinnar alveg frá því að hún sótti um atvinnuleysisbætur eins og rakið hefur verið og fram kemur í gögnum málsins. Kærandi innti Vinnumálastofnun eftir því hvers vegna ekki hafi verið kallað eftir frekari gögnum frá henni vegna þess að hún afhenti reglulega reikninga. Því var svarað með þeim hætti að þrátt fyrir það að aðili taki að sér verktakavinnu og gefi út reikninga vegna þess leiði það ekki í öllum tilvikum til þess að viðkomandi opni launagreiðendaskrá. Slíkir aðilar sem opni ekki launagreiðendaskrá séu svokallaðir ársmenn. Þar af leiðandi hafi ekki verið kallað eftir frekari upplýsingum frá kæranda enda hafi Vinnumálastofnun ekki haft ástæðu til þess að ætla að hún væri með opinn rekstur.

Verktakar teljast vera sjálfstætt starfandi einstaklingar skv. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt f- og g-liðum 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklings að hann hafi stöðvað rekstur og leggi fram staðfestingu um stöðvun reksturs skv. 20. og 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal sjálfstætt starfandi einstaklingur leggja fram staðfestingu á því að hann hafi stöðvað rekstur og skal staðfestingin fela í sér yfirlýsingu um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð og ástæður fyrir því og afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra um að rekstur hafi verið stöðvaður, vottorð frá skattyfirvöldum um að skráningarnúmer hans hafi verið tekið af skrá eða önnur viðeigandi gögn frá opinberum aðilum sem staðfest kunni stöðvun rekstrar.

Kærandi var samkvæmt framanskráðu með opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu 15. febrúar til 31. ágúst 2013. Hún uppfyllti því ekki skilyrði laganna á því tímabili. Vinnumálastofnun var því rétt að gera henni að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur samtals að fjárhæð 690.204 kr. að inniföldu 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

 Úr­skurðar­orð

 Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. október 2014 um að stöðvar greiðslur atvinnuleysisbóta til A er staðfest. Staðfest er sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 15. febrúar til 31. ágúst 2013 að fjárhæð samtals með 15% álagi 690.204 kr.

 

Brynhildur Georgsdóttir,  for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta